Kvæði um missi ástmanna | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kvæði um missi ástmanna

Fyrsta ljóðlína:Adam sakna Abels hlaut / ævi sína langa
bls.124v–125v
Bragarháttur:Tíu línur (tvíliður) aBaBaCCadd
Viðm.ártal:≈ 1650

Viðlag:

Einn fer að deyja,
annar syrgir þann;
oss má fúsum fleygja
í föður rann;
þeim er hægt að þreyja
sem engum ann.

1.
Adam sakna Abels hlaut
ævi sína langa,
við þá vakna verður þraut
vildi á móti ganga,
harmar rakna hyggju skaut
hart í sundur teygja.
Einn fer að deyja.
Sældir slakna á sorgar braut,
svefns ei vel né matar naut
þá hjartað brann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
2.
Jakobs angur eitt var mest
eftir Jósep góða,
sá mótgangur fékk svo fest
fót hjá stuðli þjóða
að mundangur sá einn sést,
sig í gröf vill hneigja.
Einn fer að deyja.
Harmur strangur hjartað lest,
hafði sett í gleðinnar brest
og yndis bann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
3.
Ofan á þetta Rakel rjóð
reyrð með sóttar böndum,
á veginum slétta væn og góð
var honum sjúk á höndum,
sútir flétta sorgar móð
svo að hún varð að deyja.
Oss má fúsum fleygja.
Eykur þetta um yndis slóð
angur mest og ræmist hljóð
því grætur hann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
4.
Davíð harmar soninn sinn
sem hans hjartað unni,
hann sér barmar, bleik var kinn,
brauðs ei neyta kunni;
laugir varmar augna inn
undir kverk sig teygja.
Einn fer að deyja.
Lyndis farmar lýttu kinn,
linaði hold og vænleikinn,
sem verða kann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
5.
Job hinn góði börnin blíð,
blóma firrtur sönnum,
grét af móði, stórt var stríð,
styggðir meðtók hrönnum;
lá í blóði leiður lýð
lýtti hann húsfreyja.
Einn fer að deyja.
Hátt og í hljóði heyrði níð,
hennar ei var lundin þýð
við krankan mann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
6.
Gyðingaland var hrært með hryggð
hrópið spurðist víða,
ævigrand á Efraim byggð
ungbörn hlutu að líða;
við sorgarband með stóra styggð
og sturlun mæður þreyja.
Einn fer að deyja.
Af þeirra hand sem ljúf var lygð
lífi ræntust full af tryggð
en blóðið rann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
7.
Einn á víði fuglinn finnst
frá sem annar deyði,
hinna siði hirðir minnst
hugsar lítt á veiði,
svo í friði söngva binst,
situr og er að þreyja.
Einn fer að deyja.
Er á skriði angrið innst
ætíð meðan lífið vinnst
um rænu rann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
8.
Munur ekki meiri en sá
meina ég verða kunni,
sældar bekki að sitja’ upp á
og syngja glatt með munni,
eða hrekki hryggðar fá
sem hrella menn og beygja.
Einn fer að deyja.
Máske þekki margur þá
mín til klekki eftir á
því nóg til vann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
9.
Ráðið glæst sá reyndur er
rétt vel skyldi grunda,
Krist við æðstan koma sér
og kærleik hans að stunda;
bót er næst þá bölið sker
börn Guðs plaga að segja.
Einn fer að deyja.
Skinið læst í skýjum fer,
skjótt þó næst það sjáum vér
þá hitt frá rann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
10.
Reynir pína menn sú mest
manna bann að hljóta,
mein er fín ef fékk mann fest
fljóðin rjóð ei njóta,
kvein þau sýna kinna brest
ef kvendin fara að deyja.
Oss má fúsum fleygja.
Einir rýna í það flest
sem eykur veikan lyndis brest
um krankan mann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.
11.
Föður góðan missa með
mun og örðugt heita,
öðlast síðan angrátt geð
undir hvarma sveita;
móður og blíða betri en féð
beint hvör mætti segja.
Einn fer að deyja.
Bróður líða lát er skeð,
ljóðin bíða systur geð,
þér æ ég ann.
Þeim er hægt að þreyja sem engum ann.


Athugagreinar

Lesbrigði úr Lbs 1050 4to:
1.9 matar] fæðu 1055. 10 þá] því 1055. 2.8 Harmur strangur] harmastrengur 1055. 3.2 sóttar] sorgar 1055. 6 svo að] svo 1055. 9 ræmist] ræmir 1055. 4.6 teygja] beygja 1055. 9 linaði] linuðu 1055. 6.5 við] með 1055. með] við. 7.6 þreyja] þegja 1055. 9.2 vel] það 1055. 3 æðstan] hæstan 1055. 7 einn_deyja] Oss má fúsum fleygja 1055. 9 næst] fæst 1055. 11.7 einn_deyja] Oss má fúsum fleygja 1055.