Vísur um þá biskup Jón Arason og syni hans | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísur um þá biskup Jón Arason og syni hans

Fyrsta ljóðlína:Margir hafa þá menntanægð
bls.485–498
Bragarháttur:Níu línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBcdcdc
Viðm.ártal:≈ 1575
Vísur um þá biskup Jón Arason og syni hans,
sem kvað Ólafur Tómasson, systurson þeirra biskupssona.
1.
Margir hafa þá menntanægð
menn í þessu landi:
að kveða um manna fyrri frægð,
með fögru Berlings blandi
auka óðinn sinn;
en eg mundi annað tjá
ef orðin kynni eg svinn:
væri mér skyldast skötnum frá
að skýra um fóstra minn.
2.
Hann var nefndur herra Jón,
í hæsta biskups valdi
öllu stýrði um Ísafrón
svo engum kom að gjaldi
hans orð fyrir utan rétt;
en sem lögin lagði á
lét hann auði flett,
vildi ekki víkja frá
því vitrir menn hafa sett.
3.
Hann var einn með herrum þeim
sem Hólum stýrðu lengi,
eignaðist bæði auð og seim
og æðstu tign hjá mengi
um alla Íslands byggð.
Hann var bæði hýr og hægr,
hlaðinn með allri dyggð,
á einn veg líka fróðr og frægr,
finnst það engin lygð.
4.
Klaustrareglu og kirkjufrið
köppum skipaði að halda,
föstur að efla og fagran sið;
fyrða lét hann gjalda
ef héldu ei helgan rétt,
sætlegar messur syngja bauð,
með sönnu hef eg það frétt,
fátæka hann firrti nauð
sem faðir himna hefir sett.
5.
Í mat og klæðum milding sá
miðlaði drottins sauðum,
fimmtán hundruð frétti eg frá
firrti marga nauðum;
hvert ár hélt hann það.
Á dögunum tveimur til var sett
trútt að veita bað;
að auki tel eg það annað rétt
er var á Hóla stað.
6.
Veitt var jafnan veisla stór
með virðing heima á Hólum,
þegar sveitin söng í kór
sínar tíðir á jólum
var stofan af fólki full.
Hann réð skenkja herlegt öl
hverjum vopna Ull,
á flestri var þar fæðu völ,
frá eg það betra en gull.
7.
Gullkaleikinn gjöra lét hann
með gæskusmíðið skýra,
af því rísa rógrinn vann:
ríkisfólkið dýra
hann girntist gjarnan fá;
merkur níu í metum stóð,
margur þetta sá;
þau vóru á Hólum þingin góð
þegar hann féll frá.
8.
Skínandi var skrúðinn einn
sem skenkti hann heim til Hóla,
með flugeli allur fagr og hreinn,
flúraðr í þeim skóla
sem langt í löndin er.
Aldrei borið hefir annað slíkt
enn fyrir sjónir mér;
veit eg fátt svo fólkið ríkt
að finni hans líkann hér.
9.
Á Hólum er ein herleg brík
sem hingað gjörði að færa,
engin finnst nú önnur slík:
allir mega það læra
hvað drottins dýrðin vann:
um hingaðburð og herrann Krist
hversu að píndist hann,
flúruð öll með fagra list,
hún fræðir margan mann.
10.
Hundruð sjö, eg herma skal,
hafði hann valdra þegna
í sinni fylgð með seggjaval,
sínum óvinum gegna
með svörum og sönnum rétt.
í Skálholt reið þá skýrðarmann,
skatnar hafa það frétt,
héldu þeir sem herra hann
hugðu honum þó prett.
11.
Til Alþingis reið svo aldrei enn
Íslendingum meiri,
að hefði ekki hundruð tvenn
hölda búna geiri,
stundum vóru þau þrjú.
Skrautlegan tel eg þann feðga flokk,
firn það þætti nú:
búin var öll með brynju rokk
bragnasveitin sú.
12.
Átt hefir sér arfa sá
við ungri silki nönnu,
beint var öllum blóminn á,
birti eg það með sönnu
þeir bæri af brögnum hér:
Björn og Ari bræður tveir,
bert var það fyrir mér,
veit eg að öngvir virðar meir
vísdóm af þeim ber.
