Eyjafjörður | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Eyjafjörður

Fyrsta ljóðlína:Fagur er hann fjörður Eyja
bls.207
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt AAAbbACC
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:Um 1870

Skýringar

Hjálmar dreymdi eitt sinn norður á Eyjafjörð, á sínar gömlu fósturstöðvar, og kvað þetta kvæði.
1.
Fagur er hann f jörður Eyja,
þó fái ég ekki þar að deyja.
Forlög gjörðu frek mig teygja
fjarlægari stöðvar á.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Hvar ég má nú þruma og þegja,
þjáður í vöku og blundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
2.
Skemmtileg er Akureyri,
Ýmis þegar lygn er dreyri,
og kaupförin minni og meiri
möstrin teygja í loftið blá.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Þar eru húsin firnum fleiri
en fyrst þá ieg til mundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
3.
Guðs þar höllin gnæfir fríða,
gleðisöngvar helgra tíða,
andvörp heit og bænin blíða
braut sér ryðja í skýin há.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Andleg finnst þar lækning lýða,
þá lífið af sorgum stundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
4.
Þar má heyra múka messa,
mæla gott og lýðinn blessa,
andlega við athöfn þessa
englar fagna himnum á.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Hreimur sætur helgra vessa
hvggju skemmtir lundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
5.
Prentsmiðjan með nákvæmd netta
nýjum gjörir blöðum fletta,
mönnum gefst því margt að frétta
merkilegt um veðra krá.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Athæfi svo allra stétta
ekki dyljast mundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
6.
Ritstjórinn er firna fróður,
félagsmaður hjartagóður,
en of léttur hans álna sjóður,
ei við skapið jafnast má.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Skylt er mér að hefja hróður
hans á Yggjar sprundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
7.
Bæjarstjórnin ver og vaktar
veldisboð með lögum fraktar,
þeir sem eru minni maktar
mega sínum rétti ná.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Frá sakleysinu syndir hraktar,
sæta hegning mundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
8.
Læknir þar með lyfjum fínum
líkamanna vægir pínum,
af manngæðum og menntum frýnum
mætan orðstír hlýtur fá.
Fagurt ,galaði fuglinn sá.
Gætir að stöðu og sóma sínum
í svölum heilsu lundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
9.
Margir finnast menn þar góðir,
menntaðir og allvel fróðir,
oft hafa þeirra opnast sjóðir,
einhvers þörf nær fyrir brá.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Þekkir hver á braut sinn bróðir,
böls þá ama stundir.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
10.
Havstein minn ég helstan þekki
af höndlurum við sölu bekki,
viðkvæmt brjóst hann vantar ekki,
veglynd sál þar bústað á.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Mig — fjötraðan harma hlekki —
hann oft gleðja mundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
11.
Eyjafjörður allur saman
eykur minni sálu gaman,
þegar setur að mér amann
andinn þangað hvarflar þá.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Þó lítinn bæri ég lukku framann
Lóðins þar á sprundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
12.
Sældarleg er Svalbarðsströndin,
sé ég þar um fósturlöndin
blasa við, þá Yggjar öndin
yfir gægist fjöllin há.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Endurminning af sér böndin
öll þá leysa mundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
13.
Margt ég á þar árartogið
út um bláa hnísu sogið,
þreyttur oft með bakið bogið
björg ég flutti land upp á.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Máltíð kom á matartrogið
mörg úr opnu sundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
14.
Margt á ég þar mæðu sporið,
margt bar til um æsku vorið,
að margan hafi ég baggann borið
bakið á mér segir frá.
Fagurt galaði fuglinn sá.
Uppeldið af skammti skorið
skerða framför mundi.
Listamaðurinn lengi sér þar undi.
15.
Hvað er mér að gæla gaman?
Grind mín naumast hangir saman,
grannholda og grár í framan
gnötra líkt og sinu strá.
Feigur galar fuglinn sá.
Augun bráðum síga saman,
sofna ég grafar blundi.
Lúinn fauskur lengi sér þar undi.