Þetta er kvæðið Friðarbón | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þetta er kvæðið Friðarbón

Fyrsta ljóðlína:Hæstur bið eg þig himna tiggi
bls.308–312
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt AbAbAb
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
Flokkur:Helgikvæði
Með eins lag og Lassarus vísur
1.
Hæstur bið eg þig, himna tiggi,
fyrir háleitasta mildi þín,
blessaður af mér bragsmíð þiggi
og breiðist yfir mig miskunn þín;
lof þitt aldrei í leyndum liggi,
það leiðist út af vörum mín.
2.
Ljúk upp mínu ljóða porti,
lifandi Drottinn, skapari minn,
svo orðin góð mig aldrei skorti
að auka og skýra heiðurinn þinn,
en sígi frá augunum syndasorti,
sjái eg gjörla hvað eg vinn.
3.
Láttu aldrei lof þitt dvína,
lausnarinn góður, í munni mér,
svo ávallt hreppi eg umsján þína
annars heims og einninn hér.
Þá dauðinn kemur en djöflar hrína
dæm mig þá í ferð með þér.
4.
Þér vil eg lúta, enn ljúfi herra,
og líknar bíða á hvörri stund,
af sálunni láttu syndir þerra
fyr sjálfs þíns pínu og blóðuga und,
að illskan mín gjöri öll að þverra
og aumleg verk á veraldar grund.
5.
Heilagur andi, heiðurinn hæsti,
heims óvandan af mér sníð,
signaður Jesús, sonur Guðs æðsti,
sjái til mín árla og síð,
Kristur Drottinn, kóngurinn kærsti,
komi til mín á dauðans tíð.
6.
Signaður Drottinn, sjálfs þíns anda
sentu í mitt hjartað inn,
brynja þú mig til búks og handa,
blessaður Guð fyrir almátt þinn,
svo bannsett skeytin bölvaðs fjanda
brotni í sundur hvöss og stinn.
7.
Fyrir líkamans heilsu og lífið snjalla
lausnara mínum eg þakkir gef,
fyrir veraldarlán og verndan alla
vakandi og þá eg sef.
Á himna Guð skulum hæstan kalla,
hann hjálpar oss fyrir utan ef.
8.
Fyrir sköpun, fæðing og skírnar gæði,
skjöldung himna, eg þakka þér,
fyrir minni, mál og mannvit bæði
myndan þína eg á mér ber,
fyrir heyrn og sýn og holdsins klæði
á hvörri stund þú veitir mér.
9.
Fyrir þinn dauða og dreyrann rauða
dýrðarfaðir eg þig bið
réttast láttu ríka og snauða,
röngum gjörðum forða oss við,
svo kenni enginn krankra nauða,
Kristur veiti oss þar til lið.
10.
Fyrir benjaða fætur og báða arma
bið eg þig líknar, Drottinn minn,
fyrir þyrnikórónu og þröngva harma
sem þoldir þú fyrir dauðann þinn,
fyrir blessaðar síður og blóðið varma,
fyrir blánað hold og bleika kinn.
11.
Frelsaða lýði friða þú alla
og fast þeim halt í réttri trú,
börn og kvinnur og bræður snjalla,
blessa þú yfir öll mín hjú,
kennimenn og kristna kalla
svo kenningin rétt haldist nú.
12.
Láttu aldrei, lifandi Drottinn,
ljóta ótrú granda mér,
þó mér bjóðist hinn bitri hrotti
bregðist eg aldrei í burt frá þér.
Vondur er sá veraldar ótti
að voga ei að trúa hvað sannast er.
13.
Verð eru lítils veraldar gæði
þó virðar lofi í heimi nú,
vér girnunst heldur á guðlegt sæði
af góðri rót og sannri trú,
mjög er von þó meinin mæði,
mín er sönnust þörfin sú.
14.
Fyrir vatni, eldi og veðra grandi
voldugur Drottinn hjálpi mér,
geym þú mig á græði og landi
fyrir grimmum skrímslum hvar eg fer.
Minnkast mun þá mein og vandi
nær miskunn þín yfir öllum er.
15.
Sjónhverfingum svikulla anda
sviptu frá mér, Drottinn minn,
álfa fólki og umsát fjanda
öllum skýlir krafturinn þinn,
fyrir heimsins öllum háska og vanda
hjálpa þú mér í hvört eitt sinn.
16.
