Davíðsdiktur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Davíðsdiktur

Fyrsta ljóðlína:Heyr mig himna stýrir
bls.304
Bragarháttur:Kansóna (ljómalag)
Viðm.ártal:≈ 1525
Þetta er kvæðið sem kallast Davíðsdiktur út af sálminum Miserere.
Lag sem Ljómur.
Biskup Jón [Arason].

1.
Heyr mig, himna stýrir,
herrann allra greina,
göfgust guðdóms magt.
Allir englar skírir
um þitt ríkið hreina
sungið fái og sagt
ævinlega og andir helgra manna
auki jafnan þína lofgjörð sanna,
hjörtun vor bið eg helgan anda kanna,
hvörs kyns syndir burtu drífa og banna.

2.
Sendir sínar náðir
sjálfur faðirinn alda
sem einn og þrennur er.
Gefi oss guðdóms sáði
í grunni hjartans halda
á himni og heimi hér.
Orðið Jesú og fyrir helgan anda
oss láttu í þinni þjónkan standa
og leysi allan lýða voða og vanda,
svo lífi og sálu megi það ekki granda.

3.
Loflegt ljósið hreina
lýðum hingað sendi
af hæstri heilla dyggð.
Ást og eyðing meina
í önd og líkam kenndi
að hafa um heimsins byggð.
Hvör mann skyldi huganum til þess renna
helga trú og guðdóms skilning þenna,
lífsins veginn læra og öðrum kenna,
löstu og synd með ást og iðran brenna.

4.
Lausnarinn Jesús leiði
líf kristinna manna
á skýra skilnings grein.
Vorar viskur greiði
að verka trúna sanna
fyrir utan angur og mein.
Með sannri ást og sætleik orða þinna,
svo má þennan kærleiks grundvöll finna,
öll þín verk að elska og á að minna
og öðrum jafnan guðdóms dýrð að inna.

5.
Heimsins skepnur haldi
himna ljósi skæru
sér í sinnis byggð.
Gæskuverkin gjaldi
Guði með heiðri og æru
af hreinnri hjartans dyggð.
Á Jesús nafnið jafnan skulum vér kalla,
eg er biðjandi kristna lýði alla,
að orðin hans megi aldrei úr minni falla
og sannleikur helgra guðdóms spjalla.

6.
Kóngurinn Davíð kenndi
með kærleiks dýrum anda
mönnum mjúka bæn.
Sig frá syndum vendi
settir af öllum vanda,
viskuverkin væn.
Síðan megum vér sálminn þennan kunna,
sem spámannsins orðin akta og unna,
vísar hann oss um væna skilnings runna
vegsamlega á klára mælsku brunna.

7.
Biðjum vér það besta
blessað himna veldi
með allri ást og trú,
að gefi oss miskunn mesta
í manndóms skírslu eldi
hér í heimi nú.
Svo fyrir máttkan mildleik þinnar stærðar
mætti vorar bænir Drottni færðar,
andirnar í ást og náðum nærðar,
með iðran synda guðdóms gæsku hrærðar.

8.
Fyrir margar mildir þínar
og miskunnsemdar náðir
oss veitandi er.
Afmá þú illskur mínar
sem óvin minn hefur skráðar
og mjög eru á móti mér.
Eg vil nú af öllum syndum venda,
að eg fái réttu trúna kennda,
verkin góð og visku orðin senda,
í valdi Drottins lifa fyrir utan enda.

9.
Breiði út mínar bænir
með betran góðra verka
og hreina hugarins lund.
Veit mér viskur vænar
að vernda trúna sterka
stöðuga hvörja stund.
Þvo mig, Drottinn, þinni miskunn meiri
af þvingan holds og ljótum lasta leiri,
iðrun temprist orði og hyggjan fleiri,
öndin klárist eins sem gull af eiri.

10.
Veit eg vonskur mínar
vera með mörgum hætti
sem eg kann ekki að sjá.
Lén mér líknir þínar
af leyfðum guðdóms mætti
og skil mig skemmdum frá.
Þungar syndir mér í móti standa,
því er eg jafnan staddur í stórum vanda,
bið eg herrann himins og allra landa
að hörmung þessi megi ei sálu granda.

