Á Þingvöllum 1895 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Á Þingvöllum 1895

Fyrsta ljóðlína:Við hlutum af feðrunum sigurfræg sverð
bls.75–76
Bragarháttur:Sex línur (þríliður) fer- og þríkvætt aBaBcc
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1895
1.
Vér hlutum af feðrunum sigurfræg sverð
og sagnir um frjálshuga drengi,
og hörpuna gömlu við eigum að erfð
með ósvikna, hljómdjúpa strengi.
En nú þarf að stilla hvern streng sem hún á
og stálið hið góða úr ryðinu slá.
2.
Hér vantar ei máttinn. Þó mikið ei vinnst
til menningar — sælu og þarfa.
Frá tanganum fremsta í afdalinn innst,
frá æsku til grafar menn starfa.
— Því standa svo menn eftir stríð og raun
með stritkrepptar hendur og engin laun?
3.
Hvað er það sem bannar svo auganu að sjá
og eyranu sannleik að heyra?
Hvort stafa ei óvættir okinu frá
sem andann í fangelsi keyra?
Hvað stoðar að eiga sér styrk og þor
ef stigið er öfugt í blindni hvert spor?
4.
Vér þurfum að opna vor augu, að sjá,
og eyru vor, sannleik að heyra
og vinna um leið allt sem vinna má
á vegi til annars — og meira.
Það tekst oss ef leyst verður lýðsins hönd,
ef leyst verða af fólkinu andans bönd. —
5.
Vér þurfum að sættast, slá hendi í hönd
og hatrinu í bróðerni gleyma.
Með frelsis vors óvin á erlendri strönd
er óvit að kýtast hér heima.
Í sameining vorri er sigur til hálfs,
í sundrungu glötun vors réttasta máls.
6.
En kaupi sér nokkur manns vinskap og vild
því verði að Ísland hann svíki
skal byggja honum út inn í fjandmanna fylgd
og föðurlandssvikarans ríki.
Þar skipta ei flokkunum skoðanir manns, —
þeir skiptast um hagnað og tjón þessa lands.