Flateyjarríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Flateyjarríma

Fyrsta ljóðlína:Sumarið blíða sorgum hreytti
bls.27-54
Bragarháttur:Úrkast - skothent
Bragarháttur:Úrkast - baksneitt
Viðm.ártal:≈ 1626–1628
Flokkur:Rímur

1.
Sumarið blíða sorgum hreytti
úr sinnu manna.
grasið fríða gamlan skreytti
Grímnis svanna.
2.
Heyin frægir búmenn báru
í byrgingar,
lágu á hægir lofti kláru
landsynningar.
3.
Formenn hnepptu fisk á land
í Flatey austur,
gesti hrepptu um bólmar band
þar beittu flaustur.
4.
Lestir gengu, langveg kruttu
lágu heiðar,
afla fengu, frekar fluttu
fiskiveiðar.
5.
Ærið seinn til aðdráttanna
út að rata,
þangað einn eg þenkti kanna
þjóðveg flata.
6.
Eg því vildi árla dags
fá ylgi þófa,
rétt sem skyldi ríða strax
til ríkra hófa.
7.
Söðulinn fyrst lét setja á mar
án sævar eisu,
af gildri list þó gjörður var
sá Gvönds á Veisu.
8.
Járnlá rigndar reiðólar
með reyndum taumi,
agat skyggndar skörtuðu þar
á skeiða glaumi.
9.
Stígvél þröng eg strauk á bein
með sterkum sóla,
skrúða föng ei skorti nein
með skikkju og kjóla.
10.
Stigreip þandi í þýðum gust
á þriðju stundu,
sterk reynandi í drenglegt dust
sem duga mundu.
11.
Með sveina þrjá eg sótti á leið
frá silki eyjum,
sérhver frá eg seggja reið
í soldáts treyju.
12.
Imbruviku á nam falla
örlögs stræti,
ég lét strika jóra alla
jöfnum fæti.
13.
Fákar ristu á Fnjóskár vað
með ferðahrókum
að aftni fyrsta eg nam stað
í Austari krókum.
14.
Var þar gestur kominn úr Kinn,
sá kunni dyggðir,
Illugi prestur, eg fljótt hann finn,
við festum tryggðir.
15.
Menn ef vildu á mar eður landi
móti gráða,
að einu skyldi ýra grandi
yfir báða.
16.
Sveina og fljóða selskap hafði
seima runnur,
með forsjá góða ferð sem krafði,
í Flatey kunnur.
17.
Allt var veitt þeim hjónum hjá
af huganum besta;
dökkri greitt þegar grímu brá
var gripið til hesta.
18.
Dagaði kalt, en drótt ei eirði
að doska lengi,
snöggt var allt sem sniðugu heyrði
snyrtimengi.
19.
Greiða þakka gjörðum hátt
í glöðu bragði,
hrókar blakka hver sem mátti
á heiði lagði.
20.
Kýfði fjöll, á kampa víaði
Knefils porta,
um veðra höllu slæmum slýjaði
sloppu sorta.
20.
Kýfði fjöll, á kampa víaði
Knefils porta,
um veðra höllu slæmum slýjaði
sloppi sorta.
21.
Síðan felldi á svarta dögg
með svipulum vindi,
Illugi skelldi á skeiðin snögg
um Skrímnis lindi.
22.
Tamur ferðum stytti stund
með stökum skýrum,
remba gerðum rípa og sund
á reiðar dýrum.
23.
Fylgdarmanna ferðin hraða
um fold og leira
hver yfir annan gjarða glaða
gjörði að keyra.
24.
Norður hálfa, Tjörness gangi
og tó Hábjarga
helst réð skjálfa af hörðum gangi
hófa varga.
25.
Í Vík hafnar hjá veldi más
með vaska drengi
söðla hrafnar sefuðu rás,
þar sátum lengi.
26.
Illugi mesta ávarp kann
með orðum hröðum,
greiða bestan bónda fann
á Brettingsstöðum.
27.
Fars í eyna félögum beiddi
frömuður messu,
hinn til beina horskur greiddi
helst að þessu.
28.
En þó hætti ufsa frón
með árum grafa,
kvað sér þætti veðurs vón
úr vondum kafa.
29.
Því boðar féllu, en brimin slitu
barminn landa,
Víkurhellu lýðir litu
í löðri standa.
30.