11.
Almáttugum þér einum
eg hefi gjört á móti
marga og mikla synd,
aumur í illsku greinum
og enn lasta ljóti
genginn frá góðri mynd.
Þitt réttlætið ræður þínar sæmir,
ráð og valdið visku með sér tæmir,
kraftur Drottins kærleiks náðum næmir,
konst réð vinna því hann í miskunn dæmir.

12.
Svo í synda formi
sannlega er eg með vilja
getinn í girndar lyst.
Í þessum þrauta stormi
þykjunst eg kunna að skilja
að mig bar móðirin fyrst.
Eg hefi síðan aukið saurgan mína,
aumlega lifað í holdsins lasta línu,
bið eg þig Drottinn fyrir blessaða miskunn þína,
að brjóstið mitt þú lát með iðran skína.

13.
Svo elskaði enn æðsti
alls réttlætis veldi
sannlega sinni náð,
þrællinn þinn enn lægsti
þungar syndir seldi,
þú gafst honum guðlegt ráð.
Að læra og kenna af leyndri visku þinni
lífsins veginn í hjartans dyggða inni,
gæsku þessa gef þú öndu minni,
Guðs kærleikurinn hugarins rásir finni.

14.
Yfir mig dreifi ísópó
með ást og kærleiks náðum,
Drottinn, dýrðin þín.
Forkláraður og fegri snjó
eg fari af guðdóms ráðum
eyddur allri pín.
Síðan gjöri eg þér sannlegt lof í hjarta,
svo með verk og orðaskýring bjarta,
að megi eg með það um mína ævi skarta
meir en sól um alla heimsins parta.

15.
Minni heyrn gef þú marga
og mikla gleði að skilja
með fögnuð friðarins nú.
Það mun þjóðum bjarga,
þeim sem girnast vilja,
að visku veitir þú.
Bein mín öll þau blíðki Drottins raddir,
með blessan þinni kristinn lýð þú kvaddir,
komi þér allir kærleiks náðum saddir
sem kennast vera í guðdóms miskunn staddir.

16.
Sjá ei syndir mínar,
sætt réttlætis veldi,
fyrir miskunn má það ske.
Mér nægjast náðir þínar
með nökkrum skírslu eldi
eða plágu píndur sé.
Svo öll ranglætin afmáist mínu lífi,
að eg varist að vera í synda kífi
og þó neyðin yfir minn líkam drífi
öndu minni bið eg að Drottinn hlífi.

17.
Skapa þú skírlegt hjarta
með skilnings nýjan anda
í mína brjóstsins byggð.
Veit mér visku bjarta
í verki þínu að standa
með allri ást og dyggð.
Helgan þína hugarins rásir finni
rétta trú að tala með tungu minni,
hvörja stund af mildri miskunn þinni,
svo kærleikurinn aldrei um aldir linni.

18.
Ei kast mér frá enn frómi
fríðri ásján þinni
svo mjög sem maklegt er.
Mér í miklum dómi
miskunn bið eg að finni
og hafi í heimi hér.
Andi heilagur aldrei frá mér vendi,
eg mitt traust til guðdóms náða sendi,
hann stýri mér með styrkri veldis hendi
frá stríði synda áður en lífið endi.

19.
Heilsan þinni að halda
með hjartans gleðina mesta
mér í minni tíð.
Þig bið eg að gefa og gjalda
guðdóms ráðið besta
í friðnum fyrr og síð.
Höfðinglega því heilags anda spektir
um heiminn senda sannar visku mektir,
en fyrir trúna eyðast vorar sektir
og fyrir miskunn frelsast allar slektir.

20.
Vegana þína eg vildi
víslega öðrum kenna,
þeim sem þurfa nú,
að vondir venda skyldi
með vilja og til þín renna
með allri ást og trú.
Miskunn þín er mönnum vís til náða,
margkunnig að eyða illsku bráða,
og kærleikurinn kristilegra sáða
kemur með hjálp og veldi guðdóms ráða.

