Um gæfulag Guðs kristni í frá upphafi allt til enda | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Um gæfulag Guðs kristni í frá upphafi allt til enda

Fyrsta ljóðlína:Kristni Guðs skal kvæðasmíðið vanda
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður) fimm-, fer-, tví- og þríkvætt:AAbbbCC
Viðm.ártal:≈ 1600

Skýringar

Fyrsta erindi er sér um hátt það eð aukalínu er skotið inn í það.
Fimmta lína hefur nokkra sérstöðu. Hún er greind í hættinum sem sérstuðluð en virðist einnig geta tekið þátt í fléttustuðlun, þ.e. borðið síðari stuðul þar sem hinn fyrri er í fjórðu línu þó að hún hefjist á höfuðstaf.
1.
Kristni Guðs skal kvæðasmíðið vanda
sem kostulegast er blómstrið allra handa,
sem lifandi rós og lilja skær,
leiftrar af henni firr og nær,
það fregnum vær.
Hennar snilld væri mín vild
víst um heim að hrósa,
ein skal rósa afbragðsdiktinn kjósa.

2.
Svo sem ein rósa þrengd af þyrnum einum
þyki mér kristnin stödd í allskyns meinum.
Fegrast rós af þyrnum þrátt,
við þjáning öll Guðs kristnin brátt
fær meira mátt.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
3.
Þyrnar ljótu þeir sem að kristni meiða,
það eru allir þeir sem í háska leiða,
villumenn og herlið hart,
hefur þó rósin fegurðarskart
og blómið bjart.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
4.
Einn þyrnikvisturinn, Kain, rósina meiðir
og kristni spillir þá sinn bróður deyðir.
Samt var rósin sóma gædd,
Set og fleiri Guðsbörn fædd,
við herrann hrædd.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
5.
Eins er að sjá sem Abels blóðið hreina
af sér færi liljur fleiri en eina,
þar í þann tíð sem Enok var
og svo Nói rósin bar
sinn blóma þar.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
6.
Í flóðinu þá var þyrniviðnum illa
á þann veg drekkt að rós ei mátti spilla.
Satan ekki hvílist heldur
heilög rós að þessa geldur,
hann gabbi veldur.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
7.
Kam að nýju, kvistinn þyrnirs skæða,
kom hann þar til að föður síns lýti hæða.
Af sáði því kom soddan þjóð
að Sem hans bróður móti stóð,
var misjafnt góð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
8.
Sú fræga rósa föl varð ei við þetta,
fram gekk Sem og kenndi allt hið rétta.
Sætan ilm og anga ber
sú eðla rós, það kristnin er,
svo köllum vér.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
9.
Einn liljukvist af rósu rétt með blóma
reisti drottinn upp í heiður og sóma.
Abraham var sem lifanda ljós,
þá leiftrar vítt hin skæra rós
þó reyni vos.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
10.
Abraham leiddur af Úr í Kaldealandi,
oft kom hönum að höndum meiri vandi.
Ísmael var Ísak stríður,
ekki blómgast rós að síður
ef sorgir líður.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
11.
Þó ekki verði allar limurnar grænar
enn ber rósa margar kvíslir vænar.
Jakob nefni eg eðlamann,
Esaú, Laban sturluðu hann
sem heiðurinn vann.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
12.
Kvistir tólf þeir komu af Jakobs sæði
kostulegir þó misjafnt hefðu æði.
Sætleik rótar féllu frá
fleiri en einn, þó rósin má
ei fölnan fá.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
13.
Jósef seldur, yngstur bræðra sinna,
á Egyptaland og þar réð blessan finna,
þoldi bæði þraut og mein,
því var rósin óspillt ein
á alla grein.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
14.
Lymskur satan leitaði hann að þvinga
fyrir lostasamrar kvinnu girndarstinga.
Í myrkvastofunni mæddist þá,
mun þó rósa óspillt fá
meir fegurð að ná.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
15.
Því hvör kann skýra Jósefs alla æru,
er þá rósin prýdd með blómi skæru,
kóngleg dýrð á hægri hlið,
hefur þó bæði ljúfan sið
og fagran frið.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
16.
Síður en ekki satan vill það líða
að svo beri lengi rósin blómgan fríða.
Þá Jakob bæði og Jósef deyr
á Egyptalandi kvistir þeir
þá þvingast meir.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
17.
Þrengir rósu þyrniviðurinn illi
með þrældóms ok þó blómgast hún með snilli.
Í fúlum þrekk við leirverk ljótt
lætur drottinn hennar þrótt
svo eflast ótt.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
18.
Sá sem plantaði rós af réttu sáði
reiðist við þann hana svo of mjög þjáði.
