Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Árgarður 1. des. 1974 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1291)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Árgarður 1. des. 1974

Fyrsta ljóðlína:Sveitin mín fagra, þú fóstran mín kær
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Sveitin mín fagra, þú fóstran mín kær
með faðminn þinn hlýja og bjarta.
Þú við okkur brosir er vorgeislinn hlær
það vermir svo hug vorn og hjarta.
Mikilúðg ertu að sönnu að sjá
samt ertu hlý eins og móðir.
Við skiljum það börn þín er fórum þér frá
og fjarlægar könnuðum slóðir.


2.
Já, víst berðu fóstran mín höfuðið hátt
með hátignarsvipinn þinn bjarta
er fjöllin þín hillir við heiðloftið blátt
og háreist í kvöldroða skarta.
Rismikla heiðina, hamra og laut
á herðar sem möttul þú setur.
En Mælifellshnjúkinn sem skínandi skraut

það skart berð þú sumar og vetur.


3. Við erum hér börn þín með einlægum hug
og örlitla gjöf þér til handa.
Nú vildum við sýna af oss dáðir og dug
og djásn þetta reyndum að vanda.
Risinn er Árgarður reistur og hár
rammger og fágaður bæði.
Megi hann verða um ókomin ár
sem örlítið skraut í þín klæði.

4. Megi hann, fóstra mín, færa okkur hug
farsæla menningarstrauma,
verða hér uppspretta að atorku og dug,
uppfylling langþráðra drauma.
Beina okkar för inn á framtíðarlönd
með framsókn gegn böli og þrautum
með krafti sem blómgast ef hönd styður hönd
af hugrekki á ógengnum brautum.

5. Þú fóstran mín bjarta sem brosir í ró
börnin þín hlýtur að skilja.
Þó gjöfin sé fátækleg finnurðu þó
hún er færð þér af einlægum vilja.
Megi hún skreyta þau skartklæðin þín
er skín yfir vordagsins bjarmi
og eins þegar mjallbreiðan létt eins og lín
þér liggur á herðum og barmi.