Hershöfðinginn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hershöfðinginn

Fyrsta ljóðlína:Hæðandi helga trú
Þýðandi:Jón Þorláksson
bls.274–276
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þríkvætt ababcdcd
Viðm.ártal:≈ 1800

Skýringar

„Snúið úr Gellerts kvæðum (Der fromme General í [S]ämmtliche Schriften, 1765, 8, III, bls. 51). Prentað áður í Kvöldvökum II, 203–[20]4). Hér er eitt handrit hagnýtt til samanburðar.“
1.
Hæðandi helga trú
höfðingi, trón sem bar, –
munu ekki margir nú
makar hans sitja þar? –
eitt sinn háaldraðan,
unnanda kristnum sið,
um hana hreystimann
hrakliga ræddi við.
2.
Háðfullum hætti mjög,
sem hlær einn stoltur af,
sá engin aktar lög
utan þau sjálfur gaf;
„þér, stillir! sturlið“, kvað
stríðshetjan, „mína trú,
og berið Yður að
orðin fjörgamlan nú
3.
lífshuggun, líkn í deyð
löngum að svifta mig;
illt hvað þess af mér leið
Yðar tign konunglig?“ –
„Alls ekkert“ – kóngur kvað, –
„kappa þér berið megn,
og eruð (eg veit það)
minn ágætasti þegn,
4.
einföld, en ónýt trú
ef þar er skilin frá;
legg hana niður nú!“ –
„Nei! aldrei læt eg þá!“ –
„En ef eg Yður það
alvöru býð af rót?“ –
„Ei heldur“, kappinn kvað,
„kóngs skyldu slíkt er mót.
5.
Guð drottinn yfir á
eignarráð minni sál,
en öllum foldar frá
furstum er dæmt það mál.“ –
„En hvað ef ættum vér
á Yðar lífi ráð?“ –
Hinn kvað: „Þau eigi þér,
því hef eg traustri dáð
6.
margt Yðar vegna við
vogað, minn Herra! slag
og undir óviss grið
æru Guðs fyrir í dag.“ –
„Gauti!“ kvað gylfi, „en ef
Guð sá er enginn til;
en ef eg Yður gef
um þetta fræðsluskil?“ –
7.
„Þá æskti eg, ekki seinn,
að fara í skelmis ham
og sé Guð ekki neinn
ei heldur skeytti gram.
Mörg þúsund mundu þá
mér líkir verða í her;
af sprettur arður sá,
ó prins! því kennið þér.“