Þórður í Haga | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þórður í Haga

Fyrsta ljóðlína:Engjavikurnar fimmtíu´ og fjögur!
bls.168
Viðm.ártal:≈ 0
Engjavikurnar fimmtíu´ og fjögur!
Farvegur dægra í skorðum alda, -
bruni á vöngum, vindar í hári
votir múgar á kvíslarbökkum
silfur á vatni, sorta í keldu
sólgulir kólfar í stararbeðju
veður í ljáum, leikur í hrífum
ljóð í skára, hending í brýnu
værð í þreytu, hljóð í hlátri
Heiðreksgátur við regn á tjaldi.

Fleygar vikur, fylltar hlöður
í fitinni kastað bröttu heyi
í norðanþerri; þar er að verki
Þórður í Haga, kembir við myrkur
og stjörnubirtu stálið háa
steypiþakið; - við sömu skímu
hefur hann vegljóst heim yfir Draga.
Í hélubráðið kemur hann aftur
að morgni hinn sama veg og vitjar
verkalauna á Draghálsengjum
fjögra kapla af fitjarheyi. -
Ég fer með honum niðureftir
að bakkasætinu. -
Siginn stakkur
er senn í reipum. Við hugum báðir
að lúnum klakki, lausum gjörðum
lösnu móttaki, sveltum dýnum -
hefjum kaup hans til klakks og jöfnum
kimbilhalla. -

Mér verður litið
á eilífðarskóbragð æsku minnar
á ullarhosur og brækur, gyrtar
í snúna sokka, á snjáða treyju
í snör augu undir slútum hatti. -
Hann kveður, hottar upp í kuldagarrann
á klára sína og stikar fyrir
yfir sölnandi lyng. -
Ég er lostinn höggi
í ljósri vissu: Ég hef kvaddan
í Haga-Þórði minn horfna föður
þessa heybandslest hins forna tíma
leiði ég síðasta líkamsaugum. -
Mig langar að kalla, skunda til hans
kveðja betur, en kem ekki´ upp orði
kólna, hitna og græ við lyngið.