Spilavísur II | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Spilavísur II

Fyrsta ljóðlína:Fleins um njót og falda bil
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1875
Flokkur:Bæjavísur
1.
Fleins um njót og falda bil
fátt eg ætti að skrafa,
eflaust kemur eitthvað til,
enginn vill þau hafa.
2.
Mestan stunda sómasið
sem að hrósa lýðir,
lukkan bæði leikur við
ljúft um allar tíðir.
3.
Ekki er kyn þó örva grér
oft á hörðu kenni,
vinnumaður einn þar er
sem allvel geðjast henni.
4.
Ósamlyndi og úlfbúð hér
aldrei hafa næði,
hvað sem annað ætlar sér
alltaf vilja bæði.
5.
Seims þó bör og seimgrundin
safni nægum forða
eru kölluð aðgætin,
ekki tíma að borða.
6.
Álmatýr og auðgrundin
auðlegð græða óringa,
göfuglynd og gestrisin
gleðja fátæklinga.
7.
Bæði kaffi og brennivín
brúka þau úr máta,
börnin særir sultarpín
svo þau stundum gráta.
8.
Ánægð bæði sérhvert sinn
sýnast þau án vafa,
ei þó græðist auðlegðin
alltaf nægtir hafa.
9.
Mikið bæði morgunsvæf
mjög vel að sér hlúa,
eru af lýðum hreint óhæf
haldin til að búa.
10.
Vel þau metin mörgum hjá
mætan elska friðinn,
reiknast bæði, rétt skal tjá,
reglusöm og iðin.
11.
Konan bráðlynd kölluð er,
kvarta lýðir gera,
bauga rjóður þrár og þver
þykir stríðinn vera.
12.
Stillt og gætin hrings er hlíð,
háttu stundar góða,
eins er mætur öllum lýð
yggur sunda glóða.
13.
Létt við mann sinn leggur ást
liljan hafnar bríma,
hjónabandið held ég skást
hætti einhvern tíma.
14.
Bóndi auðar ungri gná
ástir kann ei veita
því að fleiri fljóðum hjá
fékk hann elsku heita.
15.
Halur þó og hringa spöng
hjúskap saman bindi
ei samvistin verður löng,
veldur ósamlyndi.
16.
Heiman lengi síst er sá
sveigir hlífar skera
af því hvorugt annars má
án um nætur vera
17.
Vill þeim enginn vera hjá,
víst er það af hinu,
því hann svíkur eftir á
alla á kaupgjaldinu.
18.
Hugsar sín um börn og bú
bóndinn þankahrelldur,
engin getur haldið hjú,
húsfreyjan því veldur.
19.
Vinnumaður klappar kær
konumaga vænum,
bóndinn á sér aðrar tvær
óléttar á bænum.
20.
Bæði á daginn blunda rótt,
búskap lítið sinna,
þegar kemur niðsvört nótt
nóglegt hafa að vinna.
21.
Hjónin borða hangiket,
hjúin svöng það vita,
smalinn sárt af sulti grét,
samt fékk engan bita.
22.
Ánægð bæði eru mest,
allur græðist vandi,
heimsins gæði hljóta flest
horfin mæðustandi.
23.
Hringa brú og seggur sá
saman búa vildu,
þó þau fljúgast alltaf á,
enginn trúa skyldu.
24.
Njótur skíða hrings og hlíð
horfin stríðum trega
eins með blíðu alla tíð
unnust prýðilega.
25.
Bergja víni brenndu á,
böls þó tínist lestur,
fátækt pínir þung og þrá,
þau framsýnið brestur.
26.
Hirðir klæða hrings og reim
handar græða klaka,
enginn fæðist arfi þeim,
angrast bæði taka.
27.
Frá sér hrinda þungum þjóst
þrátt er myndar trega,
ástin kyndir beggja brjóst
en brjálast skyndilega.
28.
Veita mestar velgjörðir
víf og lestir skjóma,
sífelld gesta ös þar er,
og það flestir róma.
29.
Konan ræður öllu ein
ofsa með ófrýnum,
það er hennar mesta mein
manni að þjóna sínum.
30.
Klæðum undir hýr og heit
hlyni sunda glóða
falda hrundin fagurleit
fangið mundi bjóða.
31.
Fleina týr og falda slóð
fæsta skemmtun banna,
er þar vistin afbragðs góð,
öll það hjúin sanna.
32.
Þar að vera þykir best,
þangað margir leita
af því þeirra er yndi mest
öðrum gott að veita.
33.
Oft af smáu ýfast kann
auðar gná við halinn
svo að þráfalt sækir hann
sinnis hái kalinn.
34.
Hirðir skíða hvert eitt sinn
hryggð og stríði týnir
af því fríða auðgrundin
alla blíðu sýnir.
35.
Ef að bóndi eina nótt
annars staðar tefur
henni varla verður rótt,
vart hún mikið sefur.
36.
Njótur fleins er forvitinn
fréttir margar segir,
spurull eins og auðgrundin
yfir fáu þegir.
37.
Fer í kaupstað kyrtla brú,
kemur fram á skipin,
hjúskaps gleymir helgri trú
hún í þennan svipinn.
38.
Nokkurn þó á nægtum brest
núna fundið geta,
bóndinn líka manna mest
mælt er þurfi að éta.
39.
Óhófssöm er bauga bil
og býsna stór í lyndi,
öllu sem þau eiga til
eyðir hún í skyndi.
40.
Harla nísk er húsfreyjan,
hún vill matinn spara,
hjúin sult ei þola þann,
þau í burtu fara.
41.
Mjög er blíð við manninn sinn
menja hlíðin rjóða,
henni stríðir sérhvert sinn
sendir víðis glóða.
42.
Hjónin sitja sín við spil,
sífellt vaka um nætur,
ef að kaffi er þá til
upp hún setja lætur.
43.
Ætíð hjónin iðja smátt,
arfar fjölga beggja,
þegnar líka þurfa brátt
þeim af sveit að leggja.
44.
Örva fríðum ulli réð
atlot þýð að bjóða
ástar blíðu brosi með
björkin víðis glóða.