Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Nýtt ár í Jesú nafni | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Nýtt ár í Jesú nafni

Fyrsta ljóðlína:Nýtt ár í Jesú nafni enn
Höfundur:Gunnar Pálsson
bls.3–4
Viðm.ártal:≈ 1735–1755
Flokkur:Sálmar

Tón: Rís upp, mín sál, að nýju nú.

1.
Nýtt ár í Jesú nafni enn
nú uppbyrjum vér kristnir menn.
Guð láti gott ár vera.
Einn bið eg hann
almáttugan
umhyggju fyrir því bera.
2.
Yngri bæði og eldri menn
allir lofi þig, drottinn, senn.
Þú hefur á þessu ári,
Emmanúel,
oss verndað vel
við grandi, neyð og fári.
3.
Tíminn bíður ei eftir oss,
ævin hleypur sem dynji foss,
en nær hún enda taki
fyrir öllum hylst
því dauðinn dylst
dapur á sérhvörs baki.
4.
Tímann, sem eitt sinn tapaður er,
tekið fáum ei aftur vér,
tækifærið því tökum.
Nú er hin blíð-
a náðartíð,
nú biðjum því og vökum.
5.
Árla tók drottinn oss í fang,
ár hvört verndandi sérhvörs gang
allt til þess yfirstendur.
Daginn allan
útbreiðir hann
oss móti sínar hendur.
6.
Ræðan hans þessi ætíð er:
„Af illu látið, börn mín, hér
og lærið betur að breyta.“
Þverbrotnir víst
því sinnum vér síst.
Soddan má blindni heita.
7.
Í Jesú nafni umbótar
yður Guðs djúpu miskunnar
oss stórsyndugum unni.
Þess biðjum vér,
ó! herra hér
af hjarta þig og munni.
8.
Jesú, fyrir þitt nafnið nýtt
náðarsamlega gef oss kvitt
allt hvað þér unnum móti.
Þín náðin hrein,
mín elskan ein
yfir þinn söfnuð fljóti.
9.
Eilífi drottinn, eilíf dýrð
eilíflega sé þinni skírð
óþreyttri þolinmæði
sem eftir oss beið
en ei burt sneið
ávaxtarlausa í bræði.
10.
Svo hefur þú oss, herra, leitt,
að háskasemd gat enginn neitt
um stund ævinnar hverja,
vort einkaskjól,
skærasta sól,
skjaldborg, vernd, hæli og verja.
11.
Upp frá þessu til eilífðar
uppfyllist þinnar lofgjörðar
munnur vor, hjarta og hugur.
Gef oss þar náð,
dug til og dáð,
drottinn Guð almáttugur.
12.
Nafnið Jesú, vor unun og ást,
athvarf blessað og hjúkrun skást
um alla ævi veri.
Sverð andans beitt,
Guðs orðið eitt,
vor eyru og hjörtu umskeri.
13.
Allt tak þú oss hið illa frá
en allt hið góða lát oss fá,
ó! drottinn allsvaldandi!
Árla og síð
um allan tíð
yfir oss náð þín standi.
14.
Friðarhöfðinginn, frelsarinn klár,
fyrir sín gjörvöll mæðu ár
hvíldar ár eilíft veiti
og fagnaðar blíða
frelsistíð
flokk þeim sem kristinn heitir.
15.
Nýársgjöf vor sé nýborinn,
nýkallaður og umskorinn
Jesús, heill lýðs og landa.
Ný náð hans blíð
með nýrri tíð
nýi vorn hug og anda.
16.
Eilífi Guð, oss alla geym
og aldrei nokkrum þinna gleym,
gef hvör í dyggðum dafni.
Gef blessað þú
nýbyrjað nú
nýtt ár í Jesú nafni.
Amen.