Gyllini stafróf Sigurðar Gíslasonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gyllini stafróf Sigurðar Gíslasonar

Fyrsta ljóðlína:Ástunda náðar allra best
bls.D4v (bls. 92–96)
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Heilræði
1.
Ástunda náð er allra best
aðstoð drottins að hljóta.
Þegar þér liggur þar á mest
þess kanntu að njóta.
2.
Breyttu sem drottinn býður þér,
brúkaðu æ hið sanna.
Herranum framar hlýða ber
heldur en skikkun manna.
3.
Christinn sig margur heldur hér,
heimskur má af því blekkjast.
Ýmislegan þó ávöxt ber,
af hvörjum tréð má þekkjast.
4.
Drag þig þar til sem fláttskap flýr,
frá þeim vondu sem skjótast.
Úlfur er sá með úlfum býr,
illt má af slægum hljótast.
5.
Eina þá mundu málskaps grein
manninn ef viltu lasta,
hvört máttu á hann stórum stein
strákskapinn fyrir kasta.
6.
Forsmáðu aldrei fátækan,
féð er í sínu gildi.
Yrðstu sem síst við ófróman,
eins og sig þig hann vildi.
7.
Gakk þú seinlega í gleðihús,
gálaus oft inni situr.
Sorgfulla að hugga sértu fús,
svo gjörir margur vitur.
8.
Hafðu mín ráð og helst það geym
sem heyrir og sérð einsamall.
Fáir vita ómála mein.
Málsháttur það er gamall.
9.
Í því sem skikkar skyldan hrein
skatt og toll yfir mönnum
gjald þitt sé rétt en gjöf ei nein,
gættu að reikning sönnum.
10.
Krankdómur ef að þjáir þig
þolinmóður skalt vera.
Drottinn legg ekki meiri á mig
mótgang en eg kann bera.
11.
Lánleysi og slys ei láðu hér,
lifir því margur hrelldur,
syndanna dóttir sorgin er,
saklaus ert ekki að heldur.
12.
Mælir sannsýni, mundu tvennt
mátann og hófið stillir.
Van eður of er öngvum hent,
orðum og verkum spillir.
13.
Nýjum vin segðu satt og fátt
þótt sýnist hann þér dyggur.
Gamlan þú hata aldrei átt
ef að hann var þér tryggur.
14.
Ótrúan máttu merkja af því
misjafnt talar um aðra,
fjölmáll og þýður eyrum í,
útlærður til að smjaðra.
15.
Pundið er lán sem lént er þér,
lán færir stóran vanda.
Vandfarið með það einninn er,
af því skalt reikning standa.
16.
Qvíð þú ókomnri aldrei stund
á þá margt vilji dálpa.
Gakk þú svo fram með glaða lund,
guð er vís til að hjálpa.
17.
Réttsýnn vert allri athöfn í,
einkum þá dóma situr.
Gleymdu ei sannleiknum, gáðu að því,
guð er dómarinn vitur.
18.
Skemmtinn vertu með hófi og hægð,
haga svo ræðu þinni:
Bakmælgi, lygi, brigsl og slægð
brúkist þar ekki inni.
19.
Talaðu fátt um flesta ógott,
fjártjón er þér það ekki.
Hataðu lygi háð og spott,
haltu það skemmdar flekki.
20.
Ungan lagfærðu ef þú mátt
ef að hann vill þér hlýða.
Gamlan þú hata aldrei átt,
ellinnar viltu bíða.
21.
Vel þó þér vegni vertu ei dæll
víst því lukkan ókyrr er.
Enginn með réttu segist sæll
sína dauðastund fyrer.
22.
Xeres kóngur ótal vann
undir sig margt með hreysti.
Farsældist illa, fór svo hann,
fénu því of mjög treysti.
23.
Yðinn* borga ef þiggur þú
þíns brauðs daglega leita.
Af rangfengnu aldrei blessast bú,
blóði né annars sveita.
24.
Zebaoth drottinn þína þörf
þekkir og að þér gætir.
Áhyggju-víl og ærin störf
auðlegð þína síst bætir.
25.
Þegar þér drottinn deildan verð
dag hvern gefur að vana
ágirnd lát vera ekki á ferð,
allt saddi guð nema hana.
26.
Ævin þín líður, að þér gá,
auðnum er heimska að safna.
Dauðinn þín bíður dyrunum hjá.
Drottni er gleymska að hafna.


Athugagreinar

23.1 ’Yðinn’ er hér haft með y enda eru i og y runnin saman í framburði á þessum tíma.