Ljóðabréf | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Ljóðabréf

Fyrsta ljóðlína:Ljóðabréf eitt lítið hér ég læt nú flakka
Viðm.ártal:≈ 0

Skýringar

Heimild: Hörgársveit: vefur
1.
Ljóðabréf eitt lítið hér ég læt nú flakka
og óska að það þig hitta megi
á hríðarlausum sólskinsdegi.
2.
Þess ég óska, þess ég bið og það ég vona
að bréfið hitti þig og þína
við þægilega líðan fína.
3.
Ef vinnumaður vilt þú að ég verði hjá þér
allt hið næsta árið langa
þá afarkosti set ég stranga.
4.
Ég upp það set nú alveg fyrir utan kaupið
að ég þurfi ekki að prjóna
að öðru leyti vil ég þjóna.
5.
Svo ég ekki í baki bogni bið ég yður
að ég þurfi ekki að moka
og ekki troða heyi í poka.
6.
Ég upp það set en ekki fyrir utan kaupið
að ég megi á orgel læra
af því hef ég skemmtun kæra.
7.
Eina rollu á ég sem er orðin gömul
geld er og með galla á fæti
greyið er mitt eftirlæti.
8.
Svo hún verði setjandi í salt að hausti,
ég óska að megi greyið ganga
til gangna hvar sem hana langar.
9.
Í kvennatúr ég kannski þarf í hverri viku.
Má ég ekki á skíði skjótast
og skreppa á bæi rétt sem fljótast?


10. Taktu ekki hart á því þó heldur seinki
ferð minni af fljóða fundi
þú fyrirgefur þó ég dundi.
11.
Að endingu ég um það bið, því ei skal flíka
að ég hafi frá þér frið
í fjóra daga að gifta mig.
12.
Ef finnst þér þetta feykilega fúlir kostir
og öfugt gangi allt til baka
eg þá reyni til að slaka.


Athugagreinar

ort við tunglsljós 3. mars 1925
https://www.horgarsveit.is/is/mannlif/visnasafn/frimann-palmason