Jóhanna G. Eyjólfsdóttir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Jóhanna G. Eyjólfsdóttir

Fyrsta ljóðlína:Fölur liggur landsins fríði gróður
bls.296
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fimm,- þrí- og fimmkvætt AABBB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1911

Skýringar

Undir titli stendur: „frá Snorrastöðum í Laugardal. Dáin 28. Júlí 1911.“
Í tímaritinu Ríki 4. tbl.. 1. árg. 1911 stendur: „Jóhanna Eyjólfsdóttir frá Snorrastöðum í Laugardal, dáin í Reykjavík í júlí 1911, 27 ára“.
Fölur liggur landsins fríði gróður.
Líkt er hér um örlög barns og móður.
Brekkur bleiku falda.
Blómin okkar gjalda:
Ekkert sumar eftir vorið kalda.

Land, sem hennar vonir vöfðu ljóma,
vor, sem þarfnast allra sinna blóma,
úti’ í auða mónum
eiga lík í snjónum.
Þar var ein af þessum fögru krónum.

Eftir lifir lágur, veikur gróður,
lítið blóm við síðu fölrar móður.
Það var kvatt með kvíða.
Komdu, sólin blíða.
Það er ungt og þolir ekki að bíða.

Svona fór það. Fyrir sumarheiði
færðu’ í dalnum þínum gröf og leiði;
fyrir fuglahljóðin,
fyrir skógarljóðin
færðu litla lága sorgaróðinn.

Vorið þetta verður lengi í minni,
vini sem nú fylgir kistu þinni.
Sárar eggjar særa
systkyn þín sem færa
dána systur dalnum sínum kæra.

Vors og söngva vina, góðar nætur.
Vertu sæl. Þú prýddir landsins dætur.
Alltaf fyllir eyðið
ættlands bláa heiðið,
þegar kirkjan lætur slétta leiðið.

Ljóðin, sem þú lékst þér við og kunnir,
ljóðin, sem þú dreymdir með og unnir,
leiðir ljúfra minna
leita þín og finna,
fegurst björkin bernskuskóga þinna.