Ekki að síður ákefð gekk
fyrir allra brysti,
fús var lýður á ferju hlekk,
í Flatey lysti.
31.
Höfðum segl á hálfu tré
í höstu leiði,
borða skegla bylgjur sté
og beitti á Eiði.
32.
Ægir þótti andar stór
að ýfa gráði,
landið sótti lindar jór
og lending náði.
33.
Formenn hörðu fimlega stökkva
á Fjalars hallir,
síðan gjörðu í nausti nökkva
að njörva allir.
34.
Eyna sjálfir klerkar hátir
könnuðu fyrstir,
stæltum kálfa, stærilátir
stigu um ristir.
35.
Fælur púka drömbuðu dýrt,
sem dómprófastar,
þöndu múka, skröfuðu skýrt
við skimuðu rastar.
36.
Þorska hræ sá þykkt við geim
á þorpum neðri,
Suðurbæ vér sóttum heim
í súldu veðri.
37.
Dúðum þreknir, ef dyndi á él
eða döggin vónda,
þar vorum teknir virta vel
af vöskum bónda.
38.
Ormur téði ávarp kátt
og eyddi mæðu,
vín sem mjöð hann veitti brátt
og væna fæðu.
39.
Gaus á nótt í greindum stað
yfir góðan beina,
að morgni drótt um miskunn bað
við messu hreina.
40.
Kynning hollur Krists með sóma
kenna náði,
hökla þollur helgidóma
handtéra gáði.
41.
Halda síðan hirðar álma
hugðu að landi,
flóðs nam lýða ferðum tálma
fár og vandi.
42.
Að augabragði eyjar sund
var allt í bylgjum,
brimið lagði á græna grund
svo gengdi dylgjum.
43.
Líka vísum veiki hlóð
að voveifs gesti,
eyjar dísum uggur stóð
af Illuga presti.
44.
Varð hann því að víkja um reit
frá veislu þjónum,
í Norðurbý þar baðstofa heit
var búin af hjónum.
45.
Eftir var eg hjá Ormi, sjúkt
bar ekki lyndi,
vínið bar að vörum mjúkt
og veitt af yndi.
46.
Dagana sex þar dvöldunst vér
á drafnar eyra,
óður vex, því greini eg ger
hvað gjörðist fleira.
47.
Byggðar reita bræður tveir
við báru kalda
Loftur heita og Þórður þeir,
sem þrifnað halda.
48.
Í vík þeir Húsa- höfðu hleypt
á hesti súða
og lagga brúsa brenndan keypt
til barka að úða.
49.
Aftur um geim sem leiðin lá
með lund óstirða,
fluttu heim í Flatey þá
og fóru að hirða.
50.
Báðir tættu vareygð við,
og voru þess dæmi,
ef verða mætti víkings lið
á veldið kæmi.
51.
Eigi vildu elskir múta
óskir hlotnar,
einir skyldu að lög þeim lúta
lánardrottnar.
52.
Í undirheima eyjar Skjálfa
efldu og senda,
létu geyma óljóss álfa
ölið brennda.
53.
Dult var flestri drótt hvar væri
Dofrar tappa,
í gátu mestri frá eg færi
um fylgsnið krappa.
54.
Birtast hlýtur brögnum enn
hvað ber til nauða,
heyra ei vítur hressir mann
þó hirði dauða.
55.
Gjörðu svana sveima af foldu
sóttir þungar,
lykt óvana ekki þoldu
innsveitungar.
56.
Af örmum hósta ört sem sprungnir
einir voru,
Hárs af rosta hinir þrungnir
í hugsun fóru.
57.
Þjáði suma þorsti og skerði
þol andvaka,
aðra hruma óvær gerði
innantaka.
58.
Margir mundu menn af ríku
megnis grandi,
hvergi fundu forðun slíku
fári í landi.
59.
Fofnir bóndi framur og snar
og fær í ráðum
lösnum kenndi lækningar
með list og dáðum.
60.
Auðsætt þótti ef áfram gengi
á þær rata,
kvað hann drótt af kvillum fengi
kaskan bata.
61.
Kvaðst hann hyggja kagga arfa
af krúslá bólgna
undir liggja akri karfa
alldjúpt fólgna.
62.
Þeirra dreyra hæfan hélt
við hósta og mæði.
Ullur geira út honum hellt
ef einhver næði.
63.
