Árið | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Árið

Fyrsta ljóðlína:Gróandi vor
bls.31-33
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Gróandi vor
gjafari lífsins sem eykur oss þor
vekur oss aflið í armi
og eldinn í barmi.
2.
Sólbjarta stund
sóleyjar spretta um hóla og grund
vaknandi vorfugla kliður
og vatnanna niður.
3.
Draumfagra nótt
daggperlur glitra og titra svo rótt
hjá þér vil ég sál minni svala
að sumri til dala.
4.
Hásumartíð
sem huggun oss veitir, en samt er hér stríð
mannlegur máttur því veldur
og metorða eldur.
5.
Síðsumarkvöld
sólgeislar flétta sín gullofnu tjöld
dýrð sé þér drottning vors hjarta
dagstjarnan bjarta.
6.
Komið er haust
kveðja oss fuglarnir viðstöðulaust
hópast að heiman til stranda
og heitari landa.
7.
Fennir á jörð
frosthríðin þýtur um gaddaðan svörð
blómskrúðið fölnað og farið
allt frosthrími vafið.
8.
Skammdegis nótt
skuggarnir lengjast og allt verður hljótt
en ljósgeislar lífsins frá hæðum
þá loga í æðum.
9.
Eilífu jól
alltaf mun birta þín verma sem sól
gleðja jafnt hrellda og hrjáða
hrausta og þjáða.
10.
Öld eftir öld
alltaf mun þorri setjast við völd
hann fannirnar herðir á foldu
og frostið í moldu.
11.
Þótt fenni í spor
finnum við aftur hið gróandi vor
sólin á himninum hækkar
og hagléljum fækkar.