Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Hjálmarskviða | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hjálmarskviða

Fyrsta ljóðlína:Fjaðrar broddi ferðin vex
Bragarháttur:Ferskeytt – skothent (frumhent)
Viðm.ártal:≈ 1850

Skýringar

Kviðan er tekin eftir eiginhandarriti í Lbs. 467, II, 4to, frá síðustu árum hans.
Eldri eiginhandarrit eru í Lbs. 467, I, 4to, Lbs. 1507, 8vo og Lbs. 467, III, 4to. Eysteinn Sigurðsson gekk frá texta og bjó til skjábirtingar.
Kvæði um bardaga þeirra Örvar-Odds og Hjálmars ins hugumstóra í Sámsey, einnin banasöngur og útför Hjálmars og sigurvinning. Frumhending í auðveldasta máli.
1.
Fjaðrar broddi ferðin vex
fram um leturs veldi,
þar sem Oddur seggi sex
sonu Arngríms felldi.
2.
Var Semingur vígs á bekk,
vomurinn máttar stærstur,
í víkinga atför gekk
Angantýri nærstur.
3.
Entist þor og afbragðs megn
Odds við fjendur digra,
stáls úr sporum steypiregn
streymdi um lendi vigra.
4.
Stála þingi ströngu lauk,
stirðnuð gliðna sárin,
upp af dyngju rauðri rauk,
rispar tönnum nárinn.
5.
Geysimóður, síður sár,
(svalar brjósti þeyrinn),
uppi rjóður stála stár,
styðst við dreyrgan geirinn.
6.
Ofan um virtan fleygir fjárs
flíkur slitnar löfðu,
allt að skyrtu skrúðann Hárs
skorið sverðin höfðu.
7.
Lúinn síðan lítur hvar
lyftir spanga dýri,
Hjálmar fríði bjartan bar
brand að Angantýri.
8.
Hafði dóla fellda fimm
frægðarkappinn sveitti,,
Hárs á kjóla höggin grimm
hvör þar öðrum veitti.
9.
Titrar hauður, trölla megn
tveir á hólmi sýna,
unda rauðu elin gegn
Óma leiftrin skína.
10.
Skjöldum sundur skiptu ríkt
skurðir höggvopnanna,
aldrei mundi Oddur slíkt
einvíg tveggja manna.
11.
Bjarta málma brandur gnýr,
benin opnuð mígur,
undir Hjálmars Angantýr
ekta vopnum hnígur.
12.
Hjörvi beygður hrikinn knár
hels að keppti rönnum,
sundur teygðist búkur blár,
beittum urgar tönnum.
13.
Hinn sig lúinn bráðla ber
burt af höggva láði,
upp við þúfu þæga sér
þreyttur halla náði.
14.
Hels að kynning bliknar blóð,
brjálast fjörið varma,
en sigurvinning strjáluð stóð
stjörnum út af hvarma.
15.
Rofin hangir brynjan blá
brands á hljóðum runni,
Oddur þangað gjörði gá,
gelur ljóð af munni:
16.
„Hvað er, Hjálmar, hefur þú
hreinum brugðið liti?
Sporin skálma spillast nú,
spá þér andar sliti.
17.
Dofna snilldar fjörið fer,
feigð að kallar óðum.“
Hönum gildur geira ver
gelur spjall í ljóðum:
18.
„Sextán gýs úr sárum blóð,
syrtir að hvarma mótum,
Angantýs mér eitruð vóð
egg að hjarta rótum.
19.
Undir hósti lúðrar líf,
linar stríða þorinn,
fyrir brjósti er höggvin hlíf,
hjálmur víða skorinn.
20.
Fölur hníg á skeiði Skráms,
sköpum stefnir Óðinn,
austan flýgur eiði Sáms
ern og hrefnu jóðin.
21.
Hefja skvöldur hrafnar þá,
hlakka að fóðri sínu,
dauðans köldu dægri á
drykkjast blóði mínu.
