Fyrir utan glugga vinar míns | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fyrir utan glugga vinar míns

Fyrsta ljóðlína:Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum
bls.228
Bragarháttur:Sonnetta, óstýfð, síðstuðluð, fyrsta rímblokk endurtekin
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1910

Skýringar

Ljóðið var fyrst prentað í Skírni 1910.
Hljóðnað er, borg, á breiðum strætum þínum,
bláhvítur snjór við vota steina sefur,
draumsilki rakið dimma nóttin hefur
deginum fegra upp úr silfurskrínum.

Vökunnar logi er enn í augum mínum,
órói dagsins bleika spurning grefur
djúpt í mitt hjarta, er kemur seinna og krefur
kyrrðina um svar, um lausn á gátum sínum.

Vinur, þú sefur einn við opinn glugga,
æskunnar brunn í svefnsins gylltu festi
sígur þú í og safnar fullum höndum.

Hugur minn man þinn háa pálmaskugga,
hafi ég komið líkur þreyttum gesti
utan frá lífsins eyðihvítu söndum.