Lestamannahóll | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Lestamannahóll

Fyrsta ljóðlína:Þú nemur staðar á Lestamannahól
bls.10-11
Viðm.ártal:≈ 2000
Þú nemur staðar á Lestamannahól
við vörðuna lágu
þar sem kynslóðirnar
– horfnar, grafnar, gleymdar
þreyttu þrotlausa göngu sína.
Andvarinn ber þig
aftur í blámóðu aldanna.
Hér var áð og hvílst
auga rennt til svananna
sem syntu á Hólmavatni
hvítir sem vonin
hlýtt á margradda söng
mófuglanna
horft til Eiríksjökuls
sem viðraði hvolfþak sitt
undir friðsælli heiðríkjunni
spáð í skýin yfir Tröllakirkju.
Hér var rýnt inn í framtíðina
sem beið hinu megin
við fjallið.

Og enn ert þú á ferð
einn á ferð, hér og nú
– einn á jörðinni!
Vegmóður nemur þú staðar
á Lestamannahól
varpar öndinni
svipast um;
einn með tímanum
einn með jöklinum.
Sól hallar til vesturs.
Jökullinn sendir þér
hinstu kveðju.
Mundu að þessi stund
er þér ætluð
því handan við fjöll og dali
bíður nóttin
löng.