Þingvallaþula 1930 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þingvallaþula 1930

Fyrsta ljóðlína:Kátt er á Þingvöllum
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1930
Kátt er á Þingvöllum
koma hingað enn
göfugar konur
og göfugir menn.
Erlendir gestir
og íslenskir menn
eins og bestu bræður
halda hrókaræður
og þeir tala
ensku, þýsku, frönsku
og þeir tala
sænsku, norsku, dönsku
og þeir tala
okkar móðurmál.
Hér má heyra söng
og í blíðum blæ
blakta fánar á stöng.
Ég vil sjá
meira, meira.
Ég vil heyra
glaðan goluþyt
fagran söng og fuglaklið
og fossanið.
Ég vil sjá
silungsá
djúpa hvamma, háa tinda
heiðarvötnin blá
þar sem hvítir svanir synda.
Ég vil heyra
svanasöng.
Ég vil sjá
meira, meira.
Sólin skín í heiði.
Hvað er nú á seyði?
Þarna trítla þúsund börn
upp í Almannagjá
og þau hoppa til og frá
út um hraun og inn í skóg.
Ekki nema það þó.
Komið hingað kæru börn
í mjúka mosató.
Ása, Sigga, Anna, Bína
Inga, Lilja, Hanna, Stína
Erla, Gunna, Nanna, Nína
Nonni, Siggi, Villi, Björn:
Komið sæl og blessuð börn.
Árni, Jói, Ingi, Lalli
Óli, Fúsi, Maggi, Halli
Tryggvi, Gunnar, Kjartan, Kalli
Baldur, Haukur, Bragi, Örn
komið sæl og blessuð börn.
Ég á heima í hrauni
skammt frá Öxará.
Ég er gamall
ég er þungur
jörðin eldi spjó
þegar ég var ungur.
Smátt og smátt
spruttu hér
blóm og ber
sólin skein
döggin hrein
draup í berjalyng
og græna skógargrein.
Enn er mér í minni
þegar hér var þing
sett í fyrsta sinni.
Fornmenn sögðu sögur
kváðu kvæði fögur
báru sverð og boga
brynju, hjálm og skjöld
létu eldinn loga
kvöld eftir kvöld.
Þjáði okkar þjóð
öld eftir öld
eldfjallaglóð.
Hvítabjörn á hafísjaka
hlammaði
hrömmum sínum þungum
og þrammaði
yfir fjörusand
upp á land.
Nísti hesta
kýr og kindur
kjóa, lóu
spóa, tóu
napur norðanvindur.
Kuldinn beit
blómareit
kuldinn beit
konur, börn og menn.
Íslendingar enn
kveða kvæði fögur.
Ég vil sjá
hafsins bláu rönd
hólma, fjörð og strönd
þar sem ólmar öldur
henda hörpudiskum
hátt upp á land
þar sem ólmar öldur
skola skeljasand
hola björgin há
mylja klett og mola
ég vil sjá
báta þá, sem þola
þeirra skvett og nöldur.
Ég vil spá:
Ísland verður senn
ágætt ferðamannaland
eins og Sviss
um það er ég viss.
Hér er Geysir
hér er Hekla
og á fegurð
engin ekla.
Inn í hraunið
út um engið
upp um fjöll og jökla
kátir ferðamenn
geta gengið
og vaðið elg í ökla.
Gaman er að tína ber
og blóm í fjallahlíðum
gaman er að renna sér
á skautum og skíðum.
Ég vil sjá
börn í æskublóma
glöð og prúð og góð.
greind og hraust og rjóð
börn, sem læra ljóð
börn sem gera sóma
sinni þjóð.
Norðurljósin kvika
kvöld eftir kvöld
bjartar stjörnur blika
öld eftir öld.
Aldrei skal ég veina
aldrei skal ég kveina
þó að norðanstormur
næði mér um kinn
þó að komi þruma
þó að elding hrufli
veðurbarinn vanga minn.
Ég ber
minn harm í hljóði einn
og ég mun standa beinn
þó að komi regn og rosi.
Ég er
STEINN
og skeggið mitt er mosi!