Þula | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þula

Fyrsta ljóðlína:Nær mun ég þann manninn
bls.bls. 124
Viðm.ártal:≈ 0
“Nær mun ég þann manninn
hér á landi fá
er mér lætur rauðan hring
úr gullinu slá?
Ég hélt það yrði hann Hjörvarður
herkóngur í Vík
sem nam mig burtu úr Naumudal
nóttina góðu
þá sjö voru á lofti sólirnar
og sváfu ljótu skessurnar.
Allt á tjá og tundri var
til og frá og alls staðar.
Karlar gamlir og kerlingar
kváðu æskustemmurnar.
Hljómuðu fossa hörpurnar
hrundu af strengjum perlurnar
gullið rann í glufurnar
glumdu und hyljum smiðjurnar
málmana dýru dvergar í mitti óðu
smiðjubelgina tróðu
smíðunum upp þeir hlóðu
mótuðu gull og gersemar
gripina hlaut ég marga
þeim er ég bæði búin að týna og farga.
Af úðanum risu regnbogar
röðuðu sér um snasirnar
á efsta boganum óskir manna glóðu.
Glitruðu af blómum grundirnar
gáskafullir ljósálfar
öllum látum létu þar
í lifandi blóma móðu.
Opnir fyrir mér allir himnar stóðu.
Fákurinn okkur burtu bar
brá á skeið um flatirnar
kveikti eld við urðirnar
allar stökk hann sprungurnar
flanaði niður á fjörurnar
og fór þar beint á nasirnar.
Riddarinn sökk í saltan mar
þar sá ég hann í hinsta sinn
en mér var gefið gönguprik
og grjót í pokann minn.

Síðan hef ég hrakist víða
haft við marga þraut að stríða
verið milli vona og kvíða
villst í myrkragöng.
Langt finnst þeim sem búnir bíða
berfættir á klakaspöng
fjarri sumri og fuglasöng.
En viss er endir allra hríða
og eins er um dægrin löng
í brúðarlíninu byrgi ég mig
þá blása veðrin ströng.
Förlast máttur, fótur og hönd
fýsir mig að bjartri strönd
þar sem klökkna klakabönd
og kvöldsól skín.
Aldrei kemst ég í Asíulönd
eða suður að Rín.
Langt fram til jökla liggur gatan mín.
Ein að rölta norður og niður
Nástrandir og tæpar skriður
eftir stíg sem enginn ryður
er mér brostið þor.
Sækist illa heiðin
seint kemur vor
drýpur tár af auga
dreyri í spor
dreyri í klakaspor.