Laugamaður kvaddur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Laugamaður kvaddur

Fyrsta ljóðlína:Nú kveðjum við skólann og höldum héðan
bls.296
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Nú kveðjum við skólann og höldum héðan
en hugsandi spyrjum því að:
Komum við aldrei að eilífu hingað
aftur á þennan stað?
Fáum við aldrei aftur að líta
alla sem dvöldu hér?
Þessi spurning er ofar öllu
öðru í huga mér.
2.
Laugamaður, er mörkuð þín stefna
er merki þitt nógu hátt?
Treystu ekki á hljóma heimsins
heldur þinn eigin mátt.
Lát ei bugast þótt brekkan vaxi
á braut þinni verði steinn.
Þig skiptir engu þótt skyggi með köflum
sé skjöldur þinn alveg hreinn.
3.
Ég man er við fundumst í fyrsta sinni
þá féllust mér hendur og orð.
Síðan höfum við löngum leikið
og lesið við sama borð.
Síðan hefurðu verið minn vinur
vinur sem aldrei brást.
Ég sagði þér allar sögur mínar
sorgir, gleði og ást.
4.
Hver von sem þú elur í vitund þinni
með vorinu glæðist á ný
þótt sumar hafi að hálfu leyti
horfið gleymskuna í.
Þótt engar rætist, þær áttu flestar
í öndverðu tilverurétt.
Þótt engar rætist, þú getur grafið
þeim gröf í sólríkan blett.
5.
Laugamaður, við lítum til baka
það liðna er enn ekki gleymt.
Hvert orð sem við trúðum hvor öðrum fyrir
til eilífðar verður geymt.
Loks þegar bíllinn ber þig héðan
bæn mína skilur ei neinn.
Ég stend úti á hlaði, hljóður í bragði
hugsandi, spurull, einn.
6.
Minning um löngu liðna daga
lifir í huga mér.
Þótt heimurinn væri helmingi stærri
skyldi hugur minn fylgja þér.
Ég finn þegar okkar fundum lýkur
verða fátækleg orðin mín.
Fólgin í nokkrum fallandi tárum
verður fegursta kveðjan til þín.