Fyrir steina flugi og stinna stáli,
stillir himna, styrk þú mig,
fyrir beiskum dauða og brunabáli,
blessaður Guð, eg treysti á þig,
fyr röngum dómum og rekka táli,
svo rati eg aldrei sorgar stig.
17.
Líkama minn með lífi og öndu
lausnara heimsins gef eg í vald,
mínu þyrm þú máli vöndu,
svo minnkist allt mitt syndagjald,
sviptu af mér Satans böndum
og set mig á þitt líknar vald.
18.
Eftir liðinn líkams dauða
leið oss, Guð, í Paradís,
sjá þú þar til þinna sauða,
að sælan sé þeim öllum vís,
svo kenni ei sálin krankra nauða
nær kristin þjóð upp aftur rís.
19.
Eflaust kemur á efsta dómi
engla gramur og dæmir þjóð,
synda fjöldi og sár ósómi
sýna oss þá harðan móð.
Ógurlegt mun óp með ómi
ef ekki finnst þá trúin góð.
20.
Krefur þá orða kristna drengi
kóngur himna og krossinn ber,
sínar benjar sýnir mengi
sjálfviljandi á holdi sér.
Skyn ber að gjalda fyr góss og gengi
sem gaf hann oss í heimi hér.
21.
Eg var bundinn, barður og dreginn,
blessaður Guð svo talar við oss,
hæddur og spýttur, hraktur og hleginn,
hengdur og negldur upp á kross,
dúki hnýttur og dreyra þveginn,
dundi úr æðum benja foss.
22.
Þyrnikórunu þvert um enni
þrengdu þeir mínu höfði að,
skinn og holdið skarst fyrir henni,
mér skullu pústrar ofan á það,
blóðsins trúi eg bogar rynni
búknum af og úr naglastað.
23.
Þeir gjörðu mig með gabbi nógu,
að grýta, berja, stinga og slá,
þungum pústrum þar með sló[g]u
og þveittu svipum um mig þá,
þeir krömdu hold en krossinn þvógu
í kláru blóði, megi þér sjá.
24.
Mig þyrsti fast með þungum ekka
svo þornaði mínu brjósti að,
mér gall og edik gáfu að drekka,
grimmir Júðar gjörðu það.
Eg kvaldist mjög fyrir klæki rekka,
kominn að dauða þegar í stað.
25.
Hvað er það gott þér gjörðuð á móti
mínum grimmum dauða og hryggðar skúr,
þá Longinus mig lagði spjóti
lagaði blóðið hjarta úr.
Þá leystist af yður lösturinn ljóti,
logandi pína og harmurinn súr.
26.
Kaldur og hungraður kom eg að leita
klæðfár yðrum húsum að,
gjöfum öllum gjörðuð að neita,
í Guðs nafni eg yður bað.
Harða fái þér hryggðar reita
sem heyra vildu ekki það.
27.
Aumum þjóðum þér aldrei veittuð
ölmösu né annað gott,
boðorðum mínum berlega neittuð,
að bræðrum yðrum gjörðuð glott,
vini og frændur vélum beittuð
og völduð þeim bæði háð og spott.
28.
Miskunnsemina minnst hafið stundað,
meinlausa þér styggðuð þrátt,
til skemmdaverka skjótlega skundað,
skammlega breyttuð á margan hátt,
að góðum siðum ei gáð né grundað,
gáfuð í mínu nafni fátt.
29.
Engin finnst svo örorð tunga
að andsvör greiði Guði á mót,
né sýni fyrir sinn synda þunga
sveinastyrk og mektarhót.
Það gengur jafnt yfir gamla og unga
að gull og fé gjörir öngvum bót.
30.
Allir munu óttafullir,
þá allsvalds herrann augun sjá,
ofmetnaður og öfundar sullir
aumar sálir þar stríðir á,
af drambi og forsi og dómakrulli
daprar verða þjóðir þá.
31.
Reiði, blót og rangir dómar,
rógur og ágirnd peninginn á,
hræðilegir heimsósómar
hefnda biðja öllum þá,
af löstunum þá lítið ljómar
nær lesin er upp vor syndaskrá.
32.
Dæmir síðan dróttir allar
Drottinn eftir sinni vild.
Hverfa sumir til himna hallar
og hreppa bæði heiður og snilld,
þeim veitast vænir visku pallar,
vegur, dýrð og hátíð gild.
33.
Fara bæði yfir fjöll og steina,
fljótara en hugur manns,
líða hægt um loftið hreina
á leiðum verður enginn stans;
það trefjast minni tungu að greina
tign og dýrðir himnaranns.
