Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Messan á Mosfelli | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Messan á Mosfelli

Fyrsta ljóðlína:Ein saga er geymd og er minningamerk
bls.231
Bragarháttur:Sjö línur (þríliður+) fer- og þríkvætt aaBcccB *
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1913–1921
Þjóðsaga
1.
Ein saga er geymd og er minningamerk
um messu hjá gömlum sveitaklerk.
Hann sat á Mosfelli syðra.
Hann saup; en hann smaug um Satans garn.
Í sál bar hann trú, en dró kjólinn í skarn,
– einn herrans þjónn og eitt heimsins barn,
með hjarta sem kunni að iðra.
2.
Það var einn sumars og sunnu dag,
að sex voru komnir við tólfta slag,
en prestur í sænginni – sætur.
Nú stóð það á einum, að staðarsið.
Í stofuloftsgluggann hann brosti við,
með koddann við herðar, kútinn á hlið,
en kraga og hempu við fætur.
3.
„Heyþurrkur! Taðan og trúin krefst alls.
Hvert tún er í drýli sunnanfjalls,” –
kvað prestur. Enn glotti’ hann í gluggann.
Svo hristi hann kútinn. Þar kenndi ei grunns.
„Ó, kvöl og sæla míns eiturbrunns.”
Hann bylti sér við og bar sér til munns
sína bölvun og einustu huggan.
4.
Þá dundi í tröðunum. Hleypt var í hlað.
Hann heyrði traðkið, er þyrpst var að,
og fótatak fremsta gestsins. –
Húsfreyjan stóð upp, hvít eins og lík:
„Höfðingjarnir úr Reykjavík!”
Hún hvíslaði lágt og lagði flík
á loðbandsúlpuna prestsins.
5.
„Burstaðu hempuna. Bjóddu þeim inn.”
Hann beit á vör með hönd undir kinn
og olnbogann annan á stokknum.
Hann stundi, en mælti ekki orð.
Það augnablik kraup hann við drottins borð.
Ein hringing skalf yfir hljóðri storð.
„Hádegi!” – gall við í flokknum.
6.
Hann reis og greip hendi síns vinnuvífs,
vitni og skrift þeirra eydda lífs.
Hún rétti fram kirkjunnar klæði.
Svo litust þau á eina andartaks stund:
„Enginn af hinum fékk stærra pund.”
„ – Ég á einn mitt stríð – og mín opnu sund,
aleinn á beru svæði.”

7.
Þeir gengu í stofuna tíu tals,
hins tímanlega og eilífa valds
allir þeir æðstu á Fróni.
„Tvíhringt,” kvað biskup og tyllti sér innst.
„Nú tek ég sjálfur í streng, þess skal minnst.
Ég uppræti hneykslið, hvar sem það finnst.
Hér verður prestlaust á nóni.”

8.
„Velkomnir, kirkju og valdstjórnar menn!”
Hann varpaði kveðju á alla senn –
einart, en án þess að þóttast.
Svo gekk hann og yrti’ á hvern einn fyrir sig
þeim orðum: „Ekki hræðir þú mig.
Og biskup, ei heldur hræðist ég þig.
Á himnum er sá, sem ég óttast.”
9.
„Víndrukkni klerkur, klukkan er tólf,”
kallaði biskup og stökk fram á gólf,
þar djákninn við dyrnar stóð ystur.
„Messufall var hér að Synódusið. –
En samhringdu, Magnús. – Nú embættum við,”
– hinn kvað og vék biskupi hægt á hlið.
„Herra hér geng ég fyrstur.”

10.
Kramin um hjarta og kalin á trú
við kórbrík drap höfði staðarins frú
og hugsaði: „Heldur hann kjólnum?”
En þá féll eitt orð með afli og hljóm.
– Ævilánið var heltraðkað blóm;
hans nafn var til háðs, þeirra hönd var tóm.
Samt hóf hún ennið í stólnum.
11.
„Þið viljið þeim hrasandi hrinda til falls,
hnekkja þeim veika til fulls og alls,
svo bugaði reyrinn brotni.
Þið, hofmenn, sem skartið með hefð og fé, –
hingað var komið að sjá mig á kné.
En einn er stór. Hér er stormahlé.
Hér stöndum við jafnt fyrir drottni.
12.
Mín kirkja er lágreist og hrörlegt hof,
en hver sá sem gefur hér sjálfum sér lof,
hann stendur með stafkarls búnað.
Vesalings hroki af veraldarseim,
með visnandi hendur þú þjónar tveim,
því guð metur aldrei annað í heim
en auðmýkt og hjartans trúnað.
13.
Hver brýnir mót öreigans bæn sinn róm,
hver blettar sakleysið hörðustum dóm,
hver grýtir ef gæfunni hnignar? –
Hver drápshönd slær mannorð vort, dulin og sterk,
hver drýgir hugskotsins níðingsverk?
Já, hvar er vor dómstóll? Í hræsnarans kverk,
hraksins er þýlundin tignar.
14.
Ég drekk, það er satt. En ég ber minn brest.
Ég bið ei um hlífð. Hér sjáið þið prest,
sem saup sér til vansa og sorgar. –
En einmitt þá fann ég oft það mál,
sem endurhljómar í fólksins sál.
Þá setjast þeir hjá mér og skenkja mér skál:
– – „Þá skuld sínum guði hann borgar!”
15.
Mér hlýnar við þjóðarþelsins yl,
það þekkir allt mannlegt og finnur til,
og þar er ég góður og glaður.
En þið eigið námshrokans nauma geð.
Nirfill á hjartað, eins og á féð,
embættið þitt geta allir séð,
en ert þú, sem ber það, – maður?
16.
– Afbrotsins gata er oft svo ströng,
og undanhaldsleið vorrar skyldu þröng –
á brautunum glötunarbreiðum.
En víst er, að iðrun á einhverja náð, –
til einhvers er harmi í léttúð sáð,
og eitt sinn skal hrekkvísin heppna smáð,
sem hlykkjast á blómstráðum leiðum.
17.
Svo þegar ég boðast að borga mitt gjald
og brýt saman anda míns ferðatjald,
smæstur af öllum þeim smáu, –
þá veit ég, einhver líkn er mér lögð,
af lýðsins vörum hún skal verða sögð,
fyrir orð, fyrir stund, sem var steindauð þögð
í stofunum þeirra háu.” – – –
18.
Þeim brá. Hér var maður, sem sagði satt:
margt sómafólk verður illa statt
í kirkju hjá hreinskilnum klerki.
Hann talaði hart – og undir rós, en í raun
um réttarbófans og falsprestsins kaun,
sem smánar með klækjum og löstum á laun
jafnt lögin sem krossins merki.
19.
Sólin hún leit í hvern kirkjunnar krók.
Eins kvað hann upp hneykslin. Sem opin bók
stóð sektin hans sjálfs í björtu.
Og loks er einnar syndarabænar hann bað.
Þá blikuðu tár á Mosfells stað.
– Ræðan hans var ekki rituð á blað,
en rist í fáein hjörtu.
20.
Þar heyrðu þeir prest – við eitt bláfátækt brauð,
og brjóst þeirra eigin fundust svo snauð,
en bróðirinn brotlegi ríkur. –
Í minnum er höfðingja heimreiðin enn.
Þeir hurfu í messulok allir í senn.
Og það voru hljóðir og hógværir menn,
sem héldu til Reykjavíkur.