Einn bænarsálmur fyrir þá sem hugveikir eru | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Einn bænarsálmur fyrir þá sem hugveikir eru

Fyrsta ljóðlína:Heyr þú mig, læknir lýða
Bragarháttur:Átta línur (þríliður) þríkvætt AbAbbAAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með það lag: Konung Davíð sem kenndi.
1.
Heyr þú mig, læknir lýða,
lifandi Jesús kær,
eg klaga fyrir þér þann kvíða
er kremur mitt hjartað nær,
svo að mér ótta slær.
Eg veikur má varla líða,
veistu þá hugraun stríða;
af henni mér hjálpað fær.
2.
Þú kennir til minna meina,
mjúklát er gæskan þín
og hjartans elskan hreina
heitari nú til mín,
því þú þoldir pín.
Líknsamur lát mig reyna
lækning, þó ekki seina;
sól eftir skúrinn skín.
3.
Reyndir þú freistni fjanda,
flekklaus, og þunga slægð;
fyrir hjástoð heilags anda
hans svik þá urðu lægð;
sýn þú mér veikum vægð.
Því holdið af heimskum vanda
hræðslu lætur sér granda
dvíni þín náðar nægð.
4.
Fyrir þá freistni gilda,
er fékkstu að reyna hér,
hafi þitt hjartað milda
heilnæma gát á mér;
vesall og aumur eg er.
Get eg ei víst þó vilda,
sem væri til mín skylda,
leitað mér liðs hjá þér.
5.
Eg fel mína sál og sinni,
sæti Jesús, af trú
með hugsun á hendi þinni,
hræðslu svip frá mér snú
og öllum nauðum nú.
Fári og freistni linni
svo flærð engin mig ginni;
hjá mér dvel, herra, þú.
6.
Fyrir þín tár og trega
treysti eg, Jesús minn,
að verndir þú volduglega
mig veikan sauðinn þinn,
þjáðan mjög þetta sinn.
Mig villa marga vega
meinvættir satans, jaga
og færa í freistni inn.
7.
Fyrir þá tengd og tryggðir
að tókstu manndóm á þig,
Kriste, með kærleiks dygðir,
þú kennir í brjósti um mig;
þín elska er innilig.
Græð mínar hjartans hryggðir,
hjá mér reistu svo byggðir;
leið mig á lífsins veg.
8.
Sé þér lof, sæti faðir,
sonur og andi hreinn
sem börnin þín öll blessaðir,
bæði ert þrennur og einn;
ei er Guð annar neinn.
Heimboði þínu hraðir,
í himnavist mig laðir
svo verði vegurinn beinn.


Athugagreinar

Amen.
Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 94; Einar Sigurðsson í Eydölum: Ljóðmæli, bls. 78–79.