Hann kvað færum heilsu súpinn
hollast fanga,
því örðugt væri undirdjúpin
í að ganga.
64.
Ekki þagði álma viður
yfir vegi,
leiðina sagði norður og niður
um náhvals teigi.
65.
Óvænt sýndist Ullum ríta
unnveg kanna,
hugur týndist, hóf að líta
hver á annan.
66.
Girnd og ótti gengu skarpt
að gusti ímu,
öllum þótti við álfa snarpt
að eiga glímu.
67.
Þar til einn í þegna krans
úr þagnar skorðum
lyndishreinn gaf hreystians
og hreyfði orðum.
68.
Vitur, merkur, veiki sviptur,
vaskra jafni,
Illugi klerkur, góðu giftur
gæfu nafni.
69.
Spillir gátta hefur sá hug
í hermanns brjósti,
hann við átta drýgir dug
ef dregur að þjósti.
70.
Sagðist gildi bóka bör
fyrir brjósti stála
sveima skyldi sendiför
í svarta skála.
71.
Heldur en yrði félagar falir
fjörsins tjóni,
þeim sem gyrðir Geitis sali
á gesta fróni.
72.
Seggurinn bjóst með sax og stólu
í Surtheim vandra,
batt með þjóst við beltis ólu
banann Andra.
73.
Tvennt var hann, so Fjölnis fengur
fræðir ýta,
helgur mann og hreystidrengur,
harður að líta.
74.
Senior kvaddi, sáum þar eftir
sæmdarmanni,
vonin saddi, vorum þó krepptir
vits í ranni.
75.
Tómas heitir haltur á fæti
en heill í munni,
vísur þreytir, kænn við kæti
og kastar hlunni.
76.
Kann forstanda mávamál
þó masi um víðir,
allra handa bragða brjál
og Buslu tíðir.
77.
Margt kann skynja, mun so vera,
máls um reita,
engum synjar gott að gera
og greiða veita.
78.
Klifs við auga kompán skyldi
klókur sitja
meðan í hauga halurinn gildi
hóf að vitja.
79.
Í undirheima óð hinn þarfi
á illu hausti,
njótur seima hinn draugadjarfi
dugði að trausti.
80.
Í Björgólfs skála byrstur vendi
byggða dökkra.
Þundinn stála þennan kenndi
þjóðin rökkra.
81.
Hans erendi senn fær séð
og sinnið trylldi,
greitt af hendi geymsluféð
ei gefa vildi.
82.
Ennis máni ótt til brá
þar eftir vanda,
um inni fauna áttung sá
í einkrók standa.
83.
Hamingjudrjúgur hendi þreif
um hjörtinn sveiga,
álfa múgur að honum dreif
með aflið seiga.
84.
Hver þar urðu harðfeng skipti
í húsum neðri
sást af furðu er felmtri yppti
í fálu veðri.
85.
Laust upp dökkvu, lék á þræði
lögur með storði
eins og klökkvu ýtar stæði
á eikiborði.
86.
Hjarðir saman hrukku og störðu
af hörku kynja,
varð ógaman, vemblur gjörðu
vondslega drynja.
87.
Hillur allar hrutu niður
í hrunda búrum,
hröpuðu dallar, kom upp kliður
með kinna skúrum.
88.
Gissurs leyndir geiguðu frúr,
en geims á reinum
veggir reyndir vörpuðu úr
sér vættar steinum.
89.
Fiska salir féllu um koll
á fjöru granda,
margir halir héldu noll
með hryggvum anda.
90.
Lék á kviki greni og grjót
með græsku formi
eins og fyki fisin skjót
í feyki stormi.
91.
Vöskum lýðum veg að rata
veitti ei bráðum,
óð á síðum ægis plata
og endum báðum.
92.
Allur sjór sem ísmöl litur
eyna knúði,
hlusta kór sá harði þytur
heyrnum rúði.
93.
Carybdis og Scilla systur
sviptu laugum,
byrgðu glys, en gjörðu mistur
geðlaust augum.
94.
Faxi rauk en stafur stóð
þá steyptist öfga,
efldi slauk í Ýmis blóði
afnám höfga.
95.
Botn sjós nisti Nereus upp
frá neðsta grunni,
kampa hristi kólgu bupp
af köldum munni.
96.
Urðu Hlés óheitar dætur
hátt í dansi,
brutu annes og fóru á fætur
af firna stansi.
