Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Fákar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Fákar

Fyrsta ljóðlína:Í morgunljómann er lagt af stað
bls.102–104
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ababCCaC
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:Fyrir 1913
1.
Í morgunljómann er lagt af stað.
Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.
Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,
þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.
Menn og hestar á hásumardegi
í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi
með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.
2.
– Brúnirnar þyngjast. Þeir harðna á hvarm.
Það hrökkva af augunum neista él.
Riðullinn þyrpist með arm við arm.
Það urgar í jöxlum við bitul og mél.
Þeir stytta sporin. Þeir stappa hófum
og strjúka tauma úr lófum og glófum.
Höfuðin lyftast. Hin lifandi vél
logar af fjöri undir söðulsins þófum.
3.
Nú hrífur eðlið hvern hlaupagamm.
Hófblökin dynja fastar á vang.
Sveitin, hún hljóðnar og hallast fram.
Hringmakkar reisa sig upp í fang.
Það hvín gegnum nasir og hreggsnarpar granir.
Nú herðir og treystir á náranna þanir.
Það þarf ekki að reyna gæðingsins gang.
Þeir grípa til stökksins með fjúkandi manir.
4.
Það er stormur og frelsi í faxins hvin,
sem fellir að brjóstinu dægursins ok.
Jörðin, hún hlakkar af hófadyn.
Sem hverfandi sorg er jóreyksins fok.
Lognmóðan verður að fallandi fljóti
allt flýr að baki í hverfandi róti
hvert spor er sem flug í gegnum foss eða rok
sem slær funa í hjartað og neista úr grjóti.
5.
Maður og hestur, þeir eru eitt
fyrir utan hinn skammsýna markaða baug.
Þar finnst hvernig æðum alls fjörs er veitt
úr farvegi einum, frá sömu taug.
Þeir eru báðir með eilífum sálum,
þó andann þeir lofi á ólíkum málum
– og saman þeir teyga í loptsins laug
lífdrykk af morgunsins gullroðnu skálum.
6.
Hesturinn, skaparans meistaramynd,
er mátturinn, steyptur í hold og blóð, –
Sá sami sem bærir vog og vind
og vakir í listanna heilögu glóð.
– Mundin, sem hvílir á meitli og skafti,
mannsandans draumur í orðsins hafti, –
augans leit gegnum litanna sjóð
– allt er lífsins þrá eftir hreyfing og krafti.
7.
Sá drekkur hvern gleðinnar dropa í grunn,
sem dansar á fákspori yfir grund.
Í mannsbarminn streymir sem aðfalls unn
af afli hestsins og göfugu lund.
Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.
Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,
kórónulaus á hann ríki og álfur.
8.
Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist
ei böl sem ei þaggast, ei lund sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.