Vatn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vatn

Fyrsta ljóðlína:Sólin kastar sér á landsins
Höfundur:Nordahl Grieg
Heimild:Ljóð.
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1940
Sólin kastar sér á landsins
svörð úr fylgsnum skýjahæða
eins og yfir bráð í blindni
blóðþyrst, kviðug tígrislæða.

Undir dýrsins drungafargi
dauðamóð og níst við svörðinn,
undir ljósi og óþefsmollu
undir byrðum hafnarinnar
másar seinfær mannahjörðin.
Berst sem stuna blóðs og svita
burðarkarla hryglusöngur
yfir höfn og hleðslutorg
sumardag í Shanghai-borg.

Gin and bitter! Gin and bitter!
Drykkjustofan skipuð gestum.
Gegnum hróp og glaum við borðin
glittir, skín í drykk við drykk.
Mókandi augu í móðu hitans
mara í kafi, rauð og þrútin,
dvelja um stund við dagg-grá staupin
– gin and bitter, boy – be quick!

Inn í skuggans líkn við leitum
landar tveir á útigangi.
Ég er að kveðja – býst á brott.
Hann, er kyrr skal sitja og sakna
sér, að mér í augum þegar
lyftist brún af landsýn Noregs.
– Lucky devil, þú átt gott!

Hérna er annars allt í lagi
alltaf hestar, bíll og þjónar
ekkert vantar, allt til taks.
Það er bara þessi löngun,
þrá, sem ekki er hægt að svæfa
– gin and bitter, boy! – og strax!

Veiztu hvað ég þrái – þó að
það sé bara til að hlæja að –
og ég gæfi af ævi minni
ár til þess að sjá og fá
– hvað mig er að dreyma á daginn
– hvað mér veldur vöku um nætur?
Vatn í læk og á.

Vatn, sem streymir, vatn sem niðar
vor og haust með sínu lagi.

Geturðu skilið þessa þrá?

Ekki sem hér eystra – þræsið
ýlduskólp, sem mógult flýtur
fram með rek af rottulíkum
ræsaþef og forardaun.
Eitt sinn, er ég féll i freistni
fyrir mínum þorsta, fékk ég
sjúkravist í syndarlaun.

Vatnið hreina, vatnið heima
vatn, sem lagst er hjá og þambað
– þetta vatn mér veldur þrá.
Kannske er hlý og hæglát rigning.
Hljóðfall dropa úr björk og lyngi
kliðar létt við kaldan strauminn.
Kannske er yfir þoka grá.

Þetta er mig oft að dreyma:
Að ég liggi þarna og svelgi.
Freyðir um og yfir báða
úlnliðina vatnið kalt.
Stinnum hnúum stutt í botninn.
Steinar marka för í holdið
við hinn svala, þunga þrýsting.
Þannig sé og finn ég allt og allt.

Gin and bitter, boy! Og manstu
bragðið? Undan jökulfönnum
niður hlíð það knýst og kastast
kryddað safa úr runni og skóg.
Nakið berg og brúnar rætur
blanda flauminn sínum keimi,
berjalyng og blóðbergstó.

Hreint og ískalt, iðar, fossar
allt í flaumnum, heiðin, loftið
endalaust og öllum skilningi
ofar, manni að vör og kinn.
Fossar . . . iðar . . . Allt er svölun.
Áin kliðar, niðar friðar.
Ég er heimanvilltur . . . veikur.
Vatnið heima, ó, Drottinn minn!