97.
Hvalir þeystu hafinu úr
með hvössum sjónum,
hátt þeir reistu heila búr
og héldu upp trjónum.
98.
Eyna spróguðu, börðu bægslum,
býsn ei rýrðu,
blæstri lóguðu, lands að æxlum
löðri ýrðu.
99.
Rauðkembingur, rostungs pör
og reki fiska,
vagn, hnýðingur, hnísan snör
og hafgúan fríska.
100.
Bust, skemmingur, skjaldarhvalur
og skeljum steyptur.,
áll, búmungur, búri þvalur,
blæja og leiftur.
101.
Naut, hafstrambi, nás með hveli
og nefjan valta,
rafn, hrossvambi, hafur, deli
og hlýri galta.
102.
Mjaldur spakur, stökkull stuttur,
strokkur, reyði,
geir, lyngbakur, golnir fluttur
gláptu á Eiði.
103.
Gægðust tröll úr Krosshúss klett
við kynngiblöndur,
skimuðu öll og skulfu rétt
sem skildivöndur.
104.
Gjörði fölva, gleymdust dúrar
af granna svalli,
kinnaölva, Krosshúss múrar
krupu að hjalli.
105.
Sig Háganga þussar þyrpa
þrýstnir vurðu,
greiddu vanga Gustur og syrpa
úr gamlri urðu.
106.
Polyphemus, Fornjótur
og Fenris þjassi,
Urnir, Clemus, Ýmir, Ljótur,
Iði, Gassi.
107.
Dofri, Skrímnir, Fleggur, Fjalar,
Furnir, Augi,
Glámur, Grímnir, Geitir, Kjalar,
Geipnir, Baugi.
108.
Á fróns nagla úti þar
hvar aftök skeðu,
Kinnatagla kompánar
það kynja réðu.
109.
Skruggur enn í Skjálfa flóa
skeðu fleiri,
ekki nenni eg um þær sóa
arnar leiri.
110.
Í bláloft mílu braust vatns stroka
úr Bjargar polli,
af vilpu fýlu vall upp þoka
verri en skolli.
111.
Postulinn nærði Nikars feng
hjá niðurgangs auga,
úr mund ei hrærði merkis streng
við mótkast drauga.
112.
Þótti togna þófið stórt
á þussa vangi,
tók að bogna brjóstið vórt
af bið so langri.
113.
Loksins frá eg linnti fár
sem lýðinn eymdi,
litum þá hvar klerkurinn knár
hann kútsa teymdi.
114.
Sveitt nam bera svarðar rann
af svalls illhleypum,
þótti vera heimtur hann
úr heljar greipum.
115.
Litla vægð vér landmenn sýndum
leiddum kagga,
þótti frægð sem frekast píndum
fílinn lagga.
116.
Við broddjárn öll vér bárum þol
sem búldu og geira,
botna tröll að bora á hol
og belgja dreyra.
117.
Afl og móð við odda sukkið
öld fær teitri,
hrátt ef blóð úr ben er drukkið
bjarnar heitri.
118.
Efld náttúran eins vor hýddi
af sér sorgum,
af sló stúra, engu kvíddi
á eyjar torgum.
119.
Hresstum geð af ámu arfa
öflgum straumi,
ölþökk téð var álfum þarfa
er olli glaumi.
120.
Varð örendur divika dári
af dröguðum mækja,
í öðru eins stendur annar fári
eftir að sækja.
121.
Hirti enginn undra meiri
orsök hlæði,
ræddi um mengi að ráðin fleiri
ratast næði
122.
Hæng því kvaddi kullaust úr
að kænum ráðum,
viskan saddi minnis múr
þar megn á báðum.
123.
Skræður fornar skoða tóku
skrifendur spjalda,
myglubornar margt af klóku
mundu halda.
124.
Rit haugbúa og rammvillinga
rúnuð fræði,
sögðust trúa að sveig kerfinga
Sörkvið næði.
125.
Dofra ranns og Dínusspjalls
hin dimma íma,
Andra dans og drápa Halls
þar dundi um tíma.
126.
Háttalykli og hildar flumsi
í höllu kúa,
Hárs af stikli steypti Tumsi
og strauk þá hnúa.
127.
Bjarkamál sem Skaufhalaskrá
með skemmtan Bósa,
Viðris prjál og Völuspá
þeir voru að glósa.
