Vísur um það sæta nafnið Jesú | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vísur um það sæta nafnið Jesú

Fyrsta ljóðlína:Jesús nafnið er einka sætt í munni
bls.114--115
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) fimm- og þríkvætt AAAA
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Jesús nafnið er einka sætt í munni,
það eflir sanna gleði í hjartans grunni;
skylt er að eg því unni
þó öðru gleyma kunni.

2.
Jesús nafn, það hjálpar úr hvörjum vanda,
hörmung lætur öngvum sínum granda;
oss leysti úr fjötrum fjanda
frelsarinn allra landa.

3.
Jesús nafn var gefið að guðdóms ráði,
Gabríel þetta jungfrú Máríu tjáði:
Þú fæðir án synda sáði
sveinbarn fagurt á láði.

4.
Jesús skal það eðla barnið heita
af því hann lýðum synda lausn kann veita;
með dýrum sára sveita
sinna er kominn að leita.

5.
Jesús getinn af orði Guðs með vífi,
útlíðandi af meyjar skæru lífi;
við sáru synda kífi
sínum kristnum hlífi.

6.
Jesús fæddur í ánauð heims svo stríða,
alls kyns neyð og sárleik vildi líða;
sína sviptir kvíða,
sannast það svo víða.

7.
Jesús freistni andskotans réð vinna
og þann sigurinn gaf þér, karl og kvinna;
blóðið benja þinna
bótin er synda minna.

8.
Jesús góði, gef þú mér sælan dauða,
gæt mín vel á meðal þinna elsku sauða
svo forðist eg fár og nauða
fyr þitt blóðið rauða.

9.
Jesús, lát mig upprisunni fagna,
elskan þín mun gleðina bestu magna
svo njóti eg nýrra sagna
þar náir ei lofið að þagna.

10.
Jesús gefi mér eilíft lífið að halda,
öllu máttu þessu sjálfur valda
svo megi eg um aldir alda
amen þér margfalda.

(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 114–115)