Ólafs ríma Grænlendings | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ólafs ríma Grænlendings

Fyrsta ljóðlína:Veri signuð okkar átt
bls.182
Bragarháttur:Ferskeytt – sléttubönd – víxlhend
Viðm.ártal:≈ 1925
Flokkur:Rímur

Mansöngurinn

1.
Veri signuð okkar átt,
auðgist hauðrið fríða;
Beri tignarhvarminn hátt
heiða auðnin víða.
2.
Fögur dregur móðurmold
muna handan sjávar.
mögur tregar föðurfold
fjalla strandir bláar.
3.
Strauma kaldra brúast bil,
blasir skammur vegur:
drauma aldna túnsins til
taugin ramma dregur.
4.
Skaflar háir, sollinn sær ,
sýnist innri taugum.
Gaflar lágir, bursta bær
birtist minnis augum.
5.
Kólga norðurs faðmar fjöll
fölvar strýkur grundir.
Ólga storðar fossaföll
fannabríkum undir.
6.
Lampabrosin glitra glöð
gegnum dökka karma.
Glampa frosin húsa hlöð,
hringa rökkurs arma.
7.
Vakan ómar háreist hér
hurðu fyrir innan.
Stakan hljómar. Úti er
utan dyra vinnan.
8.
Harða stóðið étur jörð.
Jötu skallar hnoða.
Garðafóðrið hníflar hjörð;
hestar stallinn moða.
9.
Saman bekkjast kona, karl,
kvæðamanninn heyra.
Gaman ekkert prúðan pall
prýðir annað meira.
10.
Handa allra milli má
margvíst skoða tóvið,
bandakarlsins fléttu frá
frammí voðar þófið.
11.
Stálið óðar þróttarþungt
þrumulagi kveður.
Málið góða, alltaf ungt
allan bæinn gleður.
12.
Öngum stundin leiðist löng,
léttar mundin vinnur.
Löngum undir sagna söng
sveitahrundin spinnur.
13.
Spangagrundu alltaf ei
ófrið sagan hermir.
Vanga stundum mjúkan mey
mansöngs-baga vermir.
14.
Situr stokkinn fljóðið frítt
feimin undan lítur,
flytur hnokkann, brosir blítt,
bláþráð slítur sundur.
15.
– Skiptast myndir. Draumur dvín.
Daprar sveitir hvíla.
Sviptast vindar. Líkhljóð lín
lágum sveitum skýla.
16.
Grundir fölnuð byrgja blóm.
Bleika gröfin þegir.
Undir Fjölnis dauðadóm
dísin höfuð beygir.
17.
Ljóði hljóðu illa er
okkar blóði farið.
Óði þjóðin hefur hér
helgar slóðir varið.
18.
Dýrra braga þrjóti þögn,
þjóðlög Íslands syngist
Nýrra daga söngvum, sögn,
sveitavísan yngist.
19.
Þjóðleg fræði orðum óðs
Eddu hending glæði.
Fróðleg kvæði listin ljóðs
lýðnum endurfæði.
20.
Meðan álfur heimsins hátt
hefja efnis menning
héðan sjálfir æðri átt
andans stefnum kenning.
21.
Anda kraftinn hverri hryggð
Hallgríms kveði sálmar.
Landa aftur beri byggð
Breiðfjörð eða Hjálmar.
22.
Friður haldist. Blómgist bú.
Blessist trúar arinn.
Siður aldinn tengist trú,
tryggist hjúa skarinn.
23.
— Kunni sögur Íslands ey.
Aldrei ljóðin gleymist.
Unni brögum marar mey
meðan þjóðin geymist. —
24.
Falla tímans voldug verk.
varla falleg baga.
Snjalla ríman stuðlasterk
stendur alla daga.

Ríman
1.
Rísa fríðar ægi af
Eiríks hlíða byggðir.
Ísar víðir hylja haf,
himins prýði skyggðir.
2.
Þjáðar löngum úti yst
undir stranda banni;
háðar öngum fundust fyrst
frónskum landnámsmanni.
3.
Græna landsins firnafjöll
Fróni skína norðar;
mæna handan alhvít öll
austan Vínlands storðar.
4.
Jarðir hýrar, grösin græn
grárra milli hjalla;
hjarðir dýrar, veiði væn
voga fyllir alla.
5.
Stálgrá íssins blikar brá
bröttum ströndum nærri.
Hálfblá lýsir gaddsins gljá
gróðrarölöndum hærri.
6.
Rómar ótal kveða kór.
Kvaka flæðar-skerin.
Ómar rótast, sogar sjór.
Suða æðar-verin.