34.
Sitja síðan með sæmd og sælu
hjá sjálfum Guði himnum á,
kenna hvörki kvöl né kælu
og kunna allar tungur að tjá,
þeir sjá þá hvörki bruna né brælu,
bjartari eru en sól að sjá.
35.
Farið frá mér fyrirdæmdir
með fjandanum í eilífan eld,
dugandi eru þeir dyggðum tæmdir,
dóms ályktan er svo felld,
í fyrirbúnar fýlur flæmdir,
farið og kannið myrkra völd.
36.
Með veini og ópi vondar þjóðir
venda síðan Guði frá,
í heitum loganum hryggvir og móðir
hreppa bæði sorg og þrá,
þeir dragast um dimmar djöfla slóðir,
þeim dauða er enginn endir á.
37.
Með önd og líkama aumir brenna
í eldi, eitri og orma krá,
sem sindur fyr afli í sundur renna
svartari eru en bik að sjá,
myrkur og fýlu meinlegt kenna
meira og verra en eg kann tjá.
38.
Kóngur himna kristnar þjóðir
kvittar gjörir af slíkum móð
og leiðir oss á líknar slóðir
lausnarinn fyrir sitt hold og blóð;
mega ei inna meistarar fróðir
hans miskunn alla og verkin góð.
39.
Heyr, krossfesti krafturinn fyrstur,
kærasti herra, Jesús Kristur,
af manndóms eðli mjólkur lystur,
til móður þinnar þú varst þyrstur;
með blessuðum vörum brjóstið kysstir,
blíður vert en aldrei byrstur.
40.
Þjónustu góða þú þiggja vildir
þinnar móður, þýður og vænn,
spakra þjóða spádóm fylldir,
spratt upp fyrir þér lundurinn grænn;
kristnum gafstu kraft og snilldir
í kennidómnum þú varst kænn.
41.
Fyrir hingaðburð og hérvist þína,
herrann Jesús, hjálp þú mér,
þá djöflar vilja mig draga og pína
í djúpt helvíti niður með sér,
að þér tak þú öndina mína
áður en dómurinn dæmdur er.
42.
Lát mig verða í fríðum flokki
og fara með þér í himna byggð,
skrýddur skærum skírnar rokki,
skínandi sem skuggsjá skyggð.
Lifandi Guð, oss leiði og lokki
frá losta, girnd og illri blygð.
43.
Hæstur Guð með helgum anda,
herrann Jesús, eg þig bið,
að séð fái eg við svikum fjanda,
sálin hreppi eilíf grið
og hverfi þér til hægri handar
í himnaríkis náð og frið.
44.
Með þínu blóði þú mig leystir,
þrennur og einn Guð, löstum frá,
hvörja stund það hug minn hreystir
að hjálpir þínar muni eg fá;
tapast sá enginn sem trúir og treystir
þinn tíguglegan dauðann á.
45.
Sjálfur Guð með sigri og valdi
sína miskunn sendi mér,
svo orða minna eg öngra gjaldi
óðar þess sem eg inni af þér.
Gunnum komi að góðu haldi
um græðarans pínu sem glósað er.
46.
Dirfð var mér um dýrðar efni
að dikta með minn viskuskort,
stirðnar málsins stjórnar stefni
og strengist aftur mærðar port.
Friðarbón bið eg firðar nefni,
fræðið mitt þó lítt sé ort.
47.
Mýki eg ei lengur mærðar strengi,
mér er ekki þetta hent,
ljóst er það fyrir lýða mengi
að litla hafi eg á því mennt.
Fékk eg aldrei af Fjölnis fengi
fræðakorni niður rennt.
48.
Hér vil eg láta ljóðin líða
Loðins býti falli niður,
ljóst er það fyrir lýðum víða
að lítill muni eg orðasmiður.
Ei þarf sá kristinn að kvíða
sem kóng himnanna hjálpar biður.
49.
Bangað hefur sá bögurnar langar
sem byrjar fáki hvílir á,
sá lýðum styttir leiðir strangar,
ljóslega skal þetta tjá,
býsna margur broddum stangar,
bani hjarðar heita má.
50.
Syngist lof með sætum tóni
sjálfum Guði himnum á,
um heima og geyma, á hauðri og fróni
heiðri og dýrki hvör sem má;
þýðum Jesú þegnar þjóni,
þanninn hverf eg fræði frá.