Morgunsálmur. Önd mín af öllum mætti | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Morgunsálmur. Önd mín af öllum mætti

Fyrsta ljóðlína:Önd mín af öllum mætti
bls.77
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður+) þríkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar
Annar kvöldsálmur
Tón: Þér drottinn eg þakkir færi etc.
1.
Önd mín af öllum mætti,
ó, drottinn, þakkar þér
að mín þú allvel gættir
í dag og hlífðir mér.
Líkn þinni vil eg lýsa,
lofandi mildleik þinn,
einninn *þinn almátt prísa
að þú varst skjöldur minn.
2.
Allsháttuð sæmd og æra,
ó, Jesú, sé þér veitt
að mig auman áhræra
illt léstu ekki neitt.
Mín skal því tungan mæla
um miskunn þína þrátt
og henni jafnan hæla
af hjarta dag sem nátt.
3.
Herra, heilagi andi,
heiður þér jafnan sé
að undan öllu grandi
ávallt mig dróst í hlé.
Vek mig með vilja og mætti
vegsemd að syngja þér
en hafna hégóms hætti
til heilla sjálfum mér.
4.
Lof dýrð og hæsti heiður,
herra, þér aldrei dvín;
hvör stenst ef ertu reiður;
oss hlífi blessan þín.
So hvör í friði sofi
sértu oss, drottinn, hjá;
helg trúarvopn oss hlífi
heift djöfuls allri frá.


Athugagreinar

1.7 þinn almátt] < Lbs 457 8vo, ÍBR 26 8vo. almátt þinn Lbs 847 4to.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðasafn 4, bls. 161–165. Í útgáfunni er kvöldsálmurinn tekinn eftir Lbs 847 4to og er hér farið eftir henni nema hvað í 1.7 er valinn annar lesháttur)