Vetrartíð víst er umliðin nú | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra
Ein fögur söngvísa og þakkargjörð fyrir umliðinn vetur
Tón: Blíði Guð börnum. S.H.P.S.
1.
Vetrartíð víst er umliðin nú,
farsæl, blíð, blessunarfull var sú.
Drottinn veitti lýðum lið um láðið og græði,
heilsu, frelsi, fæðu, frið, flest náðargæði.
Menn og hjörð máttu ei neina
um loft og jörð *landplágu reyna.
Þakkargjörð því skulum greina
ástarlystilegum hug:
Lofaður hafi gefið oss Guð gáfurnar sínar!
Lofaður hafi gefið oss Guð gáfurnar sínar!
2.
Veður *mjúk, von manna framar þó,
engin fjúk, allskjaldan frost eða snjó
reyndi kindin raunar nein, rétt má svo inna,
hvorki hörku-mun né mein máttu því finna.
Þarfleg nægð því var á fóðri,
skjól og hægð skepnunni móðri.
Þessa vægð þökkum vér góðri
miskunn ferskri drottins dátt.
Hafi nú lof og heiðran Guð á himni og jörðu!
Hafi nú lof og heiðran Guð á himni og jörðu!
3.
Sjónum af afla og fiskiplóg
Herrann gaf hvörjum so dugði nóg.
Voðinn bráður vinds og unds varð öngvum skæður,
stýrði ferð til sands og sunds sá öllum ræður.
Um vora sveit sóttin allfæsta,
það eg veit, þjáð hefur. Næsta
mjúk og heit miskunnin hæsta,
drottinn, veitti oss værð og vörð.
Helgum, prísum, heiðrum Guð með hjarta og sálu!
Helgum, prísum heiðrum Guð með hjarta og sálu!
4.
Hvör fær tjáð, talið og reiknað greitt
soddan náð sem oss fékk drottinn veitt,
stundleg, andleg gæðin góð, gáfurnar flestar
af föður blíðum þáði þjóð þær allar bestar.
Kenning hans, klárt orðið sanna,
friðinn lands, farsældir manna,
andskotans ákefð réð banna.
Engin þvingun lúði lýð.
Lofaður sé vor ljúfi Guð fyrir lánið sitt góða!
Lofaður sé vor ljúfi Guð fyrir lánið sitt goða!
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 4, bls. 144–148. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir ÍB 380 8vo, bls. 112–114, og er hann hér birtur orðrétt eftir henni með sömu tveim leiðréttingum og þar eru gerðar)