Úr Jökulsárgljúfrum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Úr Jökulsárgljúfrum

Fyrsta ljóðlína:Glaðir sólargeislar lauga
bls.1992
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Glaðir sólargeislar lauga
gljúfrin björt á sumardegi
þar sem mæta undur auga
andstæður á förnum vegi.
Brunasandar, brattir stallar
birkikjarr með ilmi vænum
blómum skrýddir breiðir hjallar
bundulind í hvammi grænum.
2.
Hrikabjörg með brúnir gneipar
bera svipmót kynjamynda.
Verkun skugga og sólar sveipar
sjónarspil um þil og tinda.
Hagleg rista í köldum klettum
kveikir hugarflug að nýju.
Svipþung tröll með sárum grettum
sviflétt dís með brosi hlýju.
3.
Jökulsá með ólgu iðar
æðir fram úr gljúfraþröngum.
Þungri rödd við klettinn kliðar
kveður lag að fimbulsöngvum.
Byltir sér að bjargsins rótum
boðar faðma, sker og dranga.
Kuldalegum kærleikshótum
klettinn strýkur þétt um vanga.
4.
Í skjóli hárra hamradranga
hér má finna ró að nýju.
Þar sem blómabreiður anga
búnar skarti í sólarhlýju.
Birkikjarr um breiða stalla
berjalyng á rinda og hóli.
Bláeyg fjóla í bröttum halla.
Burnirót í klettaskjóli.
5.
Milli kaldra klettaþilja
kastar bergmál röddu þinni.
Skyldu huldar vættir vilja
vekja grun að návist sinni.
Þrotlaus elfar þungur niður
þylur lög í ótal myndum.
Vængjaþytur, þrastakliður
þýðlegt hjal í tærum lindum.
6.
Blaðsins hvísl í bjarkarlundum
blæmjúkt vindahjal um teiga.
Þýtur í straumi þétt á grundu.
Þetta eru hljóð sem gljúfrin eiga.
Sorgum burt úr huga hrindir
hér er hvíld frá lífsins stríði.
Þökk sé fyrir þessar myndir.
Þetta er Drottins listasmíði.