22.
Til þess fremur þekki þjóð,
það ég síðast ræði,
mín ef nema máttú ljóð,
mun ég yrkja kvæði.
23.
Sé ég núna situr fjörg
siklings jóðið fríða,
í Sigtúnum Ingibjörg,
elsku fljóðið blíða.
24.
Spök að viti spjalda rún
spáði um útför mína
á Agnafit þá að mér hún
arma vafði sína.
25.
Aldrei dauðum oftar sprund
elsku klappar hendi,
bauginn rauða mér af mund
mey ég ungri sendi.
26.
Eg þá sofna eyddur seim
undir haugi dofinn,
brynju rofna haf þú heim,
hjálminn líka klofinn.
27.
Þönkum svifar sætan að,
sáran stynja hlýtur,
hún þá yfir hjartastað
höggna brynju lítur.
28.
Sorg mun brjála fögrum fald
fljóðs – við kvæðin lipur,
hennar málar minnisspjald
minn deyjandi svipur.
29.
Sverðs frá messu sæmdir þín
sigurmálmar klingja,
andlátsvessin mun þá mín
mildings dóttir syngja.
30.
Fréttir vífið fagurt ei
frá mér nás á dýnu,
að ég hlífist höggum, nei,
hels mót dægri mínu.
31.
Horfi ég spjalda Hrundu frá,
heiðri og völdum baugi
mínum aldir eyða ná
undir köldum haugi.
32.
Fimmtán stór á foldu bý
full af seim ég átti,
hvörgi rór þó una í
auð né virðing mátti.
33.
Bylji að magna branda éls
banahögg sem jóku,
mér á vagna hjólum hels
hingað forlög óku.
34.
Mér að bana verður víf,
vann það ástin hreina,
fyrir hana að láta líf
loks er gleðin eina.
35.
Hels á brautu – sviptum seim
senn mér kraftar dvína,
bekkjarnautum ber þú heim
banakveðju mína.
36.
Þessa mæðir drykkjan dár,
dansar öld að kveldi,
enn mér blæða svöðusár
Sáms á köldu veldi.
37.
Meðan heli frestar frá
fram ég kvæðið leiði,
sextíu tel eg seggi þá
sem nú heilsa beiði.
38.
Óttar, Bendir, Egill, Hrafn,
Álfur, Frosti, Reynir,
Haddar, Vendill, hetjum jafn,
Hnefi, Tosti, Beinir.
39.
Snæbjörn, Svalur, Snerill, Sveinn,
Snjólfur, Tindur, Agnar,
Ormur, Fjalar, Frosti, Steinn,
Flosi, Trandill, Ragnar.
40.
Tveir Haddingjar, Tyrfingur,
Teitur með Ingjaldi,
Valbjörn, Hringur, Vémundur,
Vatnar, Össur, Skjaldi.
41.
Héðinn, Atli, Húnfastur,
hingað tölu leyfa,
finnst með Katli Fjölmóður
Fróða mjöli dreifa.
42.
Beitir, Njörvi, Úlfur, Örn,
Einar, Dumbur, Snorri,
Geitir, Tjörvi, Bessi, Björn,
Baldur, Hermann, Orri.
43.
Anus, Valdi, Uni, Freyr,
alla frægðin krýnir,
síðan taldir segjast þeir
sextíu vinir mínir.
44.
Yndisstund það eykur mér
ysta lífs á kveldi,
að Arngríms kunda höfum hér
hrausta lagt að veldi.
45.
Það mér brátt í þankann flaug,
þetta fer að vonum,
mig ei láttu hýsa haug
hjá þeim berserkjonum.
46.
Þótt ég hauðurs hnígi til
horfinn frægð og baugum,
mig ei dauðan vita vil
vondum þar hjá draugum.
47.
Fjöri slítur, kólnar kinn,
kenni eg dauninn moldar,
deyja hlýtur svo um sinn
sérhvör niðji foldar.“
48.