13.
Björn var mildur, menn hafa spurt,
Melstað stýrði lengi,
hélt hann sig með heiðri og kurt.
og hvers kyns megtar gengi,
mörgum manni kær;
æ var hann við bragna blíðr
bæði firr og nær;
en í styrjöld styggr og stríðr
ef sturlun nokkra fær.
14.
Enginn prestr á ísa láð
átti slíku að stýra,
með Fofnisvalla fagra sáð
fyrða marga dýra
fékk hann í flokk til sín;
unnu honum því margir menn,
þá mæddi engin pín,
hann var að réttu höfðingenn,
það hermir vísan mín.
15.
Með hundrað manna halrinn víkr,
höldar mega það frétta,
til alþingis rekkrinn ríkr,
ræði eg allt af létta
um rausnar-þegninn þann,
tygjað fólk í trausta ferð
tel eg að hefði hann,
hervopn góð, með hanska og sverð,
hver sig prýddi hans mann.
16.
Á Vatnsnesi er vænlegt ból,
að vísu gaf hann það einum,
er að sönnu ekkert hól:
öllum sínum sveinum
gæddi hann gjöfunum mest;
hesta, klæði og hervopn væn,
sem höldum þótti best,
aðrir fengu flesta bæn
með furðu lítinn brest.
17.
Ari var lærður allra best
af öllum leikum mönnum
á látínu og lögmál flest,
lifði í trúskap sönnum
við vini og vandamenn.
Ef leituðu nokkrir liðs til hans
hann lagði út ráið þrenn,
veitti jafnan virðum ans
þó væri ei tignarmenn.
18.
Með lýðum stóð í lögmannsstétt
sá listarmaðurinn frómi,
setti jafnan sakirnar rétt
með sönnum laganna dómi,
gekk þó gjöfunum frá;
rán og stuldi refsa vann
sem rekkar mega sjá,
gaf þau dýrleg dæmin hann,
dróttin læra má.
19.
Dyggð og einörð drjúgum bar
af dróttum landsins öllum,
hægr, en þó í hjarta snar,
hýr hjá görpum snjöllum,
þá hann á þingum stóð;
veitti jafnan virðum þrátt
vopn og klæðin góð,
engan hafði undandrátt
að efla sína þjóð.
20.
Árna nefni eg ítran mann,
örvaþundum meiri,
hann einn gifta garprinn vann
og gumna aðra fleiri,
gaf hann þeim góssin stór:
sextíu hundruð sæma réð
svinnan málma Þór,
herradæmi og höfðings geð
hafði hvar sem fór.
21.
Lugu þá af honum lögmanns nafn
landsins vondir þegnar,
sá var ei af sæmdum jafn
er settr var til að gegna
lögunum landi í,
útlensk þjóðin allra mest
ágirnd hafði á því,
svo reika skyldu hans ráðin flest,
reistu upp klamarí.
22.
Til Alþingis ennþá reið
eyðir blárra skjalda,
í lögréttu lagði leið,
lést þar mundi gjalda
dalina danskri drótt:
kastaði silfri kappinn dýr,
það kom á nasir fljótt
hirðstjórans en hringa Týr
hvergi fór þó ótt.
23.
„Et þú það nú örva þundr!“
Ari nam hátt að greina,
hinn réð skelfast hringa lundr
þó hefði marga sveina
og héldi hnífum á;
enginn þorði orðið eitt
aftr að greiða þá,
ellegar hefði lífið leitt
látið búknum frá.
24.
Hundruð þrjú og hér með hálft
höldar stóðu í kransi
á eyrinni fyrir ofan sjálft,
öllum var búinn vansi
Ara óvinum þá:
búnir allir björtum geir
ef bryddi illu á;
skyldu allir skatnar þeir
skeinu í hausinn fá.
25.
Nú skal dróttin dæma rétt,
hvort drengir finnast slíkir
af metorðum og manndóms stétt
þó menn sé haldnir ríkir
að hörku og höfðingsdóm.
Eg mun sjálfur svara mér til:
Þó sýnist öldin fróm
enginn hirðir um annars spil
nema ei sé taskan tóm.
26.
