Lýðveldisljóð 17. júní 1944 - Ávarp til Fjallkonunnar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Lýðveldisljóð 17. júní 1944 - Ávarp til Fjallkonunnar

Fyrsta ljóðlína:Þú situr svo dýrleg á drottningarstól
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1944
1.
Þú situr svo dýrleg á drottningarstól
dreymandi fögur um vordaginn langan.
Þú haddinn þinn laugar í hádegissól.
Heiðbjört og tígin með rósir um vangann.
Og blómin sem öll við þitt brjóst eiga skjól
þau brosa svo vorloftið fyllist af angan.
2.
Þú breiddir út faðminn þinn feðrunum mót
að frelsinu hlúði ylríkum dölum.
Goðborinn kappi og gyðjum lík snót
guðunum krupu á rósbögrum bölum
Þau guldu þeim þökk, því að gefin var bót
glataðrar tignar í konungasölum.
4.
En jafnvel í fullhugum frelsisins var
falið það mein, sem að réði því bana.
Á afltaugar sundrung og ófriður skar.
Öfund varð máttug og hatur að vana.
Svo þjóðfleyið óðum að boðunum bar
- Bölið og óhöppin dýrt er að mana.
6.
Stígum því allir á stokk þennan dag:
Strengjum nú heit vor á þjóðhelgri stundu:
Að auka vorn hróður; Að efla vorn hag
Að einingu vaxa og drengsskaparlundu.
Að bannfæra úlfúð og Níðhöggva nag
og nöðrurnar flæma af íslenskri grundu.



Athugagreinar

Á því merka ári 1944 var Lýðveldið Ísland stofnað á Þingvöllum hinn 17. júní í slagveðri, en daginn eftir voru hátíðarhöld í blíðskaparveðri um allt land. Ekki þurftu læknishjónin í Skjaldbreið að fara langt til hátíðarhalda á Eyrarbakka hinn 18. júní. Útisamkoma var skipulögð á götunni fyrir sunnan Skjaldbreið, Ásabergi og gamla pakkhúsinu er nefndist Óðinshús. Þar var komið saman að lokinni skrúðgöngu og messu. Ólafur Helgason oddviti ávarpaði samkomuna, ræður tvær voru fluttar og kirkjukórinn söng ættjarðarlög. . . . En hinn hagmælti læknir Eyrbekkinga fékk líka að njóta sín eins og segir í Þjóðviljanum er greindi frá hátíðarhöldunum á Eyrarbakka:Lúðvíg Norðdal læknir flutti hátíðaljóð. . . . Hátíðaljóðið var einnig flutt á hátíðarhöldunum á Selfossi sama dag.