Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Umþenking eilífrar sælu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Umþenking eilífrar sælu

Fyrsta ljóðlína:Burt héðan heims frá stríðu
bls.14–16
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður+) þríkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1650–1675
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Í útgáfunni prentað eftir Lbs 1529 4to, bls. 31–33.
Tón: Krists er koma fyrir höndum.
1.
Burt héðan heims frá stríðu
hjartað mjög langar mitt
í vist þá ástarblíðu
sem er frá nauðum kvitt
af hjartans innsta sinni
útvöldum drottins hjá
svo að mín sála kynni
syngja skært gloríá.
2.
Jafnan með alúð ættir
að athuga sála mín
hvörnin að helst þú mættir
hættlega forðast pín
og finna í friðarins höllum
þinn frelsara Jesúm Krist
þar hann er allt í öllum.
Ó, hvílík dýrðarvist!
3.
Öngvum þar muntu meinum
mæta á nökkri tíð,
horfinn er hryggð með kveinum,
harmur og sóttarstríð.
Af þínum augum þerra
þá mun öll sorgar tár
drottinn allsherjar herra,
þinn hjartans bróðir klár.
4.
Réttlætisskrúða skírum
skrýdd muntu sála mín
og skírnarskarti dýru,
skínandi klár og fín,
syngja drottni og segja
sanctus um loft og heim.
Hans lof skal hvörgi þegja,
hósanna kóngi þeim.
5.
Næsta [gr]eitt amen inna
englanna sveitin skær.
Blessuð það blítt sam[tvinna]
[bör]nin Guðs ástarkær.
Sú mun sönglistin ganga
sætara en organsspil.
Ó, sál mín, lát þig langa
ljóst þess fagnaðar til.
6.
Getur enginn með greinum
glöggt um þá sælu téð,
í hug kom hvörgi neinum,
hefur ei auga séð
sem Guð vill sjálfur veita
sínum af skærri náð
sem eftir hans orðum breyta
og elska þau með dáð.
7.
Unun er á að minnast
ástsemdar gleði þá.
Hvað mun þá þeim tilfinnast
sem þeirri sælu ná
heyra þar fögur hljóma
hljóðfærin allra best?
Sjá Guð í sínum ljóma
sú er þó dýrðin mest.
8.
Dauða þá sál eg segi,
sannlega er það víst,
sem hér um hugsar eigi
nær heyrir þessu lýst
hvör sómi hefð og heiður
hjartans gleði og list
um eilífð er til reiðu
í vorum Jesú Krist.
9.
Ó, Jesú, Jesú góði,
ég lofa og prísa þig
að þú með þínu blóði
þvoðir af syndum mig,
lést einninn arfvon eiga
útvöldum þínum hjá
og með þeim inna mega
eilíft hósíanná.
10.
Við það vil eg mig hugga
nær voði að höndum brýst
þó dauðans skelfi skrugga
skal eg nú hræðast síst.
Öngvum eg ógnum kvíði
af því að mér er vís
hjá Guði sönn um síðir
sælan í paradís.
11.
Næsta glöð sál mín sæla
syng drottni lofvers hreint,
orð hans kann aldrei tæla,
elska það ljóst og leynt.
Syngjandi segjum bæði
sætt lof af hug og trú
fyrir friðarins gæði
frelsara vorum nú.
12.
Dýrkum í dikt og ljóðum
drottinn vorn Jesúm Krist,
hljóðfærin honum bjóðum
hjartans með strengja list.
Heiðra þann herra lærum
hefjandi upp á jörð,
annars heims svo framfærum
fullkomna þakkargjörð.
13.
Sætt lof með söngvahljómi
sé þér, ó, Jesú minn.
Hvör tunga hvellum rómi
hátt prísi almátt þinn.
Unn þú mér að eg kunni
æ meðan lifi eg hér
með hjarta, máli og munni,
minn Guð, lof syngja þér.
14.
Ó, drottinn allrar mildi,
eins beiðist eg af þér.
Það gjarnan þiggja vildi,
þess munt ei synja mér,
í þínu húsi án enda
að mætti prísa þig
og frá þér aldrei venda.
Um það bænheyr þú mig!
15.
Nýtt lof í nýjum kvæðum
nafni þínu eg vil
segja með söng og ræðum,
send þú mér náð þar til.
Lát mig svo hér í heimi
hegða mér alla stund
að eg aldregi gleymi
eilífum sálarmund.
16.
Amen, Jesú ástkæri,
amen, í nafni þín.
Heilög þín hönd mig færi
úr hættri dauðans pín.
Eftir þér eg mjög þreyi,
ást þín er mjúk og fljót.
Upp á það eg nú segi
amen af hjartans rót.
Amen.