Þessir feðgar, þér hafið spurt,
þeir stýrðu Ísaláði
með herradómi, heiðr og kurt
og helsta góðu ráði,
með hreinni hjartans dyggð,
svo yfirgang skyldi enginn mann
Íslands veita byggð
heldur mætti hver sem kann
haldast vel í tryggð.
27.
Fór nú enn sem áður fyr
afreksmönnum góðum:
þeir sem veittu virðum styr
og vörðu lönd sín þjóðum,
öfundin falsið fær.
Svíkja gjörði sveitin aum
seggja dróttir þær
sem sátu oft með gleði og glaum
görpum harla nær.
28.
Alexander var einn af þeim
sem eitrið sterka kenndi;
Júlíus annar úti í heim,
sá öllum kóngum renndi,
sá ei svikunum við.
Pompejus hinn þriðji þegn
þenkti upp á frið,
af sjálfs síns manni með sverði í gegn
var særður í sinn kvið.
29.
Ólaf nefni eg öðling þann,
er átti Noreg stýra,
sjálfs hans fólkið svíkja vann:
svo vill bókin skýra,
það harðar hefndir hlaut.
Fyrir Sveini kóngi seggir þeir
af sínum eignum braut
keyrðir vóru en komu þó meir
í kynja marga þraut.
30.
Af Knúti helga heyrt hafið þér,
hans menn sviptu lífi;
Tómas biskup taldur er,
tók við sára kífi,
þá dauður drengrinn lá.
Er því líkast efnið það
sem áðan hvarf eg frá,
hver þeirri sögunni hyggur að,
hugsa mætti sá.
31.
Hér fór eins um herra þá
sem höldum fyr eg skýrði:
lymsku-þjóðin lífi frá
listar-mönnum stýrði
með svikum og sönnum prett.
Öfunda gjörðu ýtar það
að þeir vildu rétt
haldast láta í hverjum stað
hvern í sinni stétt.
32.
Pilta-Brynki og prestur einn,
píndur öfundr stríði,
þá var Pétur hinn þriðji sveinn,
þessir sigldu um víði
með ríkan róginn mest.
Eftir vóru í annan stað
þeir allra gjörðu verst,
lífinu ræntu og ljóst var það,
lymsku þjóðin flest.
33.
Daða skal nefna darra meið,
dirfð bar slíka að hendi,
til Sauðafells að seggrinn reið,
sinni lukku renndi,
þar sátu svinnir þá;
tíutíu hafði talsins menn,
trútt vil eg segja frá,
fús var allur flokkurenn
að feðgum skyldi ná.
34.
Kennimenn með kristinn sið
kirkju héldu hreina,
þeir hugðust mundu hafa þar grið,
en há ei hildi neina;
hinn bar harðan móð.
Þrjátíu fylgðu feðgum enn,
frækin norðlensk þjóð,
þó ekki gjörðu allir senn
að auka benja flóð.
35.
Svo var öldin illskufús,
eg mun verða að skýra,
þeir öktuðu ekki herrans hús,
himnakóngsins dýra,
heldr en hestarann,
brutu niðr og börðu hátt;
bestur þóttist hann
sem allan sýndi illsku mátt
og einhvern særði mann.
36.
Fangaði síðan fyrðasveit
frægan stýri dáða,
hafði í brott sem hver mann veit,
hann og hlýra báða
heim í Snóksins dal,
breyttu verst, sem vildu þeir,
við það þegnaval,
ekki hirði eg inna meir
um illskumanna tal.
37.
Síðan fluttu suðr um land
sæmdum prýdda þegna,
trúi eg enginn tæki á hand
að taka við þeim og gegna
allt um alþing fram,
reistu upp heldur ráðið það
sem rétt var mesta skamm:
Heimdalls fljóð þá halda bað
hart í sínum hramm.
38.
Ekki hirði eg inna það
um afgang þeirra manna,
ýtum verður angur að
ef allt er greint hið sanna
hvað skeði Skálholti í.
Hafi þér áður heyrt til sanns
hvað hlaust af efni því,
vinir og frændur vildarmanns
vóru þá síst með frí.
39.
Þessir feðgar fóru heim
til föður himnaríkja,
virtu að öngvu veraldarseim,
vildu heldur líkja
drottins dýrðar sveit.
