Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Ellikvæði síra Ólafs Guðmundssonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ellikvæði síra Ólafs Guðmundssonar

Fyrsta ljóðlína:Æskukostum ellin kann að sóa
bls.356
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fimm- og ferkvætt AbbbbA
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður) fer,- þrí- og fimmkvætt aaaBB
Viðm.ártal:≈ 1600
Flokkur:Ellikvæði

Skýringar

Fyrsta erindið er sér um hátt.
1.
Æskukostum ellin kann að sóa.
Sanna eg það á sjálfum mér,
sjötugsaldur hálfan ber,
örvasa nú orðinn er,
orkumaður hvör svo fer.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
2.
Hafð eg ungur hárið frítt,
hvirfil prýddi gult og sítt.
Nú er það af hærum hvítt
sem hittir urningsmóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
3.
Höfuð áður huldi þykkt,
hári er nú burtu rykkt,
skjól er ei við skjanna tryggt,
skín sem rót í flóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
4.
Forðum nam eg fljótt sem kaus,
féll mér kenning seint úr haus.
Mjög er eg nú minnislaus,
mein það ei vill gróa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
5.
Höfuð sundla hættan leið,
hef eg enn þá stóru neyð
mest þá vötnin mikil reið,
mig vill þar við óa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
6.
Hélt eg lengi hvassri sjón,
hraður á lestra, skrif og tón.
Gler stoðar nú geisla trón,
gleður skyggning sljóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
7.
Andlit bleikt er þunnt og þurrt,
þrifakinnur hvurfu burt,
elli rýrð fær að því spurt
álíka vöxt kjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
8.
Áður hafði eg ágæt hljóð,
á þeim hátt og lengi stóð.
Raust mín er nú rám og móð,
raulandi sem tóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
9.
Tuggið fær ei tönnin sljó,
týnd eg nökkrum jöxlum þó,
hafmat að mér heldur dró,
hart og sterkt ei prófa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
10.
Fæði gott þó fram sé reitt
fæ eg stundum lítils neytt.
Heldur drykk úr hófi eytt,
hams má það ei þróa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
11.
Í öxlum hraustur áður var,
á þeim viðu þunga bar.
Kvöl mestu nú kenn eg þar,
kann ei slá né róa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
12.
Hönd var fött og hörku stinn,
hældist þá um mannskap minn;
þróttlausa nú fingur finn,
fallna mjög í lófa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
13.
Afl og þróttur allur hvarf,
ekkert get því framið starf,
lýð þó vanti hvað sem þarf,
heima verð mig króa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
14.
Illa liggur mér ómak,
mæða, strit og ferðahrak,
varla kann að beygja bak,
né benda fót um þó[f]a.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
15.
Hnén voru mér hraust og mjúk,
hvör nú eru stirð og sjúk,
orka ei að bera búk,
brattan stig né snjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
16.
Kröftugur um kálfa sást,
kostur sá sem annar brást,
lasnir, tómir, linir tjást
leggir upp til þjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
17.
Til útvega fyrri fús,
föng og efni dró til bús,
fastur nú við heimahús
hökta ei til sjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
18.
Óstyrk sem eg innra ber,
ytri mæðu þyngri er,
kann ei um það kveina mér,
svo kalli ei neinn mig hróa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
19.
Karlinn gjörist kuldagjarn,
kann ei líða hita þarn
framar en lítið fatabarn,
þó fjærri köld sé góa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
20.
Gamalmennið grætur allt,
gletta hann í öngvu skalt,
hvörki þolir heitt né kalt,
hörkulaus sem lóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
21.
Búnað sléttan ber hann spart,
brjálar síst um klæða art,
hirðir lítt um hofmanns skart,
hosur, rokk né glófa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
22.
Siðlátur að sínu býr,
sátt og friður þykir dýr,
óspakt þras og upphlaup flýr,
okur og gripdeild bófa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
23.
Við eld og varma einatt sést,
indæl hvíla líkar best,
kyrrð og náð þó kjósi mest
kveinar um óværð flóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
24.
Hósta, mæðu, hrygla ber,
hlátur og leikur leiður er,
nálega jafnan nuddar sér
og neytir beggja klóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
25.
Eymdir slíkar ellin fær,
allar get ei reiknað þær.
Yngisfólkið að því hlær
eins og leikum kjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
26.
Stynur ellin stirð og sjúk,
stillir volsið, vas og brúk,
eyðir leikum, beygir búk,
beinalagið mjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
27.
Árlega hans orka þver,
aflvana sig hvörgi ber,
helst á palli og hvílu er
og hnakki öskustóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
28.
Undrum gengur af honum féð,
um neitt ei getur sjálfur séð.
Frá er týnt og fargast með
sem flóð reyti af móa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
29.
Búnað hans ef bilar starf,
börn hans vilja skipta arf,
miðla fé ef með sér þarf,
mun strax eign upp sóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
30.
Ytri kaun og innri mein
efst og neðst í hvörri grein,
hrella hann og kláða kvein,
kvelst í þeim óróa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
31.
Fóta stjórn er stirð og treg,
strax sundlar á hæðar veg,
á reið og göngu reikar mjög,
rétt sem tyllu hróa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
32.
Verður ei löngum virtur neins,
vörn og ráð hans þýdd til meins,
þó finni að um við fíflsku sveins,
frakkir þeim og þóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
33.
Hofmennska er horfin öll,
hvörgi sjást á fötum föll,
hvefsnir gjöra að hempum sköll,
hatt og belgjum skóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
34.
Fær of sjaldan fötin ný,
fornum leppum liggur í,
rúmhnöll blóðlaus ratar því,
rekkj[uv]oð er aflóga.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
35.
Vinnu sýst því veita má,
veslegt hlýtur duðra þá,
bera sorpið bænum frá,
beinahark og sló[g]a.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
36.
Með þökkum má þiggja allt
það til bjargar nökkur galt,
sé það þurrhvítt, svart og malt,
af sel, hval, horni fóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
37.
Alvaldur það elli gaf,
ofsi holds svo sökk í kaf,
gjörist barn því gömlum af,
girndum heims að sóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
38.
Síðan féll á sorg og mein,
sjúkdómsmynd á ýmsa grein,
stoð og bót varð stundum sein,
sýn eg ekki óróa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
39.
Umskiptist þá ellilund,
alltíð býst við hvíldarstund,
langar eftir lausnar fund,
lyst heims metur mjóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
40.
Þann veg Drottinn deyðir þá,
dýrð eilífri lætur ná,
hreina leiðir heimi frá
í himnasælu glóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
41.
Guðs orð þekkt þeim gjörla sér
gamli Adam leiður er,
í bæn og játning brjóstlaus hér,
brátt í tárum flóa.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.
42.
Hvað er vert um heimsins svall,
hrörnar ótt svo sýnt er fall,
þjóð muni hvað þylur karl,
þrotnar kvæðis ró[f]a.
Samt er eg einn í sona tölu Nóa.