7.
Kvika vængir, skína ský,
skjálfa bjartir straumar.
Blika hængir álum í.
Yngjast hjartans draumar.
8.
Grundir sanda, klungra klett,
kæpur spakar byggja.
Undir landstein þorskar þétt
þarablakkir liggja.
9.
Innstu, hæstu sjávarsvið
síldarbreiðan veður.
Grynnstu, næstu mararmið
mjúksynd reyður treður.
10.
Björnin dansar, fimur frár
firði langa, mjóa.
Börnin landsins einni ár
eftir fangi róa.
11.
Manna-undrin hreykja hátt
hára blökkum krúnum;
tanna sundur hræið hrátt,
hleypa skökkum brúnum.
12.
Tryggðir seinar, heiftin heit.
Hjartað efndir geymir.
Dyggðir leynast. Svartbrýn sveit
sjaldan hefndum gleymir.
13.
Smáir, knáir æfa eitt;
allir skjóta, henda.
Fláir, lágir banabeitt
beinaspjótin senda.
14.
Frægstu sjóþjóð Atlants-áls
örlög blanda vildu
lægstu óþjóð heimsins hálfs.
Hníga landar skyldu.
15.
Þótti leiður fyrstu frá
frónskum granninn dökkvi.
Sótti veiði alla á
ötull hranna-nökkvi.
16.
Beggja harla þykkju þel
þýddist lýða slíkra.
Tveggja varla heimti hel
hugi síður líkra.
17.
Tíðum rökkurs huldri hönd
hófust banasennur.
Hríðum mökkvuð líkbleik lönd
lýstu manndráps-brennur.
18.
Vígarimmur, hungurs hel
hrjáðu píslum þjóðu.
Stíga dimma, jökla él
jötnar Íslands tróðu.
19.
Margar aldir stopult stóð
stríðið, tapað, unnið.
Vargar kaldra búka blóð
bruddu kraparunnið.
20.
Áður síðust háðist hríð,
hryðju-stríðum létti.
Stráðum víða hólmum, hlíð’
húsþorp lýðum setti.
21.
Leifar fallins hetjuhers
hinsta flokkinn drógu.
Dreifar allar hverfis hvers
hergarð nokkurn bjóu.
22.
Þjóða-friðar árum á
allvel hagur snerist.
Stóðu griðin þessi þá
þegar sagan gerist.
23.
Harmaleiksins síðsta svið
sagan reikul opnar;
bjarma veikum lýsir *lýð,
líkin bleiku vopnar.
24.
Gleymdur bróðir hugstór hné
hauðri móður fjærri.
Geymdur óður sorgar sé
sigurs hróðrum nærri.
25.
Þögnin steinköld blæjum breitt
bálmorð kynstofns heldur.
Sögnin greinir: Atvik eitt
ófrið hinstum veldur.
26.
Syndir ládauð víkur vör,
vorsins blundar andi.
Hrindir smáum kópaknör
knapi undan landi.
27.
Drengur þreytir landsins list,
léttri fleytu vendir.
Strengur þeytist. Orka yst
oddbeitt skeyti sendir.

28.
Innfædd Grænlands sýnir sjót
sjávarökænsku mesta.
Skinnklædd sænum mætir mót
mannheims kænan besta.
29.
Léttan, þéttan byrðing beins
byggðu þjóðir alda.
Sléttan skvettinn otur eins
útbjó flóðið kalda.
30.
Flýtur víður hafreks hjá,
hvalfangs niðjinn æfir.
Skýtur hnyðju eina á,
– illa miðið hæfir.
31.
Blárra yfir hylja haf
hávær ópin gjalla.
Hárra klifa eggjum af
íslensk hrópsorð falla.
32.
Piltur gengur ögrin inn,
æpir, steinum snarar.
Stilltur lengi hlýðir hinn,
hvergi neinu svarar.
33.
„Dvergi skutuls færi frá
feigðar stuggar anda.
Hvergi utan marksins má
maður ugglaus standa.
34.
Bentu stingnum móti mér,
miðja bringu hittu.
Sentu hingað. Óhætt er
ungri glingurskyttu.“
35.
Síga brúnir, hvítnar kinn,
krepptir armar lyftast.
Víga-búnaðs skrjáfa skinn.
Skotmanns hvarmar ypptast.
36.
Löngu skafti hampar hátt,
hetti aftur smeygir.
Slöngukrafta ljósti lágt
lófi vattar fleygir.
37.
Fleynninn þungi hittir hart,
holsins iður smýgur.
Sveinninn ungi, vaxinn vart,
veginn niður hnígur.
38.