Yfir Faraónem lét falla mein,
fegrast við það rósin hrein
í hvörri grein.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
19.
Móses leiddi mitt um hafið hið rauða
þann mæta lýð svo öngra kenndi nauða
en Faraó þungur þyrniviður,
er þjáði rós, þar sökktist niður
svo færðist friður.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
20.
Hvað öfundarsjúkur ei má satan líða
og á þá rósu jafnan gjörir að stríða,
á eyðimörku falskur og flár
í fjörutíu samfelld ár
þeim eykur fár.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
21.
Víngarðsherrann fann þá ráðið frægra
svo falsið satans yrði jafnan lægra;
lætur nýja liljurós
lifna þá sem skærast ljós,
það landið kaus.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
22.
Lýðnum yngra landið gaf það fríða
lifandi Guð og fyrir þá vildi stríða.
Sú plöntuð rós að nýju nær
nógleg blóm og yfirmenn fær,
svo Kristi kær.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
23.
Þar gat satan þessu blóminu skæra
á þann veg drekkt er skömm réð yfir að færa,
dómara, kónga og dýrstu menn
dregið í synd og afbrot þrenn,
það er augljóst enn.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
24.
Það liljublómið lætur ei drottinn falla,
hann lífgar rós um dagana heimsins alla.
Í Kanaans landi kónga þá
og kennimenn lét lýðinn fá
að list var á.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
25.
Ólmur satan aldri hvílast náði,
Ísraels börn með skurðgoðavillu þjáði
svo herleidd varð af heiðnum lýð
í heiminn austur rósin fríð
í fyrri tíð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
26.
Í Babílon þá blómgast rósin klára
þó bæði neyð og ánauð líði sára
því Daníel sendi drottinn þá
það dýrðarorð fyrir þeim að tjá
sem þrautir þjá.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
27.
Öfundar þetta óvin drottins barna,
um allan heiminn vill þeim sælu varna,
þá gulllíkneskju gjöra lét enn,
sem göfga skyldu allir senn
með átrú menn.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
28.
Þóttist satan þá hafa leikinn unnið
og þeir mundu allir fá í eldi brunnið
sem þá forsmáðu þetta boð
og þýddust ei það gyllta goð
þeim gjörði ei stoð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
29.
Í glóandi ofni gjörðist rósin frægri,
þrír göfugir sveinar urðu á einu dægri
settir inn í eld í stað,
enginn þeirra skurðgoð það
sér bjarga bað.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
30.
Sonurinn Guðs, hvör sína rósu frægir,
sveinum þeim við brunanum öllum vægir,
sjálfur í loganum sat þeim hjá
svo þar mátti kóngurinn fá
þá fjóra að sjá.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
31.
Sá lofðung var þá lostinn ótta sönnum
og lifandi Guð bauð dýrka öllum mönnum;
liljukvisturinn vænsti varð
vegleg rós, beið ekkert skarð
í öðlings garð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
32.
Lít nú á að leirverk hvörgi hið illa
né ljótir þyrnar kunni rósu að spilla,
bruni og ekki bálið heldur,
blessaður þessu drottinn veldur
er dygðir geldur.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
33.
Sem húnabjörninn hvölpum ræntur sínum
heljarárinn gramdist samt í pínum,
Daníel einn fyrir utan töf
í ólmra dýra færði gröf
svo fengi köf.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
34.
Dagana sjö þar drottinn vildi fæða
Daníel og lét ei leónin hræða,
síðan leiddi heilan heim
svo heiðrast rós af Guðs vin þeim
og táknum tveim.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
35.
Prýðir Daníel Persaríkið víða,
prettvís satan slíkt má ekki líða,
með Aman bruggar illsku ráð
að allt skuli verða rósu sáð
svo rétt forsmáð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
36.
Grimmur Aman Guðs fólk deyða vildi,
gekk það ráðið yfir hann mest sem skyldi.
Í gálga þeim varð hengdur hann
sem hafði hann reist fyrir Gyðing þann
sem Guð vel ann.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
37.
Mardokkeus og mærin Ester fróma
megtast þá svo rósin fær sinn sóma.
Guðsbarn hvört það herleitt var
í heiminn austur um ríki þar
sinn blóma bar.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
38.
Magtarkóngar mest á Austurlöndum
mildir voru þar rós í ráðum vöndum.
Kýrus kóngur hjálpar heim
úr herleiðingu lýðum þeim
með silfur og seim.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
39.
Daríus, hvörn þeir handarlangan kalla,
hjástoð veitti Gyðingalýðnum alla
musteri Guðs að efla aftur
og Jórsalaborg, sá mikli kraftur
er kóngi skaptur.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
40.
