Rímur af bókinni Ester – Fimmta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af bókinni Ester 5

Rímur af bókinni Ester – Fimmta ríma

RÍMUR AF BÓKINNI ESTER
Fyrsta ljóðlína:Enn skal renna hið fimmta fram af fræðabrunni
bls.181–183
Bragarháttur:Braghent – samrímað eða braghenda samrímuð
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Rímur
1.
Enn skal renna hið fimmta fram af fræðabrunni
mærðar vín og mjöðurinn þunni
miðlast þeim er skemmtan unni.
2.
Verkin merki veraldar þjóð og vegleg dæmi
af Drottni gjörð svo dyggða næmi
daglega oss að haldi kæmi.
3.
Ritning vitnar víða það ef viltu að gæta
hjartagæskan Guðs hin sæta
góðfúsa mun nauðsyn bæta.
4.
Þó líði stríð með langri neyð og lukku stirða
ef orðið Guðs í hjarta hirða
hann mun þeirra bænir virða.
5.
Síðan prýða sóma þá með soddan hætti,
þó öllum heimi örvænt þætti
að ættkvísl sinni hjálpa mætti.
6.
Ljós er Jósefs æran öll og ættarstoð,
Daníels líka dæmin góð
af drottning Ester birta ljóð.
7.
Áður tjáð í óði var það öðling sendi
til Gyðinga lýðs af ljúfri hendi
letrin sterk og verjast kenndi.
8.
Svo snerist hér fyrir herrans náð og hæstu mildi
að hinn sem áður hanga skyldi
hafinn er nú í besta gildi.
9.
Hann sem gekk með hærusekk og harma ræðum,
Mardokeus, er gæddur gæðum,
göfugum prýddur silkiklæðum.
10.
Frægðar nægð af flestum bar nú fóstri brúðar,
með gullkórunu og glæstum skrúða
svo gekk hann út frá stillir prúða.
11.
Missti sorg í Súsans borg allt siklings mengi.
Júðar trú eg því fögnuð fengi
að fylkirs bréf sem greiðast gengi.
12.
Þeir halda og gjalda heimboð rík í hvörjum stað
og fagnaðar öl þá finnast að
sem fengið höfðu letrið það.
13.
Af Júða lýðum ótti stóð svo öllum þjóðum
að gengu inn frá goðanna slóðum
á Gyðinga sið með vilja góðum.
14.
Í rétt ásettan tíma til, sem tjáði letur,
ebresk þjóð því öðling hvetur
óvini sína sigrað getur.
15.
Áður er tjáð um Amans grimmd og ásett ráð.
Að eindaga þeim fá Júðar gáð
sem öðling hafði þeim til skráð.
16.
Þeir slá sér þá í hópa hvar í hjöruðum búa,
fjandmönnum á flótta snúa
framar en nökkur skyldi trúa.
17.
Að herja og verjast vogar ei þjóð né við þeim standa
því ótti og hræðsla allra handa
af þeim stóð svo lýð má granda.
18.
Lénsmenn eins fyr öðlings bréf um allar jarðir
fylgja Júðum furðu harðir;
fjandmenn voru til dauða barðir.
19.
Hræðslu sló yfir heiðna þó þeir harðir þætti
því Mardocheum milding setti
í mestu sæmd að tign og rétti.
20.
Sóma rómur sá gekk út um siklings veldi
Mardokeus þeim heiðri héldi;
hræðslu það yfir margan felldi.
21.
Júðar prúðir hertu hug sem hermt er frá;
á Súsans sloti hilmir hjá
hundruð fimm til dauða slá.
22.
Amans grimma synina líka sex og fjóra
slógu í hel með háðung stóra
og hengdu upp sem skorpna bjóra.
23.
Öðling ræðir Ester við þá allt það spurði
hvað hennar fólk þar heima gjörði,
hálfa þúshund sló með sverði.
24.
Mig grunar að muni Gyðinga her, kvað geymir landa,
í fjarska við mig fleirum granda,
frelsa skaltu burt úr vanda.
25.
Gefi þér leyfi, ljúfan kvað, við landsins mengi
Gyðingar megi svo leika lengi
að líka synina Amans hengi.
26.
Játar kátur þengill því og það var gjört.
Um Amans syni er einskis vert;
þar innan borgar lið mun skert.
27.
Í Súsan fúsir Júðar enn með járni slá
hundruð þrjú sem hermt er frá
en hvörgi ræna góssi þá.
28.
Skerð fyrir sverðum Júða er sú eystri álfa.
Sjötigu þúsund þar til hálfa
þeir hafa deytt en rendur skjálfa.
29.
Mánuð greinir adar enn sem áður segir;
á þrettánda það var degi
þeir hafa her um landið slegið.
30.
Hátíð láta halda því fyrir heillir prúðar;
á dag fjórtánda frómir Júðar
fengu sigur af völdum brúðar.
31.
Í borg án sorgar Súsan þeir hjá sjóla ríka
fyr Drottins náð og dásemd slíka
daginn fimmtánda halda líka.
32.
Mætur lætur Mardokeus það mest nú vanda
að skrifa þau bréf til skjöldungs landa
að skuli sú hátíð lengi standa.
33.
Hvar sem var þá Júða sveit í öðlings veldi
tvo daga þessa hátíð héldi
þá harm og þrá fyr gleðina felldi.
34.
Háfur , gáfur hvör skal þá og heimboð veita;
purims dagar plaga að heita
prýðitíðin Gyðinga sveita.
35.
Þá hátíð síðan halda þeir með heiðri mesta,
á hvörju ári heimboð gesta,
hafa og þar með skemmtan mesta.
36.
Minnast svinnir Júðar oft á Amans reiði
og sá þeirra óvin leiði
alla vill að herlið deyði.
37.
En guðleg náð svo geysi brátt þeim grimmleik hnekkti
svo Aman sjálfur henging hreppti
og hans niðjar en völdum sleppti.
38.
Ester mesta auðnu beið hjá öðling fróma
og Mardokeus settur í sóma;
soddan heillir Júðar róma.
39.
Púrims voru því helgi höld í hæsta gildi
því Mardokeus það minnast vildi
að miskunn Guðs ei gleymast skyldi.
40.
Ester festi hreint og hann með hæsta ráði
eilíf bréf svo að því gáði
ættkvísl sú á hvörju láði.
41.
Þau lög eru mjög í minni höfð af manndóm sönnum;
þá hátíð veita heimboð grönnum
og hjálpa einninn þurfamönnum.
42.
Átti og mátti Assverus sá öðling frægi
leggja skatt á lönd og ægi,
loksins frá eg með heiðri dæi.
43.
Af mildings snilld er meira tjáð af Medía landi;
annáll frá eg af honum standi
og Esters líka tryggðabandi.
44.
Ester hæst í heiðri sat og hennar bróðir.
Auðmýkt prýðir allar þjóðir
svo endadagarnir verði góðir.
45.
Hæsti og æðsti himna Guð vor hjörtun mýki;
á siðuna góða svo honum líki
síðan leiði oss í sitt ríki.
46.
Óðar ljóð af Esters bók sinn enda finna.
Þó undan falli ekki minna
einn Guð mun þar bót á vinna.