Skipta nokkur unglings orð
Íslands skjaldarmerki.
Svipta okkur stórri storð,
steypa alda verki.
39.
Hinsta binda endann á
eyðing Vesturbyggðar.
Minnsta syndin einatt á
upptök mestrar hryggðar.
40.
Brýna hjörinn frændur fljótt,
fylgja vana landsins.
Týna fjöri ættmenn ótt
unga banamannsins.
41.
Illu níðings valda víg,
vargöld langa, stranga;
villuþýðin styrjarstíg
stranda-vanginn ganga.
42.
Lága kynsins hrekkvís hygð
helráð lengi spinnur.
Smáa hvinnsins lævís lygð
landa mengið vinnur.
43.
Skinnum safnar heiðinn her
hvítra sáturkópa.
Innum hafnir, voga, ver,
veiðilátrin sópa.
44.
Tengir sveitir hatrið heitt
heimsins ægivíða.
Strengir heitið alþjóð eitt:
Afnám Snælands lýða.
45.
Nefnir flokknum stundu, stað
stríðsráð eyðisviðsins.
Stefnir nokkrum eyjum að
urmull heiðna liðsins.
46.
Bærast árar; morðliðs mergð
mannar veikar súðir.
Hrærast bárur; fjandmanns ferð
fela bleikar húðir.
47.
Næstu lending flýtur frá
flotans hvíti sægur,
Fjærstu hendur árum á
eru nítján dægur.
48.
Tökum slíkum löngum lékst
lýður heli þrotinn
Jökum líkur hafleið hrekst
hvíti selskinns flotinn. – –
49.
Ljóma þögul fannafjöll,
fólkautt landið hlýðir.
Óma fögur klukkna-köll.
Kristnar standa tíðir.
50.
Tindum fjalla geislagull
guðvefs prýði vindur.
Lindum mjallar ísgrá ull
allar hlíðar bindur.
51.
Grunda þá úr fjötrum frosts
færir háar strendur.
Undir lágum kirkjukross
hverfi fábýlt stendur.
52.
Skálar viðastyrkan stað
steinum varðir byggja.
Sálarhliði allmjög að
anddyr garðsins liggja.
53.
Allar messur vopnuð ver
varðsveit staðarbæinn.
Karlar prestsins heima hér
halda glaðan daginn.
54.
Þetta sinni leikur ljós
lögur hljóðum ekka.
Klettamynnis opinn ós
unnaflóðin drekka.
55.
Titra, kvika langa leið
lygnir voga sjóir.
Ytra blikar hellan heið;
hafið logum glóir.
56.
– Múgaflotans lendir lið
langri, beinni skipan.
Grúi skotliðs varir við
væðist einni svipan.
57.
Hrökkva lágmælt eggjuorð.
Allur stökkur herinn.
Nökkva gráleit bjóraborð
byrgja dökku skerin.
58.
Þýstur hópur andrá í
yfir kirkjustaðinn.
Lýstur hrópi. Kringist kví.
Kvistast birkihlaðinn.
59.
Rísa hljóðir messumenn.
Múrinn branda logar.
Lýsa glóðir sviðið senn.
Svigna fjandmanns bogar.
60.
Krjúpa sumir liðsmenn lágt,
lífga bálin viðar.
Hjúpa umsáts brennur brátt
bænaskálans hliðar.
62.
Þegja klerkar. Sóknin sótt
síðla skjómum mundi.
Beygja sterkir hermenn hljótt
höfuð dómnum undir.
63.
Fagur, heiður, banaber,
borinn hveli pólsins,
dagur reiði uppi er
yfir helþögn fólksins. –
64.
Gluggar mökkvast. Drúpir djákn.
Dafnar roði glóðar.
Skuggar rökkurs teikna tákn,
tjónið boða þjóðar.
65.
Stafni rekkur fremstum frá
fyrir klerka stígur.
Nafnið bekkjum öllum á
Ólafs sterka flýgur.
66.
Lyftast víkings herðar hátt,
hvergi jöfnuð nærri;
ypptast ríkum meginmátt,
mennskum söfnuð hærri.
67.
Gegnum flokkinn háreist hljóð
hetju ramma kalla.
Slegnum lokkum fölleit fljóð
fastar saman halla.
68.
Rómur þrunginn öldnum óm
alla strengi fyllir.
Dómur þungur heiðnum hljóm
hjörtu drengja stillir.
69.
Endurblikar hvarmur hreinn
hniginn kynstofn vestur.
Stendur mikill uppi einn
Óðins hinsti prestur.
70.
Hlýðinn alla lífsins leið
lestri skólaklerka.
