Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Nýársgjöf Guðríðar litlu Gísladóttur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Nýársgjöf Guðríðar litlu Gísladóttur

Fyrsta ljóðlína:Mér er í sinni, / mær veikaldra
bls.186–200
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 1650
1.
Mér er í sinni,
mær veikaldra,
þér boðnar bjór
bjóða að gamni
þó þess konar
að þéni bæði
æsku þinni
og ellihrukku.
2.
Ei hef eg armbönd
af unnar ljóma
né hlekk handar
halli lýstan,
bönd gullofin
eða brjóstskjöldu,
festur fjölbeygðar
eða Fróða mél.
3.
Ei knapp gullnu
kvikan laufi
eður hátíðlegt
hlað til ennis,
sem í nýársgjöf
nú þér sendi,
ættstór brúður,
en að aldri barn.
4.
Þér skal ljóð, lítil
líneik, bjóða,
hinir þá stilla
háttuna dýra.
Bið eg þig, Guðríður
Gísladóttir,
að þér ljúflingslag
leggir í minni.
5.
Heilráð skulu þér
og hægnumin,
þó smakki af leir
fyrir smáskáldi.
Oft undir vondri
er vösk hönd kápu
og af karlmanni
koma snillin orð.
6.
Þegar skilnings ör
í skýru brjósti
dregst þér í þroska
og dýrt næmi
óttastu drottin
og tilbið hann
er þig með dauða
endurkeypti.
7.
Hans þig úr öngu
hönd skapaði,
af öndu og holdi
einn mann gjörði,
anda og orðs síns
upp ljós glæddi.
Settu þig við þann
sólbjarta kveik.
8.
Foreldra þína
fremst af mönnum,
en guði næst
gerðu að elska.
Þeir báru þig
í þennan heim,
blóðstofn báðir
að barni *fögru.
9.
Þeir fæði fengu þér,
föt löguðu
ungri meyju
og í kristinn reit
báru bað undir
og blóðfagra laug
Krists af dreyra,
sú eð kallast skírn.
10.
Hlýðni þeim veitir,
hér með aldrei gleym
lífs eða liðnum
langminnug snót,
hér með heiðra þú
og heitt elska
þá í þeirra stað
þér eru settir.
11.
Synd varastu,
sæt er hennar rót
en ávöxtur
eitri blandinn.
Hyl ei óvirðing
ósannsögli,
föl verður uppgjöf
fúsri meðkenning.
12.
Á þann einn hlut
augum títt rennir
sem þér upphefð sé
eftir að breyta.
Oft hefur lasta
iðin gaumgæfni
ungu hugskoti
orðið að hneysu.
13.
Varastu margmælgi,
meyjan siðláta,
auðsén er blygðan
af orðfárri ræðu.
Allmargt heyrðu
en mæl um fátt.
Tvö eru tól heyrnar,
en tunga einsömul.
14.
Mýi þér nokkur
fyrir misbrot smá
legg þökk igjen
og lát þína iðju
hegðun að hafna
er hirting færði
að í annað sinn
ei ítrekast þurfi.
15.
Vin haltu ei þann,
er vömm lofar þín,
slík blíðmæli
börnum spilla.
Sá er [ei] aftrar þeim
frá æði misjöfnu
óvinur reiknast
og ekki sá minnsti.
16.
Sá í einum hlut
einfaldan sveik,
aftur mun tæla
ef færi gefst.
Hvorki öngvum þér
eða sérhverjum
leyfist að trúa,
litfögur snót.
17.
Of trúgjarn[a]n
oft sjáum vér,
þó tiginn þyki,
á tálar dreginn.
Hinn, er á alla jafnt
efa lagði,
tryggða er verður
talinn öngvum.
18.
Ef þú gerir það,
sem ekki sómir
eða til framkvæmda
felur í brjósti,
þó þú hyljir það
hjá hölda sveit,
fyrir augum guðs
alsbert stendur.
19.
Launmœli þín
láttu ei uppi,
nema fulltrúa
og fjölreyndum vin,
því, sem aðrir vilt
yfir þegi,
ber þér ei stinga
í barm nokkurs manns.
20.
Þeim klámleg orð
koma af muuni
lastvör eyru þín
ljáðu aldrei.
Alla þá skaltu,
er elska slíkt,
óttast og flýja
sem orm hringlagðan.
21.
Ef þú geyma vilt
*grip dýrmætan
lít þú oft þangað,
er lagðan hugðir.
Oft *þeim hlutur
óttast síður
þann er heimskuhug
hefir í brjósti.
22.
Forsmáðu aldrei
flíkum vafðan,
heldur aumkva þig
yfir þurfalýð.
Í lófa Krists
lögð er ölmusa,
því fátæks manns hönd
er féhirsla drottins.
23.
*Auð og álit
illra manna
láttu ei hug þinn
hræra til furðu,
þó sem aldintré
út blöð þenji,
þeim kemur hefnd sín
þegjandi fæti.
24.
*Mannkost haltu
miklu æðri
en Glasis bar
