Úr virki | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Úr virki

Fyrsta ljóðlína:Þú leggur við hlustir
bls.56
Viðm.ártal:≈ 0
Þú leggur við hlustir
horfir út um ljóra
andvökuna þreytir
og óttast um margt.

Í ryðbrunnu húsi
handan rökkvaðrar götu
þar sem áður bjó söngur
fer eitursali á stjá.

Einn liðsodda bograr
hjá lampa í stofu
með ritblý í hendi
og hannar ný glöp.

Annar var kvaddur
þegar á leið kvöldið
til fundar við aðkominn
illræðismann.

Og í nálægri höll
er náttmyrkur bruggað
sem berast skal í dögun
um byggðir þessa lands:

Þú heyrir dyn
hinna hraðgengu véla
þegar fals og lygar
falla á hvítt.

Að vera eða ekki -
í veröld glæps og flærðar
þegar myrkrið fyllist galdri
og morðvopn er hvatt?

Að vera eða ekki -
hvað áttu til varnar
hvað áttu til sóknar
annað en blóm.

annað en minning
um morguninn ljósan
í döggvotu laufi
og draum þinn um líf?