Lýðinn kallar, dæmdan deyð,
drápa Ólafs sterka.
71.
Leggja sólblik gullhlaðs gjörð
goðans svinna enni:
„Tveggja stóla hinstri hjörð
hinsta sinni eg kenni.
72.
Villa, blekking felldi fyrst
fornsið vorra landa.
Illa þekkist Hvíta-Krist
kjarni norræns anda.
73.
Greinir þjóðum Mósis mál
merki smáa sviðsins.
Beinir Óðins sterka stál
stefnu háa miðsins.
74.
Ávallt hálfleik bannið bjó, –
boðið frelsar, reisir.
Þráfalt sjálfum vopnlaus vó.
Vígdáð helsins leysir.
75.
Syðri landa múgann margt
mannar sáttaboðorð.
Nyrðri stranda helstríð hart
heimtar máttsins goðorð.
76.
Máttu? – tjáðu þrælar þrátt,
þar sem eplin duttu.
Áttu! – kváðu hofmenn hátt,
hvar sem aldin spruttu.
77.
Herjum fjendur. Víglán valt
víkur, bíðið hinir.
Verjum hendur umfram allt,
unnumst síðan, vinir.
79.
Höldum flögðum brennubál.
Baninn heli mæti.
Gjöldum brögðum tvöfalt tál.
Tryggðrof vélar bæti.
80.
Brjáli meinlaus hógværð höld,
haldi slíður bröndum,
stáli beinið gráleg gjöld
geldur níðingshöndum.
81.
Smælingjanna vesöl völd
vaxna kynið oka.
Skrælingjanna argri öld
Íslands synir þoka.
82.
Móti sporna vorri vörn
vilja fornir Æsir.
Grjóti bornum hurðum hvörn
hefndarnornin læsir.
83.
Guðir vígja norðrið nú
nóttu helsins auða.
Suðurþýja týnist trú
tjóni eldsins rauða.“
84.
Drengur ramma aflsins einn
inn í kórinn víkur.
Gengur hamför sverðsins sveinn
sjálfum Þóri líkur.
85.
Klerkastólsins breiða bak
báðum mundum þrífur.
Sterka Ólafs tröllatak
tvístrar, sundrar, rífur.
86.
Furðar alla sveiflað sjá
sendast viðar skotið.
Hurðar falla eikur á,
opnast hliðið brotið.
87.
Hrekkur rammur oki af
einu flötu blaki.
Stekkur fram á kolakaf
kappinn jötunmaki.
88.
Féndur næstu þrífur þrjá,
þrekna arma kreppir;
hendur læstar öxlum á
inn að barmi hneppir.
89.
Villta hersins ómar óp;
armar bogann lægja;
tryllta berserks heiðnum hóp
hvarmsins logar ægja.
90.
Gnestur kverkin, hrekkur háls;
hræin fleygjast niður.
Brestur herkví. Flokkur frjáls
fljóðum veginn ryður.
91.
Nærri, inni, vopnin ver
vígi garðsins heima.
Fjarri skinna hopar her.
Hurða varðmenn geyma.
92.
Styðjast, eggjast, verir, víf:
vopnum miðla hendur.
Ryðjast veggir hjörvum, hlíf.
Hervætt liðið stendur.

93.
Örvum þeytir fjandlið fjær,
framar skeytin setur.
Hjörvum veitir norðlýðs, nær
návíg þreytist, betur.
94.
Leita sverðin óvin á
undir dökkum rökkvum.
Skeyta mergðin hvarflar hjá,
hulin blökkum nökkvum.
95.
Björtu skinnin hittast hart
hlífarsnauðra brjósta.
Hjörtu inn í skjómar skarpt
skelfing dauðans ljósta.
96.
Hrekkur liðið. Bregður bál
blikum flóttaveginn.
Stökkur niðrá marar mál
múgur óttasleginn.
97.
Snöggvar eggjar hvína hvasst.
Hefjast sverðin bláu.
Höggva, leggja, fylgja fast
fólki herðalágu.
98.
Sveipast líkust hafdýrsham
húðfley skyttur kringum,
steypast víkurfjörur fram,
festum mittishringum.
99.
Veður eftir landsins lið
lagarflóðið grunna,
hleður þéttan valköst við
varir rjóðra unna.
100.
Spjóta leggjast oddar inn,
opnast nökkva súðir.
Þjóta eggjar, skerast skinn.
Skrælings sökkva húðir.
101.
Snjórinn vefur líni lík,
loftið friði andar.
Sjórinn grefur flaksins flík,
flóttaliði grandar.
102.
Slegin, hrakin safnar sér
sveitin landi fyrir.