Við ei beið, hann blikna fór,
byrgir helið anda.
Hjálmar deyði hugumstór,
hetjan Norðurlanda.
49.
Forprís aldrei mennskri mold
meiri leyfður finnist,
sem í hjaldri á svenskri fold
sverði hreyfður vinnist.
50.
Nú skal inna Oddi frá,
eftir Hjálmar dauðan
haugavinnu hóf upp sá,
hirti valinn rauðan.
51.
Þéttur skógur vaxinn var
vals hjá flötnum talda,
saman dróg í dyngju þar
dólga náinn kalda.
52.
Verkum iðinn hafði hrað,
herti þróttinn raman,
beygði viðu búkum að,
bindur toppa saman.
53.
Mjög umróta veldi vann,
viður spilltist eyin,
jörð og grjóti hraustur hann
hlóð að öllu megin.
54.
Skilin stóð svo eignum á
afrekskappinn mætur,
vopnin blóðug hvörjum hjá
hauginn geyma lætur.
55.
Haugs við búinn hættir smíð,
hróður ber af verki,
sagt er nú á seinni tíð
sjái þessa merki.
56.
Eyjar hauðri fýsir frá
fleygir ættartanga,
Hjálmar dauðan herðar á
hóf með burði stranga.
57.
Hetjan vitur Hárs í flík
hrindir skeið á græði,
með sér flytur látið lík,
leggur burt frá svæði.
58.
Voð í snéri byrinn beinn,
borðin úður skelldi,
siglir kneri Oddur einn
undir Svía veldi.
59.
Beitti að sand í borgar vör,
bundna leysir strengi,
tekur land og tjóðrar knör,
tafði hvörgi lengi.
60.
Bylgju riði fetar frá,
flytur náinn rauðan,
dyrum niður hallar hjá
Hjálmar leggur dauðan.
61.
Hérnæst rólar hetjan keik,
hittir neyju blíða,
sat á stóli auðar eik,
Ingibjörg hin fríða.
62.
Nettri hendi, sveipuð seim,
sauma skyrtu knátti,
þegar vendi Hjálmar heim
henni klæðast átti.
63.
Veifir skálma vífs í rann
varpar kveðjum frýnum,
brynju Hjálmars blóðga hann
bar á armi sínum.
64.
Hjálmars syngur falli frá,
fagrar kveðjur tjáði,
bjartan hring og brynju þá
brúði rétta náði.
65.
Höggvörðs bólið hirðir sprund,
hel á augun sígur,
út af stóli auðar grund
andarvana hnígur.
66.
Gautur skálma linda laut
liðna þreif að bragði,
niður í Hjálmars nákalt skaut
niflungs dóttur lagði.
67.
Hjali sprettir hetjan rjóð
hreysti með og dáðum:
„Hjálmar þetta festi fljóð,
faðmist þið í náðum.“
68.
Síðan kallar sjóla frí,
sá skal dóm á leggja,
hvörnin falla faðmlög í
fölir náir beggja.
69.
Hilmir mætur harmar þaug,
hryggðar tölur kveður,
verpa lætur vænan haug
virðing allri meður.
70.
Hvör með stranga orku eins
ítrum vann að haugi,
margur þangað Þundur fleins
þeytti rauðum baugi.
71.
Hugást loddi í hjarta rík,
hringa frægur álfur,
bar hann Oddur beggja lík
og byrgði hauginn sjálfur.

72.
Enda riðinn hef ég hnút,
hýrði sefa vakinn,
Hjálmars kviða aldin út
er í stefi rakin.
73.
Flingrið málma fleins um gólf
frétti á hríða svæði,
yngri Hjálmar öldum tólf
orti síðar kvæði.
74.
Styttist klíðin stöku veik,
stefin gleymsku kafni,
gæfan síður gjörvugleik
get ég fylgi nafni.
75.
Hirði kvæðið lagað létt,
lesið í fornum anda,
virði fræðið fingranett
Freyja gullinbanda.