Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Sálmur um Kristí upprisu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sálmur um Kristí upprisu

Fyrsta ljóðlína:Ó, Jesú Kriste öflugt leon
bls.C4r (bls. 67–73)
Bragarháttur:Hymnalag: aukin stafhenda
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Fyrirsögn:
„Psalmur um Christe upprisu
Sr. E. H. S.
Ton: Allfagurt lioos oss byrtest braatt, etc.“
1.
Ó, Jesú Kristí öflugt leon,
af ætt Júða sterki Samson.
Þú ósigrandi hetjan hraust
heims syndir barstu efalaust.
2.
Höggorms molandi haus í smátt,
harðan sigrandi dauðans mátt,
eilífi kóngur almættis,
yfirvinnari helvítis.
3.
Ég segi þér lof fyrir sigurinn þinn,
sál mín finnur þig upprisinn,
deytt hefur þú nú dauðans makt,
dýrð og prís kraftar þíns framlagt.
4.
Bevísandi þig bardagamann
sem bæði dug og ráðin kann,
hurð að uppljúka helvítis
og höstum dauða að vinna slys.
5.
Þú varst að sönnu sálaður,
samt ertu kóngur eilífur.
Hvar er þinn sigur, helvíti,
og helbroddur dauðans nístandi?
6.
Lof sé þér Jesú, lausnari minn,
fyrir lukkudrjúgan sigurinn þinn
er mér nú víst um eilíf ár
afþerrast muni mín sorgartár.
7.
Nú er sál minni sællri kátt
syngjandi af drottins styrk og mátt.
Helvítis illur ofsi er
aldrei framar til meina mér.
8.
Um litla stund þú læging barst,
líðandi yfirgefinn varst,
upphafinn nú að eilífu
með æru dýrðar kórónu.
9.
Bjargið Guðs maktar blessuðu
byggingarmenn sem forlögðu,
borðið er höfuð hyrninga
hvað vor augu mun forundra.
10.
Af Drottni er það svo skikkað og skeð,
skal hann prísast söngunum með
trúaðra manna í tjaldbúðum,
traust heldur hönd hans sigrinum.
11.
Ei mun eg deyja, heldur hitt
hrósist í Drottni lífið mitt,
kunngjörandi sem kristnum ber
míns Kristí Jesú dásemder.
12.
Á vegi drakkstu af dimmum læk,
þá dundi yfir þig neyð ótæk.
Nú er upphafið höfuð þitt,
herra Jesú, réttlæti mitt.
13.
Upprisan sönn þú ert og líf,
allra trúaðra stöðug hlíf,
um sinn þó heimi sofni frá
síðar muntu upp vekja þá.
14.
Þíns svefnherbergis sveinarnir,
sáust, það voru englarnir,
sjálfan Maríu sýndir þig,
sú er mjeg gæska innilig.
15.
Pétri skipaðir atvik öll
þó afsværi þig í *Caiphæ höll
að herma bræðrum harmþrungnu
um heilaga þína upprisu.
16.
Þinn föður og Guð, minn frelsari,
föður þeirra sann-nefnandi,
þó brotið hefðu bræðralag
bauðstu þeim frið og góðan dag.
17.
Á sama degi Emaus til,
angráðum sálum mjög í vil,
samferða varst og sannaðir þinn
sæla líkama upprisinn.
18.
Um luktar dyr þú glögglega gekkst,
góða hugsvölun postulum fékkst,
sýndir þeim blessuð sár þín þá,
síðan neyttir og drakkst þeim hjá.
19.
Elska þín þeim svo taldi trú
tállaust upprisinn værir þú,
nauðsynjalaust þá næring tókst,
nærandi þeirra veiku brjóst.
20.
Friður þinn er sú fæða hrein,
forsorgar andleg hungurs-mein,
himneskan með sér hefur kraft,
hjartað finnur það endurskapt.
21.
Hylli Drottins og himnesk náð
í herrans Jesú friðar dáð,
með fríjun synda sálin er,
*fyrir hann nefnunst réttláter.
22.
Yndi, traust, sigur, eilíft líf
er Jesú friður og stöðug hlíf
mót synd, heimi og helvíte,
hörðum dauða og reiðinne.
23.
Bölvan lögmáls og Belíals þrá,
bráð fordæming sér ekkert má
í móti Jesú fögrum frið.
Frómt gladdist því postula lið.
24.
Ó, þú lífsæli, listugi
lausnarans friður blessaði.
Ávextir Jesú upprisu
öllu valdandi heilnæmu!
25.
Kom í mitt hjarta, kæra bál,
kom þú gleðjandi mína sál.
Eg fagna þinni innkomu
sem akurmann sinni kornskeru.
26.
Eg gleðst svo af þeim góða frið,
Guðs míns upprisu bundinn við
sem hermenn sigri hrósandi,
herfanginu útskiptandi.
27.
Sígur höfðinginn sætasti,
sæmdi mig blessan eilífri
helvítis þá hann víking vann,
vítið og dauðann eilífan.
28.
Blessaði sigur Samson minn,
sál minni vann þann skrúðann inn
er hún í skarta eflaust skal
í eilífum Jesú brúðkaupssal.
29.
Ó, Jesú minn Emanúel,
ærunnar kóngur, gjör svo vel.
Lát mig upprísa líka nú
fyrir lifandi iðran, ást og trú.
30.
Fyrstu upprisu eg feginn kýs,
farsæl hin seinni þá er vís.
Sálardauða mig son Guðs ver
svo hinn eilífi ei grandi mér.
31.
Í mér minn Jesú enn upprís,
í mér, Jesú, þú vinn þinn prís,
sigra þar heiminn, synd og deyð,
Satan, helvíti og alla neyð.
32.
Hugga þú mína hryggva sál
í hennar sorgum þá gleði er mál,
orð Guðs blessaða andar-grið
innræti henni og Jesú frið.
33.
Einnig bið eg af innstu rót,
ó, Jesú, minna þrauta bót!
Upprisa þín á efsta dag
upprisu minna blessi hag.
34.
Sveipaður mold eg sofi í ró
sem andleg móðir mig til bjó.
Svefnblæju þeirra sviptir þú
sjálfur og vekur öll þín hjú.
35.
Vaknið, prísið þá eru þín orð
undir sem hvílist rauðri jörð
af því mitt regn er eðlisins
eins og dögg græna vallarins.
36.
Þá mun vakna í vansemd sáð
vel fagurt hold fyrir Drottins náð,
ódauðlegleika ímyndað,
upprisa Jesú verkar það.
37.
Af því vort líf er hulið hér
í herranum Jesú trúum vér.
En það mun verða opinbert
á efsta degi að tign óskert.
38.
Heilagi Jesú, heillin mín,
huggi mig öll forþénan þín.
Gef mér upprisu glaða að fá
og gæsku þína um eilífð sjá.
> Amen.


Athugagreinar

15.2 Caiphæ [?]
21.4 Hér vantar höfuðstaf í fjórðu braglínu.