Veginn flakir hálfur her.
Hinir standa kyrir.
103.
Brandar hika – eins og er
auga kvikar bráðast.
Landa vikið auðnu er.
Örlög mikil ráðast.
104.
Dreifast reykir alla átt
yfir víðar grundir;
reifast bleikum logum lágt
landið hlíðum undir.
105.
Elda-brakið heyrist hátt.
Heima krossinn brennur.
Fellda þaksins gegnum grátt
glóðablossinn rennur.
106.
Feykir, kastar rjáfurs rof
reykjarfargsins þunga.
Sleikir fastar hrunið hof
hyrjarvargsins tunga.
107.
Ystu steinum flæðar frá
fleinköst þyshá gjalla.
Fyrstu beinum sveitir sjá
særða risa falla.
108.
Annar leikur hildar hefst.
Hitta örva-skeytin.
Fannar bleika voðin vefst.
Víkur hjörva-sveitin.
109.
Álmar gjalla, brynja bregst,
blóðug holsár gína.
Skálmar falla, húðin heggst,
höfðum bolir týna.
110.
Rauða undir gneistans gný
glottum leiftra tennur.
Dauðablundsins auga í
aldaheiftin brennur.
111.
Völlin felur Niflheims nótt,
níðvíg allir fremja.
Tröllin helsærð dverga-drótt
dána fallnir kremja.
112.
Boðum heiðnum misgjörð mót
mega allir gjalda.
Goðum reiðum banablót
brotsmenn fallnir halda.
113.
Svarta grjótsins altari á
ofurglóðin brennur.
Hjartarótum fólksins frá
fórnarblóðið rennur.
114.
Dynja beinfleyg skeyta skot,
skeika riðlast naðir.
Hrynja eins og boðabrot
brandaliðsins raðir.
115.
Flokksins hinsta verður vörn
veggjum garðsins undir.
Loksins minnstu bletta börn
blóði harðar grundir.
116.
Grana snjáðra andlit er
yfir hverjum glugga.
Bana ráða svannar sér
sveiptar herjar skugga.
117.
Stendur aleinn, segir sögn,
seinast Óðins prestur,
endurfalinn þungri þögn
þjóðarljóðsins vestur.
118.
Barmi skýlir unga einn
Íslands hetjuniðja.
Armi hvílir svipstór sveinn,
sonur, veturs þriðja.
119.
Dauðamóður faðir flýr
fyrir blóðið dýra.
Rauðar glóðir heitar hlýr
helblæ rjóðum skýra.
120.
Undir glamrar jakajörð,
jöklar móti hefjast.
Grundir hamra, brotin börð,
brekkur fótum tefjast.
121.
Vonin eyðist. Bleikri brá
birtist taflsins endir.
Soninn heiðri bergvatnsblá
brostnu afli sendir.
122.
Þarna seinast lífið lét
landnáms-kvíslin unga.
Barnakveini glötuð grét
gamla Íslands tunga.
123.
Meiri nauðum, harðar hrjáð,
hauður sjaldan varðist.
Fleiri dauðaþrautum þjáð
þjóðkyn aldreibarðist. –
124.
Þögðu brostin heimskauts höf,
huldu dauðra valdi,
lögðu frostum Grænlands gröf,
geymdu auða dali.
125.
Drukku þjóðarblótsins blóð
bleikar eyðigrundir.
Sukku óðul Grænlands góð
guðareiði undir.
126.
Bundið, okað lýtur lágt
landið mjallafríða.
Sundið lokað heimtar hátt
hneykslun allra lýða.
127.
Svíðings gróða dvergsmá drótt
dönskum lófum safnar.
Níðingssjóðum heima hljótt
Hafnarbófinn jafnar.
128.
Órastrandir þagnar þey
þjaka ránsmanns hendur.
Stóra landið, Eiríks ey,
okkur nánast stendur.
129.
Hilli landið, mannsýn má
mælast Ægis rásin.
Milli stranda heilsar hjá
Hvítserk Snæfellsásinn.
130.
Langar aldir horfið Hvarf
Hólmans eftir flota.
Strangar halda okkar arf
öfgar réttarbrota.
131.
Snjáland blæddi naktri nauð
námstorð órahöfum.
Sjáland græddi okursauð
yfir stórfólks gröfum.
132.
Dafnar bráðum fólkið Fróns,
felldu býlin reisir.
Hafnarráðum, kúgun kóngs
klafaskríllinn leysir.
133.
Horfna liðsins banabeð
breiða heiðar yfir.
Forna sviðsins göfga geð
Grænlands eyðing lifir.