Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Nú vil eg enn í nafni þínu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra
Nú vil eg enn í nafni þínu

Ungmennabænarkorn á kvöld

Nú vil eg enn í nafni þínu,
náðugi Guð sem léttir pínu,
mér að minni hvílu halla
og heiðra þig fyrir gæsku alla
þáða af þér á þessum degi,
því er skylt eg gleymi eigi.
Enn það má eg aumur játa,
angri vafinn, sýta og gráta:
móðgað hef eg margfaldlega
mildi þína guðdómlega.
Útslétt mínar syndir svartar,
sundurkramið lækna hjarta,
afþvegið í æðsta flóði,
endurlausnarans Jesú blóði,
so eg kvittur sofi í friði,
sál og líf af englaliði
ummkringd, satans illsku hrekki,
ógn og slægðir finni ekki.
Blessa hús og hvílu mína,
hjástoð lát mig merkja þína,
þá mun ásókn illra anda
ei hið minnsta kunna að granda.
Lát mig þenkja á þessu kvöldi
það eg lifi í veiku holdi.
Brothætt gler og bólan þunna
brotna senn og hjaðna kunna.
Þú, einn Guð, skalt þar um ráða,
þínar kný eg á dyr náðar,
af míns hjarta innsta grunni
andvarpa og bið með munni.
Þegar eg skal seinast sofna,
sál viðskilur, fjörið dofnar,
hjartans faðir, í hendur þínar
hverfa lát þá öndu mína.
Hold í jörðu hægt lát blunda
helgra so þar bíði funda
og upprisinn að eg víki
inn með þér í himnaríki.
Þar mun eg þúsund þakkir færa.
Þér sé lofgjörð, prís og æra.
Amen.

(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 4, bls. 124–126. Í útgáfunni er kvöldbæn þessi tekin eftir ‘Andlegir sálmar og kvæði’ (Hallgrímskveri) á Hólum 1759, bls. 48–49, og er þeim texta hér fylgt orðrétt)