Herrann Guð minn hafði þá
í hæstan himna reit,
gaf þeim alla gleðina þá
guðdómselskan heit.
40.
Þá þessir stýrðu, það hefi eg séð,
þúsund var að greina,
fimm hundruð þar fylgja með
og fulla tuttugu eina,
þá hófst upp hölda prís,
þrjátíu stýrðu árin enn,
svo öll var lukkan vís,
eftir það fóru allir senn
inn í Paradís.
41.
Eitt vil eg segja af seggjum þeim
er svinna gjörðu að fanga:
fljótlega fóru til heljar heim,
eða hryggð með ánauð langa
áttu um aldur hér.
Annars heims eg ekki veit
hvað ályktað er,
brjótist þar við bragnasveit,
byrgt er það fyrir mér.
42.
Í Hólakirkju hvílist nú
herrann prýddur dáðum,
sæll og sterkr í sinni trú
með sínum örfum báðum,
allir í einum stað.
Sæmdar prestur Sigurður hét,
sá réð vinna það,
suðr í Skálholt sækja lét,
svo sem faðir hans bað.
43.
Greindur stýrir faxa fróns,
frægðarmaðrinn góði,
hann var arfi herra Jóns
af harðla dýru fljóði,
sú Helga heita réð;
af flestum kvinnum frægðir bar,
fegurð og *handnirð með,
á ísa láð þá öngri var
auðgrund meira léð.
44.
Herra Jón og Helga sú,
heiðri prýdd og dáðum,
tel eg að ætti tvisvar þrjú
tigin börn í náðum,
sagt hefi eg synina þrjá;
fjórði Magnús, fremstur einn,
eg fékk hann ekki að sjá,
gleðina alla gæfi honum hreinn
greint var mér svo frá.
45.
Þennan prýddi, það hefi eg frétt,
þegninn mennt og æra,
heiður, prís og höfðingsstétt
hafði hann numið að læra,
helst með hofmanns list,
unnu honum því allir menn,
elskaði Jesúm Krist,
á ungum fór sá aldri enn
inn í himna vist.
46.
Eitt var Þórunn uppá Grund,
Eyfirðinga blómi,
önnur Helga hringa hrund,
henni fylgði sómi,
sú var suðr í Dal.
Ísleif sá eg og Eyjólf með,
þær áttu bændaval,
mjög var þeim til manndóms léð
margt, eg greina skal.
47.
Síðan fór á *ringulrey
réttr á Ísalandi,
aldrei veit nær Óðins mey
öll er drifin í sandi,
svo hverfi gós og gras
lýðnum fyrir sín lymskuverk,
lygar og orðamas;
trauðlega finnst ein tungan merk,
tryggðin er eins og glas.
48.
Herranna er nú hugsun mest
að haga svo sínu valdi
að komast megi undir kónginn flest
með klögun og sektagjaldi
eða kosta kroppsins pín,
að útarma svo sitt eigið land,
ötlun er það mín,
svo eigi hafi það eftir grand
af öllum peningum sín.
49.
Sannur faðir með syninum nú
og sínum heilaga anda
láti oss halda helga trú
hvað sem á mót vill standa
með hryggð í heimi hér.
Flyttu oss alla, faðirinn dýr!
í friðarins faðm á þér,
sonr þinn Jesús sætr og hýr
sjálfur gefi það mér.
50.
Ekki eg binda orðin kann
í arnar klígju neina
heldur skili hver sá mann
sem hefir til tungu hreina
og auki óðinn við.
Frændur þeirra feðga nú
eg forláta mér bið,
verð eg að hugsa um börn og bú,
því byrgi eg mærðar hlið.
51.
Hringrinn dökkr og höfnin hrein
hvers kyns gamanið fríða,
lofðungs eign og leiðing ein,
leit sá margan ríða
er gerði *gelmis sótt.
Kæran ekki kallsi mig
þótt kvæðið sé ekki frótt,
því valda fjúkin feiknalig
og frostin um bjarnar nótt.


Athugagreinar

43.7 handnirð] trúlega afbökun fyrir ‘hannyr(ir’
47.1 *ringulrey] líklega afbökun fyrir ‘ringulreið’
51.5 gelmis] < gemlis (= arnar; arnar sótt: leirburður) KE