21.
Leys mig burt af blóðum
og bræði harðra nauða,
dýrlegur Drottinn minn,
að ei megi á illsku glóðum
andann líkaminn deyða
fyrir vondan viljann sinn.
Heilsu minnar hreinsa þú tungu mína,
hef þú upp að tala um mildi þína,
réttlæti og ráðin með visku sína
röksamlega í guðdóms miskunn skína.

22.
Drottinn dýrðar þinnar
dragi mig burt úr vanda,
leysi líf og sál;
veiti að varir mínar
víst með helgum anda
út gefi allt gott mál
og minn munnur ætíð lof þitt ræði
og kunngjöri það guðdóms visku sæði,
hvörsu mikil og margföld andar gæði
mannsins líf fyrir ást og iðran öðlast næði.

23.
Ef að þú vildir unna
að auka heilsan þína
mér fyrir mál og trú,
þá munda eg þiggja kunna
þig fyrir nauðsyn mína,
að heyra í heimi nú.
Ei muntu í offrum lystast neinum,
utan það gjörist af hjartans vilja hreinum,
komi það með Krists kenningum einum
með kærleiks vitni, kvitt af öllum meinum.

24.
Helgun þína að halda
holdið má með anda
ást og iðran fá
og þér offrið gjalda,
orðin og viljann vanda
og visku verk sem má.
Eigi fyrirlítur þú angrað mannsins hjarta,
ásján Drottins sendir geisla bjarta,
lífgar andir og lýsir myrkrið svarta
og leiðir í burtu vora villu parta.

25.
Góðgjarnlega gjörðu,
Guð minn, sannur að vilja,
við kristni kæra þér.
Láttu oss lífs á jörðu
lýð þinn heyra og skilja
hvað hæfir holdi hér.
Þó að ei þurfi þar til þjónkan mína,
því bið eg Drottinn veiti miskunn sína
upp að byggja borgarmúra þína
með blessan Guðs að aldrei nái að dvína.

26.
Þú meðtekur mesta
manna helgun skæra
af allri ást og trú.
Er það iðran besta
offrið þér að færa
hér í heimi nú.
Altari Drottins auðmjúkt mannsins hjarta
fyrir setjandi tólf trúarinnar parta,
þá má kalla kærleiks kálfa bjarta,
klárt eyðandi saurgun synda parta.

27.
Davíðsdikt má kalla
djörfung mína sýna
í íslensku orðin sett.
Eg er þess verðugur varla
versa smíði neina,
að auka né yrkja rétt.
Því mun eg biðja þá sem vilja læra
þetta mál til betra efnis færa,
að orðin góð megi andar lífið næra,
iðran synda gjörir menn Kristí kæra.

28.
Á ljósar glósur lýði
leiði og greiði mína
eina og hreina art.
Bænir vænar bíði
í blessan þess er sína
í sælu velur skart.
Þjóðir fróðar þessar vísur finni,
þýði og prýði mjúkri mælsku sinni,
orðin gjörð að allir haldi í minni,
ent og kennt í dyggvu hyggju inni.

29.
Dýr og skýr sá drottnar
dæmum sæmir allar
tungur og tigna list,
hann er þann ei þrotnar,
þjóðir góðar kallar
í helga himnavist.
Jesú, vísa oss fyrir krossins pínu
inni að finna með ráði ríki þínu,
mætti og ætti meira í máli mínu
minning inna ætíð nafni þínu.

30.
Endann víst eg vildi
vinna og finna enn besta
á minni málagrein,
skýra og dýra eg skyldi
skærum færa eð mesta,
væri mín viskan hrein.
Eyðist, sneyðist orðasmiðjan kalda,
inni og minni má því ráða og valda,
lát oss, Drottinn, lífsins trúna halda,
lofið sé þér um allar aldir alda.

(Vísnabók Guðbrands 1612 (útg. 2000), bls. 304–308)