Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Ísland | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ísland

Fyrsta ljóðlína:Ísland, Ísland! Eg vil syngja
bls.136–137
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Sigurður Þórðarson samdi lag við þetta kvæði Huldu.
1.
Ísland, Ísland! Eg vil syngja
um þín gömlu, traustu fjöll,
þína hýru heiðardali,
hamraskjól og vatnaföll;
þína fögru fjarðarboga,
frjálsa blæ og álftasöng,
vorljós þitt og vetrarloga,
vallarilm og birkigöng.
2.
Ísland, Ísland! Öllu fegri
er þín forna goðaströnd;
enginn getur yndi fjarri
er þín heiðtign lagði í bönd.
Þeim, sem örlög frá þér flytja
fylgir þrá í ókunn lönd.
Ár og síðar öllum hollust
er þín trygga móðurhönd.
3.
Ísland, Ísland! Öllu skærri
okkur hljómar tunga þín;
hún skal nafn þitt, móðir, mæra
meðan vornótt björt þér skín.
Þegar hætta þér er búin,
þá skal glymja strengur hver,
harpa málsins hugmóð knúin
hrópa á lið til varnar þér.
4.
Ísland, Ísland! Eg vil búa
alla stund í faðmi þér;
huga minn og hjarta áttu,
hvert sem vængi lífs míns ber.
Vættatryggðin vaki yfir
vogum þínum, hlíð og strönd,
meðan ást og óður lifir
og í norðri blómgast lönd.