Þar er allur, sem unir | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þar er allur, sem unir

Fyrsta ljóðlína:Flestir leita að leiðum
Heimild:Hlín.
bls.2. árg. bls.3-4
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Flestir leita að leiðum
logi kvöin um þá
eitthvað út fyrir eldinn.
Allra sameign er þrá
til að lifa því lífi
sem að lætur þeim best.
Við að unna og una
eykst þeim lífsgildi mest.
2.
Klappar vorblærinn vöngum
vekur hugardraum manns
flytur gráhærðum, gömlum
geisla af barnsárum hans.
Hratt er gengið um hrjóstur
heim á feðranna völl.
Þar er allur, sem unir
eins í kotbæ sem höll.
3.
Hug minn ljúflegast laðar
laufgræn brekka og foss
þar sem átti eg áður
öll mín barnæskuhnoss.
Stiklar hugur á hörmum
hniginn sólríkri stund
teigar ástríki’ og unað
allt að síðasta blund.
4.
Ég á vor þó að vetri.
Vinarhönd eins og blær
hefir leitt mig um. landið
lyft mjer himninum nær.
Hefir sólskin í svip hans
sorta vísað á bug
hefir bjarma’ úr hans barmi
brugðið ljósi’ í minn hug.
5.
Ekki’ í loftsölum ljóða
lifa kysi eg mjer
en sem blíðvindi’ um brautir
barna og ástvina hjer.
Sæl eg gengi að svefni
sonum uppkomnum frá
ef eg vissi að vekti
vorhlý minning þeim hjá.


Athugagreinar

Höfundur notar dulnefnið Fríða.