Fjara | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Fjara

Fyrsta ljóðlína:Fjaran flytur þér
bls.41
Viðm.ártal:≈ 1950
Fjaran flytur þér
ljóð hafsins:
Alda gjálfrar við stein
hvíslar málrúnum djúpsins
að brúnum þara
sem bærist í vatnsskorpunni.

Þú stendur í fjöru
og horfir yfir hafið
– veg allra vega.

Kastaðu á glæ trega þínum.
Verptu orði þínu
á sæbarinn fjörustein.
Ljúk auga þínu upp
fyrir bliki öldunnar
sem ferðast um hafið
veg allra vega.
Sökk í djúp minningu þinni.
Nem ljóð hafsins
og aldan mun bera
skugga þinn
á brott.