128.
Með sér drógu mig að þessu
minnst kunnanda
gagnslaus þó að muddu messu
mátti eg standa.
129.
Á stræti þröngu stífir stóðu
stefja hreyta,
góms með slöngu gamla óðu
Golnis sveita.
130.
Krafti soraði Sviðris mær
af svörtu þangi,
þunglega sporaði, þekktum vær
á því vetfangi.
131.
Þann vel féllst að þreyta sið
í þrautum vöndum,
ekki hélst hann Vinkill við
í Vindbláss höndum.
132.
Sást þá gluggur glær í austri
glansið leysa,
heyrðust skruggur, fór með flaustri
feyki eisa.
133.
Síðan klukku í kláran sal
þeir klifendur sagna
lærðir hrukku, en Lóðins hjal
vér létum þagna.
134.
Þar næst maður í stöpulinn steig
með stöðugu bragði,
kynja hraður könnu veig
í kné vor lagði.
135.
Fritt kvað hvergi í hirslum kút
fyrir háttum gesta,
fleygðu úr bergi honum álfar út,
þeir óttast presta.
136.
Bað vér vildum Boðnar lengur
brim ei gambra,
heldur skyldi hver sem drengur
hvatmóð slambra.
137.
Gjörðum spara ker og krúsir
könnu hyljum,
snarstíg þvara snertum fúsir
snæðings giljum.
138.
Líns ókarga í lofti skúfur
lék með ólpum,
riguðu margra reikar þúfur
á raddar stólpum.
139.
Féllu styrir, fagnaði allt
hjá fólki þekku,
ofan fyrir vota valt
hann vélinds brekku.
140.
Eyddist furða, eigendur kúta
engum blóta,
báðu aðburða oss sefendur súta
sæla að njóta.
141.
Sérhver virði sigurkrum
í séranna þori,
hvað sem yrði húsbændum
til heilsu að vori.
142.
Féll þar eftir lands til leiði,
lúðust stormar,
tveir voru settir síls á heiði
siglu ormar.
143.
Ormur nökkva nýtur stýrði
er nefnist Hængur,
kunni að stökkva á þótt ýrði
úða sængur.
144.
Menn þar átján eyddir harmi
á otri ranga
inni sátu með öðrum farmi
afla fanga.
145.
Öðrum Þórður renndi á ræfur
rauðkembinga,
Blængur gjörði blávegshæfur
báru að stinga.
146.
Tvennir átta sátu saman
seggir fríðir,
allir sáttir, gjörðu gaman
greitt sem hlýðir.
147.
Af fiski báðir, röfum raski
og rusli stóru,
ferðabráðir flóðs í hnjaski
fermdir vóru.
148.
Allvel tjáði Ormur lið
með eyjar granna,
skýr á láði skyldi oss við
þar skip hlé kanna.
149.
Ofnis nafni Ása móður
og áða sendi,
heillum safni, sigur góður
þeim sé í hendi.
150.
Hofi nær þar fengum frón
vær fórum að gista,
grímur tvær þar góðlynd hjón
oss gjörðu ótvista.
151.
Þögn brá nætur, þaut upp dagur
og þjóstug hláka,
braust á fætur Bjarni ógagur
að beisla fáka.
152.
Klifberuðu klára sumir
og kleyktu upp böggum,
aðrir ruðu reit óstumir
reiðar plöggum.
153.
Ferðin leysti fisks með plóg
og fimmtán hesta,
varð háreisti á Hofi nóg
og harkið mesta.
154.
Flyðrur klofnar flöktu þar
á fljótum jórum,
feitir stofnar, fyldingar
með fiskum stórum.
155.
Lagðist reið í lýsing dags
en létti værðum,
benti leið í byggðum strax
að blautum færðum.
156.
Snjór krapaður reyndi órjóða
Rindar elju,
fyrr hrapaður fort nam bjóða
ferða dvelju.
157.
Fjórði partur lítt var laus
af langri heiði,
þá allmjög svartur Ýmis haus
sér atti að reiði.
158.
Stökk hinn bráði storma hamur
á stjörnu krafta,
Elris náði rakki ramur
rífa kjafta.
159.
Ofsinn hrundi á ufsa gólf,
en aur nam blotna,
rétt sem mundi mána hvólf
í miðju brotna.
160.
