Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Jólanótt | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Jólanótt

Fyrsta ljóðlína:Hjá rúmi barnsins logar ljós í stjaka
Höfundur:Einar Bragi
bls.54
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1972
Flokkur:Jólaljóð

Skýringar

(Hugsað til Víetnam, þegar Bandaríkjamenn minntust jólanna 1972 með því að herða sprengjuregnið sem aldrei fyrr)

1.
Hjá rúmi barnsins logar ljós í stjaka.
Hve líf sem friðar nýtur andar rótt.
Ég veit í haga hirðar góðir vaka
og hjarðar sinnar gæta enn í nótt.
2.
En burt er vikinn sá er forðum færði
þeim fögnuð mikinn, lýðnum nýja von.
Með kross á enni annar kom og særði
til ólífis þinn bróður, mannsins son.
3.
Og fánýt er þín leit að leiðarstjörnum:
þær leynast daprar bak við niðdimm ský,
því handa jarðarinnar jólabörnum
er jata engin til að fæðast í.
4.
Með ykkur snauðu hirðar vil ég vaka
og vitringunum þessa löngu nótt
og minnast þess við lítið ljós í stjaka,
hve líf sem friðar nýtur andar rótt.