Sigríður Helgadóttir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Sigríður Helgadóttir

Fyrsta ljóðlína:Þú varst mér svo hjartfólgin, hugljúf og mild
Bragarháttur:Sex línur (þríliður+) fer- og þríkvætt:aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1930

Skýringar

Fædd 16. sept 1907 – Dáin 26. nóv. 1930.
Í orðastað móður hennar.
1.
Þú varst mér svo hjartfólgin, hugljúf og mild,
við hlið mína stóðst þú af frábærri snilld
og liðsinni vildir mér veita,
ef særði mig eitthvað, þitt sólbrosið hlýtt
frá saklausum barnsaugum vermdi svo blítt
að samúðar létt var að leita.
2.
Þó voru þér hugþekkust stórfengleg störf,
starfsþráin brennandi, einlæg og djörf,
jafn listræn í hugsun og höndum;
að þreyta við íþrótt, er þrungin var snilld,
var þráin sem aldrei varð fullnægt að vild,
né leitinni í hugsjónalöndum.
3.
Því særði þig mest við hið sorglega slys,
þú sagðir: „Nú slokkna mín hugsjónablys,
og framtíðarvonirnar falla;
nú þrái’ eg deyja og hefjast sem hæst,
mitt hlutverk að skilja til hvers ég hef fæðst,
sú íþrótt er stærst fyrir alla.“
4.
Ó, sárt var að missa þig, Sigríður mín,
en sárara hvíldarlaus harmkvæli þín
og hafa’ ekkert hjálpráð sem dygði;
að fela þig drottni var öryggið eitt,
sem allt getur læknað og hörmungum breytt
og rofið burt skýið sem skyggði.
5.
Nú er það mín huggun, hve öruggt ég veit
þig alsæla í frelsarans dýrlegu sveit
að fullkomna fjölhæfi þína;
með hjartkæran bróður við hliðina’ á þér,
ég hlakka til samfunda’ er kemur að mér,
þá hérvistar-dagarnir dvína.