Um samlíking sólarinnar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Um samlíking sólarinnar

Fyrsta ljóðlína:Þegar að fögur heims um hlíðir
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) AAAbbAcc
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Vikivakar

Hvað er betra en sólarsýn

þá sveimar hún yfir stjörnurann?
Hún vermir, hún skín
og hýrt gleður mann.

1.
Þegar að fögur heims um hlíðir
heilög sólin loftið prýðir,
lifnar hauður, vötn og víðir,
voldugleg er hennar sýn,
þá hún vermir, hún skín.
Með hæstu virðing herrans lýðir
horfi á lampa þann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
2.
Á fjöllunum hennar geislar glóa,
gropnar ís í vötn og flóa,
drýpur vörm í dalinn mjóa
dýrðargufan eins og vín,
þá hún vermir, hún skín.
Alls kyns fögur eplin gróa
út um veraldar rann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
3.
Dýrin leika, laufin hanga,
liljur blækta, en skipin ganga,
til lands og sjóar seggir spranga,
söngurinn fugla hvörgi dvín,
þá hún vermir, hún skín.
Lofts og jarðar ilm og anga
enginn missa vann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
4.
Öll náttúran brosandi breiðir
blíðan faðm og sig tilreiðir,
þegar að veldishringinn heiðir
og hennar ljóma augnabrýn,
þá hún vermir, hún skín;
eldsbrennandi lofts um leiðir
lýjast aldrei kann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
5.
Bráðlega sölnar foldin fríða,
farfinn lofts og blóminn hlíða
þá ofan slær í ægirinn víða
ágæt sólin geislum sín.
Hún vermir, hún skín.
Allrahanda skepnur skríða
í skjól um veraldar rann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
6.
Orðin herrans helgidóma
hreinferðugrar kvinnu blóma
samlíkir við sólarljóma
þá situr hún kyrr að verkum sín.
Hún vermir, hún skín.
Um hennar dyggðir, hefð og sóma
hljómurinn víða rann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
7.
Guðhræðslunnar geislinn fríði
geðlega skín á motrar hlíði,
alls lifnaðar eðla prýði
út sig brýtur um hjartans skrín,
þá hún vermir, hún skín.
Drottins handa dýrðlegt smíði
dáðunum bestu ann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
8.
Kærleiksverka varma sönnum
voluðum tærir þurfamönnum,
helgri bæn í iðjuönnum
æ sig brynjar silkihlín.
Hún vermir, hún skín.
Auðurinn drýpur henni hrönnum
hvört sem líta kann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
9.
Ektamann í ástum vefur,
ilm dísætan hjartað gefur,
hann í ró og sælu sefur,
sorgum firrtur og allri pín,
þá hún vermir, hún skín.
Fögnuð lífs og friðinn hefur
fengið besta hann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
10.
Börn og hjúin forsjál fæðir,
fegursta hóf í öllu þræðir,
orðin svell í bænum bræðir,
byrlar gleði og heilsuvín,
hún vermir, hún skín,
angrað þel hjá aumum græðir
en aldrei hrella vann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
11.
Hennar ljós, þó halli degi,
hvörs kyns dyggða slokknar eigi,
allt er hreint á hennar vegi,
hún kann verka ull og lín.
Hún vermir, hún skín.
Þann í raun eg sælan segi
er sat við ylinn þann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.
12.
Fölt er gull hjá soddan svanna
og silfurtórurnar ríkismanna.
Hennar láni lofdyggðanna
lystug hrósi tungan mín.
Hún vermir, hún skín.
Læsi eg aftur ljóða ranna,
læri hvör sem kann.
Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann.