Hugbót | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hugbót

Fyrsta ljóðlína:Guð er minn Guð þó geisi nauð
bls.69–71
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) oAoAoAoA
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1662
Flokkur:Sálmar
Hugbót sr H Ps þá húsin brunnu í Saurbæ 1662.
1.
Guð er minn Guð þó geisi nauð
og gangi þanninn yfir.
Syrgja skal spart þó missi eg margt;
máttugur herrann lifir.
Af hjarta nú og hreinni trú
til hans skal eg mér venda.
Nafn drottins sætt fær bölið bætt,
blessað sé það án enda.
2.
Gaf mér hans náð gott lukkuráð
að gleðinnar efldist kraftur.
Frjáls er hann þá og fullvel má
frá mér taka það aftur.
Hans hjálpin blíð á hvörri tíð
huggun virðist mér senda.
Nafn drottins sætt fær bölið bætt,
blessað sé það án enda.
3.
Tók ei djöfull né töfrafull
tilviljun burt eign mína.
Sá sem það gaf svipti því af,
sorgin skal öll því dvína.
Mitt bætir ráð með mildi og náð
hans miskunn þúsund kennda.
Nafn drottins sætt fær bölið bætt,
blessað sé það án enda.
4.
Guð elskar þann sem hirtir hann,
hefi eg þá trúna vissa.
Vil eg með hind, vesöl barnkind,
á vönd föðursins kyssa.
Heilsu, lán, féð og heiður með
hans náð vil eg afhenda.
Nafn drottins sætt fær bölið bætt,
blessað sé það án enda.
5.
Af mér þó féð og auðlegð með
óðum so ganga megi
grátbæni eg nú, góði Jesú,
gleymdu mér þó aldregi.
Lát mig hjá þér, þá héðan fer,
í himnasælu lenda.
Nafn drottins sætt fær bölið bætt,
blessað sé það án enda.
Amen.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 30–33. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir Í JS 272 4to I, b. 117r. Sálmurinn er þar í litlu kveri, sem blaðmerkt er frá 111 til 150, og þar nefndur Hugbót og sagður ortur „þá húsin brunnu í Saurbæ 1662“. Fram kemur á blaði 136r að skrifari handritsins hefur skrifað nokkra af sálmunum í Skálavík árið 1700 og má ætla að þessi sé ekki síðar ritaður. Kverið hefur verið í fórum Hálfdanar Einarssonar og hefur hann augljóslega prentað sálminn eftir því í Hallgrímskveri 1770 en það var fyrsta prentun hans. Önnur handrit sálmsins eru: Lbs 398 4to, bl. 64r–v, og Þjms 8508, bl. 70v–71v. Hér er útgáfu ljóðmæla algerlega fylgt).