Kálfshamarsvík | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Kálfshamarsvík

Fyrsta ljóðlína:Yst við Húnaflóann fríða
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Yst við Húnaflóann fríða
fögur ríkir ár og síð.
Líkt og drottning djásnum búin
Drottins mikla listasmíð.
Stendur vörð á sterkum rótum
stuðlaberg í klettasal
jafnt við brim og boða þunga
bárukoss og unaðshjal.
2.
Fjallahringur faldar bláu
fossinn klýfur bjargið hátt.
Stapi glæstur, laus frá landi
lýkur dyrum upp á gátt.
Flóinn opnar faðminn víða
fengsæl mið og trygga höfn
gullin sund í sólareldi
svipmikla og æsta dröfn.
3.
Nyrst við vestur djúpið dýra
Drangajökull rís úr sæ.
Perla í fagra fjallahringnum
fagurgjörð af hreinum snæ.
Spegilskyggð er Vík og Vogur
– vorið fer um norðurslóð –
Nóttlaus veröld, sól ei sefur
syngja fuglar dýrðaróð.
4.
Nesið skrýðist skrúði grænu
skín við Tjörnin fagurblá.
Í hólmum tveimur, er hana prýða
heimfús kría varpland á.
Friðsælt er í faðmi þínum
fóstran góð við ysta sæ.
Tigin klædd í töfra vorsins
tignarleg í vetrarsnæ.
5.
Drottinn blessi byggð og sögu
bernsku minnar Paradís.
Meðan brotnar sær við sanda
sólin björt í austri rís.
Fögur ríktu á friðarstóli
frjáls við Ægisbláu sund.
Ávallt mína ást og lotning
áttu fram að hinstu stund.