Á sjó og fjöllum sást af herkjum
saman gaga,
hrúgaði öllum hring sólmerkjum
hrúts í maga.
161.
Hríðin dundi, hreggið lamdi,
hrutu eldar,
loftið stundi, lýði kramdi,
lúðust feldar.
162.
Vurðu hvellir, vindar stríddu,
vullu straumar,
lak hver hellir, krepju kvíddu
kletta raumar.
163.
Fjúki lysti í fjöll og dali
fylltur bokki,
pundhögl hristi hornumskvali
úr hverjum lokki.
164.
Undir dústum ójafnaði
úðar leðju,
skýja þústum þrásafnaði
á Þundar beðju.
165.
Hygg eg bæri hver til nefndur
hvergi í tvíli,
að oss væri öllum stefndur
aldurtili.
166.
Höfuðs og ilja allt í milli
að innstu klæðum
draup sem hylja djúps í fylli
dýktir stæðum.
167.
Yfir bekki öldum belgdi
íss og snjóa,
kippur, sekki og klára svelgdi
krapið flóa.
168.
Jötuns belgur úr byrjar stræti
bylti vindi
sem Hræsvelgur hvatur sæti
á hverjum tindi.
169.
Menn og blakka meins þær gráu
mæddu nauðir,
óðu í makka, aðrir lágu
orkusnauðir.
170.
Reipin hrukku, reiðingar drukku,
röknuðu gjarðir,
klifberar stukku, klárar sukku,
kljáðust larðir.
171.
Sveinar fipluðu fanna hjúpinn
fingrum daufum,
eftir gripluuð díkja í djúpin
dottnum paufum.
172.
Fiskur blautur rann úr roði
í regni mesta,
eins og grautur gjörður úr soði
geiraði hesta.
173.
Ýmist dreif hagl, dögg eður snjór
úr dimmum hökli,
veðrið þreif upp stykkin stór
af stálbláum jökli.
174.
Hríðin kyngja hér ei síður
hauðrið skelldi,
en Jómsvíkinga er jarlinn stríður
fyr Jaðri felldi.
175.
Í einum nið var ybbinn allur
Austra hattur,
flöktu á riði fjöll sem hjallur
fram og aftur.
176.
Örskots lengd so aldrei gekk
fyrir utan baga,
að oss ei þrengdi ess eður sekk
úr asa að draga.
177.
Dóttir Njörva níða dökk
með nógu rambi,
vald nam örva og yfir oss hrökk
hjá Almannskambi.
178.
Hríð leið frá en tauma og tauga
týndum afla,
vér áttum rjá við dimma drauga
og djúpa skafla.
179.
Ljós ei feykti máni mætur
úr muggu flóka,
á þriðju eykt vér þreifuðum nætur
um þröskuld Króka.
180.
Af var frakt, oss ísa flesjur
utan vöfðu,
allt fór skakkt, en kragar sem kesjur
á köllum löfðu.
181.
Stigs voru ólar, saurs og sokkar,
saums úr klöstrum,
undan sólar, skröptu skokkar
skós á möstrum.
182.
Blíðan þágum beina enn
í bognum garði,
hlessa lágum hríðar menn
sem hretið barði.
183.
Barst til vitru barmar tveir
í birtings teina,
með skapi bitru skoðuðu þeir
hvað skeði við eyna.
184.
Að oss höfðu konstra kellur
komið að stefna,
kífs með vöfðu kynstra brellur
kútsa að hefna.
185.
Krákur hafa ei kunnað bót
að konstra drengi,
veðurs kafa vonsku hót
því vörðu of lengi.
186.
Þanka felldum þrauta éls
en þrek nam dafna,
messu héldum Michaels
hjá mínum nafna.
187.
Við hyggjusnaran Helga kund
í hollum ráðum
skilst eg þar, hans ljúfa lund
mér leist með dáðum.
188.
Reiknaðar hans eg raunir heyrði
um reitinn Fnjóska,
með rytju fans so rétt heim keyrði
og rotna þorska.
189.
Elds í glóðir Illugi framur
ýkjur felli,
lifi bróðir lukkusamur
til lengstu elli.
190.
Hreyfði eg smáum, hrakning firrður
Hróars maukum,
meðan eg lá um limina stirður
í lúa hraukum.
191.
Öllum mætur gefist greiði
guðs af hendi,
lukkubætur böli eyði.
Brags er endi.