Þá aftur náði Ísraelsfólkið góða
offri Guðs sem Móyses lét þeim bjóða.
Að nýju blómgast rósin rétt,
hvað raunar féll ei satan létt,
hann sýnir prett.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
41.
Frá þeim tíma framan til Krists að telja
í fimmhundruð réð ára samt að kvelja
drottins rósu satan sá,
með svikum og stríði herjar á,
svo þungt að þjá.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
42.
Þann heimsaldur þraut nam mesta líða
þjáð og mædd í sorgum rósin fríða,
nálega grét þá nótt og dag
með neyðarþungum sorgarslag
sinn harða hag.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
43.
Því heiðnir kóngar héldu stjórn í landi
og heimtu skatt, af þessu vex þar vandi.
Mósis lög í villu vöfð,
vegleg trú eg rósin kröfð
að háði höfð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
44.
Um það talaði Jakob bert til forna
að Ísraels lýður mætti ei við því sporna
að yfir þeim ríkti önnur þjóð
en ekki Júða kónglegt blóð,
kom jómfrúr jóð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
45.
Kom því sjálfur Kristur í manndóm sönnum,
sem klárt var tjáð af fyrri spádómsmönnum,
sinni rósu frelsi að fá,
fátækt barn í stalli lá
sem letrin tjá.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
46.
Hin fræga rósa fékk þá mestu æru
að frelsarinn klæddist hennar lífi skæru.
Á jörðu var sá flokkurinn fár
þá fagnaði engla kóngi klár,
sá heiður er hár.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
47.
Satan vildi þá til þrautar stríða
og þessum Kristó afla dauðans kvíða,
svein hans einn lét svíkja þann,
síðan dæmdi Pílatus hann
í bölvað bann.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
48.
Á krossi vildi Kristur dauðann líða
að kvitta oss en satan afla kvíða.
Allt helvíti eyddi hann,
uppreis þá með sigurinn þann
og víking vann.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
49.
Til himna sté og heilagan anda sendi
hvar með sína rós í raunum vendi
sem illur satan angra réð,
er því Kristur henni með
sem hefur hann téð.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
50.
Sendi í löndin sína lærisveina
senn um heim með ljósið sitt hið hreina
svo alskínandi eðla rós
efldist brátt fyrir þetta ljós
sem ljóst er oss.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
51.
Í sex hundruð árin frá eg það væri
að eðla rósin svo sinn ljóma bæri.
Voru þá líka villumenn
sem vondir þyrnar margir senn
í akri enn.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
52.
Allt til þess að eyðslan svívirðingar
illur Fóka rósu drottins þvingar
og saurgaði þetta blessað blóm,
bannsettur með villudóm
fékk ráð í Róm.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
53.
Fölna varð þá fegurðarblómið skæra
því fjölkunnugur réð satan heiminn æra.
En dásamlega lét drottinn þá
dýra kristni uppreist fá,
það minnast má.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
54.
Martinum einn mann í litlu gildi
með sitt orð oss fyrstan senda vildi.
Fyrir anda sinn svo efldi hann
að Antakrist réð þagga þann
sem boðaði bann.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
55.
Síðan hefur nú sjálfur græðarinn þjóða
sent oss fleiri lærifeðurnar góða
með orðið sitt, það lifanda ljós,
þá ljómar vítt hin skæra rós,
það heilla hnoss.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
56.
Gefi það Guð vér gætum þessa sóma,
hans guðdómsorð svo fagurt um löndin ljóma
um þennan tíma en því er nú miður
að þyrnakvista krappur viður
þau kefja niður.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
57.
Því villumeining mörg og hneykslan illa
mátalaust því góða sáði spilla.
Óðum versnar heimsins hagur
en huggar rós vor drottinn fagur
og dómsins dagur.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
58.
Mér skilst því oss er Skriftin ljós fyrir augum
og skjalleg teikn með vitnisburðum nógum
að koma mun snart vor Kristur nú
ef kynni hann finna nokkra trú
og heilög hjú.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
59.
Víngarðsherrann vil eg af hjarta biðja
veika rós á þessum tíma styðja
í móti satans grimmdar grein
sem gjörði fyrr hans miskunn hrein
og elskan ein.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
60.
Sæti Jesú, sjá til þinna barna
því satan vill oss slíta frá þér gjarna.
Á þig setjum allt vort traust,
er því hjartað kvíðalaust
og hér með hraust.
Kristnin Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast plöntuð rósa.
61.
Þín kæra rósa, kristnin, segi eg að gráti,
Kriste eleison, trúna þar með játi.
Svo skal enda óðarsmíð,
einum Guði sé lofgjörð fríð
sem veröld er víð.
Kristni Guðs skal kraftablóminu hrósa,
hún kallast fögur rósa.