Guðspjallsvísur af þrefaldri freistni – Guðspjallavísur Einars í Eydölum | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Guðspjallsvísur af þrefaldri freistni – Guðspjallavísur Einars í Eydölum

Fyrsta ljóðlína:Vaki þér upp sem viljið heita
bls.84–86
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar
1.
Vaki þér upp sem viljið heita
að vísu góðir kristnir menn.
Daglegt stríð vér þurfum þreyta
við þann enn grimma Satan enn.
Jesús vill oss læknis leita,
líknar ráðin gefur út þrenn.
2.
Það er oss greint í guðspjalls orði,
græðarinn, Jesús, hungrið leið.
Djarfur og lymskur djöfullinn þorði
að dikta flærð um þetta skeið.
Sjáðu, maður, við sálar morði,
situr þú mitt á heljar leið.
3.
Í fyrstu kemur hinn fremdarsnauði,
freistar Krists og þanninn tér:
Gjörðu þetta grjót að brauði
ef Guðs son viltu reiknast hér
heldur en þig kvelji hungur og dauði,
himna faðirinn gleymir þér.
4.
Oss vill þetta öllum ráða
að örvænta svo fæðunnar;
þó vér biðjum Drottin dáða
dugir það stundum ekki par.
Oss til gleði og allra náða
Jesús greiddi þvílíkt svar:
5.
Einfalt brauð er öngvum forði,
aldrei má það lífga mann,
heldur er styrkur að herrans orði
hvörjum þeim sem treysta á hann;
þó matur og vist sé minni á borði
margir prófa kraftinn þann.
6.
Önnur freistni er ekki minni,
ofan af kirkju fleyg þú þér,
engla segir að fullting finni,
falsníðingur í sálminn fer,
vefur svo Skrift en villir sinni,
vitringarnir gái að sér.
7.
Freisti enginn Guðs hins góða,
gjöri svo hvör sem Kristur bauð;
hafi þau ráð sem hann vill bjóða,
heims fordild er verr en dauð.
Hættu þér sjálfur hvörgi í voða
þó hjálpi Drottinn best úr nauð.
8.
Óráð þetta öllum kennir
ágætis að leita sér.
Veraldarspektin brjóstið brennir,
blekking sú er ljósust hér.
Hinn er sæll sem huganum rennir
um heilræðin sem Drottinn tér.
9.
Í þriðju grein er þrautin stærsta,
þyngsta raun sem verða má.
Flytur hann Krist á fjallið hæsta
fegurð og ríkdóm heims að sjá.
Hann heitir að veita gáfu glæsta
ef göfgan legði hann móti þá.
10.
Heiðran slíka held eg veita
heimsku veraldar ríkis menn,
að fótum Satans falla og leita
fyrst þeir elska Mammoninn;
guðdóms ráðunum gjörla neita,
gáðu að hvörninn svarar hann enn.
11.
Talar hann loks við Satan svarta:
Svikarinn, farðu í burt frá mér;
einum Guði af öllu hjarta
á eg að þjóna en hafna þér. –
Englar koma með ásján bjarta,
Jesúm heiðra sem þeim ber.
12.
Hugsa skyldi hvör sem annar,
hræðslufullur, um djöflamakt.
Forna djörfung Satans sannar
við sjálfan Guð sem nú var sagt.
Slíka fjandans kænsku kannar
kristinn maður og gefur ei vakt.
13.
Óttaleysið er helst í heimi
hryggilegasta synda kyn.
Allir dást að auð og seimi
og elska þennan Guðs óvin.
Þótt djöfullinn slíka dragi og teymi
dugir þeim lítt hið mikla skin.
14.
Svo er í hvörju syndafári
sem þá maðurinn fanginn er;
hann er leiddur af illum ári,
óttalaus sem blindur fer.
Sjá þarf vel við svikarans dári,
setur oss Drottinn lækning hér.
15.
Sú er hin hæsta huggun manna
að herrann Jesús djöfulinn vann.
Í veiku holdi vildi kanna
véla kraft og sigra hann.
Svo yfirgang mætti árum banna
oss gaf líka sigurinn þann.
16.
Önnur gleði af guðspjalls ræðu
er græðarans, Jesú, hjálpartraust.
Á sig lagði hann alla mæðu,
við eymd og raunir veraldar braust.
Svo vorkynnt gæti hann veikum bræðrum
hann vill oss styrkja efunarlaust.
17.
Í þriðju grein er það til bóta,
þjónkan skulu vér engla fá.
Andar Guðs, sem aldrei brjóta,
ævinlega oss standa hjá.
Ef vér forðunst lesti ljóta
þeir leiða oss allri meinsemd frá.
18.
Lofið og dýrð sé lausnara mínum,
ljúfum herra, Jesú Krist.
Hann er mér nær með englum sínum,
allrar hef eg því kvíðu misst.
Eftir líf frá lasta pínu
leiði hann oss í himnavist.
19.
Hjálpi oss Jesús, herrann góði,
heimur og djöfull skelfa má.
Vér sveimum aumir í synda flóði,
sækir holdið að stunda þá.
Þú helltir út þínu hjarta blóði,
hér er sú líkn eg treysti upp á.
20.
Á orði þínu elsku hreina
auk þú og líka trúna mér.
Hef eg þá sverð og skjöld að skeina
skálkinn hvörn sem móti fer.
Guðspjalls vísuna enda eg eina;
um allar aldir lof sé þér.
Amen.