Stökur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
1.
Skvaldur spara mun eg mér
milli skara og vona.
Læt þær bara eins og er
allar fara svona.
–-
2.
Gengið hef eg margs á mis
má þó heita ríkur.
Áhyggjurnar eins og fis
af mér gleðin strýkur.
–-
3.
Ef frá striti á eg frí
unun veitir sanna
láta hugann laugast í
ljósi minninganna.
–-
4.
Þungt að bera helsi um háls
hafa lás á munni.
Gott er að mega ganga frjáls
í guði og náttúrunni.
–-
5.
Fráleitt hef eg farið rétt
fjöldans eftir lögum.
Lít þó margan ljósan blett
frá liðnum ævidögum.
–-
6.
Drjúgum hef ég drukkið bjór
daga bæði og nætur.
Ef það reynast afglöp stór
eflaust finnast bætur.
7.
Kyljur snjallar kveðast á
hvítnar allur boðinn.
Eg mun varla undan slá
ögn þó hallist gnoðin.
8.
Byljir þjóta – koma „köst“
kólna ævintýri.
Lífs er úfin „Látraröst“
lætur illa að stýri.
9.
Síðast þegar set í naust
saddur lífs af fári.
Heilagur drottinn hispurslaust
hýrgaðu mig á „tári.“