og hið gullna lauf.
Auðs þeir afla,
en auður ei þeirra.
Hann forgengur
en hinir aldrei.
25.
Eik veit eg standa
í bláfalli
regindigra
og ríka að kvistum
hver af vovindum
vast og knúðist,
barðist baðmur
en.blöð losnuðu.
26.
Kvist leit eg standa
í kyrrum dal,
lágan og lítinn,
laufum grænan.
Hann af byl skæðum
barðist hvergi
en geymdi blóm
og bar í blálogni.
27.
Svo bera ríkir,
þeir eð reisast hátt,
hugsótt og hættu
hinum meiri,
sem við *mundangshaf
metin er gæfa.
Hún hvíld veitir,
hægan svefn og frið.
28.
Margt keppstu nema
til munns og handa.
Ekkert er betra
en iðkun í góðu.
List af leik framin
líður burt sem ryk
en námgirni
not staðföst ljær.
29.
Hvíld hæfileg
hreifir kröftum manns,
en ofmikil
allt megn slekkur.
Hún er líkama
*höfgi þrungin,
en skaðsljófgun
skynsamri önd.
30.
En þó virðist sæl
ven þig erfiði.
Þrifin hönd sjálfum
þekk er drottni.
Iðja nytsamleg
í æsku framin
verður hvíld og sæng
hárrar elli.
31.
Ef þitt í skuggsjá
andlit skoðar
og þyki þér firnum
fagurt að líta
varastu í hljóði,
vel frammynnt sprund,
að ei ljótt æði
litunum spilli.
32.
En ef ásýnd þin
ei geðjast þér,
en fríðari virðast
fljóðin önnur,
keppstu undan þeim
i kristnu framferði
svo lastvart líferni
um litina bæti.
33.
Fyrir ráð fram
reiðast skyldir ei,
réttsýn er ekki
reiði þess konar.
Allt það að forðast
er henni veldur
er haldin af hyggnum
hin mesta frægð.
34.
Hýrt hvarmaskin,
hæverskt framferði
og skírlífi
er skart best kvenna.
En samtengd þessu
sönn guðhræðsla
er sem gimsteinn skær
í gull inn lagður.
35.
Þetta er fátt eitt
þér fyrir sjónir sett,
sjálegt barn,
sökum ungdóms þíns,
en ef útþrykkt finnst
í framferði
skartar skrautlegar
en skarlatskápa.
36.
Bið eg þér lýsi
ljós himnanna,
sent af sólarsmið
þér í sinnu reit.
Hann einn tilbið
og heitt ákalla
þegar skýrast orð
og skyn í brjósti,
37.
bæði þá höfgi þér
í brúnaljós
dettur á dýnu
draum flytjandi
og þá upprunnin
í gyltri reið
systir mána
sýnir ljósan dag.
38.
Hann þér atgervi
og hugvit sendi,
sem ára fjöldanum
undan gangi
til gleði foreldrum,
en guði dýrðar,
við alla ástsæli,
en hann þó mest.
39.
Bið eg þú lærir
bestu hannyrðir
sem auðar eik
ætti að kunna,
sitja í sessi
með silfurbjarta nál
í kvistu góma,
og krota allan saum.
40.
Falda fannhvítt lín,
föt að skera,
kraga að krúsa,
koma hadd í lag,
semja söðlaþing,
sessu, áklæði,
borða að vefa
og bönd spjöldum.
41.
Tjöld ljósum lit
löng að prýða
með furðu *fáránleg
farfa skipti;
krosssaum og pells
kasta í þéttan tvist,
augna og refilsaum
einnig sprang og glit.
42.
Úrskurð, allan vef
með írskum saum,
úrrak og flest flúr
við fald að leggja,
allt ullarverk
og prjónalist,
línhærðan lagð
lita á margan hátt.
43.
Nú hef eg af flestu
fátt upp talið,
bið eg þín auki list
það orðin brestur,
og að allt hnigi
til æru og dýrðar,
þeim er þig hefur leyst,
en þér til sóma.
44.
Honum fel eg þig
með holdi og beini,
blóði, brjóstæðum,
böndum liða,
sál og sinni,
sýn, máli, heyrn,
ilmingu, áþreifun
og bergingu,
45.
allri hræringu,
innstu lífs kröftum
og aldursauka
með árinu nýju.
Hann þér sendi
sveit sinna engla,
sem um alla tíð
yfir þér vaki
46.
en þá önd skilur
við hið auma hold
og lítið lykst
ljós veraldar
beri þig á höndum
í birtu þá
sem er eilíf dýrð
og ununar ljómi.


Athugagreinar

8.8 fögru] fögra í útgáfu.
21.2 grip dýrmætan] dýrmætan grip í hdr.
21.5 þeim hlutur] svo í útgáfu.
23.1 Auð] auður í hdr.
24.1 Mannkost] svo í útgáfu.
27.5 mundangshaf] svo í hdr.
29.6 höfgi þrungin] höfgar þrungin í hdr.
41.3 fáránleg] fárámleg í hdr.